05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Fá orð sjást oftar á síðum heimsblaða um þessar mundir en orðið „stjörnustríð“. Frá því að Reagan Bandaríkjaforseti flutti ræðu í marsmánuði 1983 hefur það efni, sem hún fjallaði um, verið mjög til umræðu, ekki eingöngu í fjölmiðlum heldur líka á vettvangi þjóðþinga og ríkisstjórna.

Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 96 um stuðning við bann gegn geimvopnum. Flm. að þessu máli með mér eru hv. 1. landsk. þm. Kristín S. Kvaran og hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Efni þessarar þáltill. er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir og styðja á alþjóðavettvangi bann við geimvopnum þar sem miðað verði við:

1. Að allar rannsóknir og tilraunir er tengjast hernaði í himingeimnum verði tafarlaust stöðvaðar.

2. Að hvers konar hernaðarumsvif og vopnakerfi til nota í himingeimnum verði bönnuð.

3. Að óheimil sé smíði vopna sem grandað geta þeim gervihnöttum og öðrum tækjum sem tengjast friðsamlegri nýtingu himinhvolfsins.“

Þetta er efni þáltill. og í grg. með henni fjöllum við um þau sjónarmið sem að baki flutningi hennar liggja. Við teljum að það sé ekki seinna vænna að Alþingi Íslendinga marki afstöðu í svo afdrifaríku máli, einnig með tilliti til þess að á öðrum Norðurlöndum hefur verið um þessi mál fjallað á þjóðþingum og mörkuð afstaða með skýrum hætti, t.d. í Danmörku þar sem gerð var sérstök samþykkt um þessi efni í marsmánuði s.l., afstaða sem bindur hendur dönsku ríkisstjórnarinnar sem gjarnan vildi hafa uppi aðrar áherslur.

Þegar orðið „stjörnustríð“ kom upp á himin umræðunnar var því gefið annað nafn af þeim sem þar mælti fyrir, Reagan Bandaríkjaforseta, í umræddri ræðu 23. mars 1983. Hann gaf hugmyndum sínum um þessi efni nafnið „geimvarnafrumkvæði“ eða „Strategic Defence Initiative“, eins og það er kallað á enskunni, skammstafað SDI. Það eru þær fyrirsagnir sem oft sjást á síðum erlendra blaða, SDI-hugmyndirnar, SDI-áætlunin. Samkvæmt henni mundu Bandaríkin leita leiða til að eyða öllum langdrægum eldflaugum og kjarnaoddum sem skotið yrði á loft í átt til Bandaríkjanna og reyna að gera slík vopn óskaðleg. Með slíkum vopnabúnaði samkvæmt hugmyndum Reagans forseta og stjórnar hans, sem að hluta til yrði komið fyrir úti í himingeimnum, boðaði Bandaríkjaforseti að unnt ætti að verða að útiloka ógnina af gereyðingu af völdum kjarnorkuvopna og gera þau þar með „óvirk og óþörf“ í reynd, eins og hann orðaði það.

Þessi boðskapur forsetans og sú áætlun, sem honum tengist, hefur síðan kallað fram mikla og vaxandi gagnrýni, bæði innan Bandaríkjanna og á alþjóðavettvangi. Ýmsir þjóðarleiðtogar og þjóðþing hafa tekið eindregna afstöðu gegn áætluninni, eins ég gat um, m.a. í löndum sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu. Þar fór fyrir á sínum tíma Mitterrand Frakklandsforseti. Síðan hefur danska þingið ályktað um þessi efni og norska þingið hefur fengið í hendur sérstaka skýrslu frá ríkisstjórninni sem túlkuð var sem andstaða við þær hugmyndir sem að baki geimvopnaáætluninni lágu.

Ástæðurnar fyrir vaxandi andstöðu við þessa áætlun eru af margvíslegum toga og hér verða aðeins nefnd fáein atriði með tilvitnun í grg.:

„1. Geimvopnakapphlaup milli risaveldanna mundi gera að engu samninginn um takmörkun gagneldflaugakerfa, ABM-sáttmálann svokallaða frá árinu 1972, sem er einn gildasti þátturinn í SALT I samkomulaginu.

2. Geimvopnaáætlun Bandaríkjanna gæti girt fyrir allar frekari tilraunir til að hemja vígbúnaðarkapphlaupið og aukið þannig stórkostlega hættuna á gereyðingarstyrjöld.

3. Ríki Vestur-Evrópu yrðu hernaðarlega enn háðari Bandaríkjunum en nú er og vettvangur átakanna milli austurs og vesturs færðist í enn ríkari mæli en nú er til Evrópu.

4. Með tilkomu geimvopna mundi ákvörðun um stríð eða frið, líf eða tortímingu, færast endanlega úr mannlegu valdi yfir í vélrænar tölvur þar eð bregðast yrði við eldflaugaárás innan fárra sekúndna frá því að eldflaugum hefði verið skotið á loft. Hættan á tortímingu mannkyns vegna tæknilegra mistaka margfaldast að sama skapi.“

Þetta er tilvitnun í grg. en það má bæta hér við enn einu atriði sem mjög er fyrirferðarmikið í umræðu um þessi mál. Það eru hinar efnahagslegu hliðar og það gífurlega fjármagn sem ætlað er af Bandaríkjanna hálfu að leggja í þessa áætlun á komandi fimm árum. Bandaríkin hugsa sér ekki aðeins hin hugsanlegu hernaðarlegu not af þessari áætlun í framtíðinni heldur að geta hagnýtt sér afrakstur af áætluninni til að komast tæknilega fram úr keppinautum sínum í iðnaði og vinna þannig upp það sem á þau hefur hallað í hlutdeild á heimsmarkaði í samkeppni um útflutning og hlutdeild í milliríkjaverslun á undanförnum árum.

Það eru m.a. þessir efnahagslegu þættir sem menn eins og Kohl, kanslari Vestur-Þýskalands, reyna að nota sem rök fyrir því að taka verður tilboði Bandaríkjanna um aðild að geimvopnarannsóknum. Þar í landi, í Vestur-Þýskalandi, er nú deilt um afstöðu til þessarar áætlunar innan sjálfrar ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan er hörð í sinni andstöðu en frjálsir demókratar, sem eiga aðild að stjórn Vestur-Þýskalands, hafa einnig verið mjög andvígir þessari áætlun með Genscher, utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands, í fararbroddi.

Í Bretlandi hefur verið fjallað um aðild að þessari áætlun ekki síst á efnahagslegum forsendum. Thatcherstjórnin hefur undirbúið þar aðild en endanleg ákvörðun hefur ekki enn verið tekin.

Margir vísindamenn og hernaðarsérfræðingar hafa enga trú á að geimvarnadæmið gangi upp og geti veitt það öryggi sem Reagan notaði sem aðalröksemd í mars 1983. Viðbrögð gagnaðilans, Sovétríkjanna, yrðu að líkindum þau, ekki aðeins að setja af stað eða herða á eigin geimvopnarannsóknum heldur öðru fremur að fjölga langdrægum eldflaugum og fullkomna þær til að komast þannig fram hjá varnarviðbúnaði andstæðingsins. Þannig mundu Sovétríkin alltaf geta tryggt að hluti af eldflaugaregninu kæmist á leiðarenda. Geimvopnakerfi eru heldur ekki talin geta veitt vörn gegn árás stýriflauga sem fljúga lágt yfir yfirborði jarðar. Þannig er virkni slíkra vopnakerfa mjög óviss þótt tæknidraumarnir rættust sem SDI-áætlunin á að skera úr um. Niðurstaðan yrði að öllum líkindum langtum viðkvæmara og óvissara ástand en nú ríkir á hernaðarsviðinu.

Það væri freistandi, herra forseti, að vitna til ummæla í virtum erlendum blöðum um þessi efni nú alveg upp á síðkastið. Ég leyfi mér hér aðeins að taka eitt dæmi af slíkum skrifum úr vikuritinu The Guardian Weekly frá 24. nóv. s.l., en þar segir, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni „Þar sem Hvíta húsið hefur rangt fyrir sér“:

„Fyrsti fundur þjóðarleiðtoga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna í 6 ár fór fram í Genf í þessari viku og byrjaði á þriðjudag með kortérs einkafundi Reagans forseta og Gorbatsjoffs í Villa fleur de I'Eau, en á eftir fylgdi röð formlegra funda.

Varðandi takmörkun vopnabúnaðar er allt í uppnámi vegna stjörnustríðsáformanna. Þungi vísindalegra sjónarmiða gegn geimvarnarfrumkvæðinu SDI, Strategic Defence Initiative, er svo mikill að Rússar kunna að halda að hann nái yfirhöndinni. En samtímis eru þeir tortryggnir vegna þess þunga skriðs sem slík áætlun getur komist á með hergagnaiðnaðarbáknið að baki sér. Það eru rök fyrir ótta þeirra. Evrópskar ríkisstjórnir eru tortryggnar gagnvart SDI-áætluninni, en það kemur ekki í veg fyrir að þær reyni að krækja í samninga innan hennar. Aðeins Frakkar virðast reiðubúnir að láta eigin fjármagn fylgja hugsunum sínum. Paul Quiles varnarmálaráðherra Frakka hefur nýverið tilkynnt um mikla endurnýjunaráætlun í frönskum vopnabúnaði um framleiðslu kjarnaodda sem séu of litlir til þess að SDI-ratsjár Reagans forseta geti greint þá. Geti Frakkar gert það gildir það sama um Rússa.“ - Og þetta er tilvitnun í The Guardian Weekly.

„Fælingarmáttur Frakka byggir á gamaldags gagnkvæmri eyðingu eða Mutual Assured Destruction, skammstafað MAD, vissulega hræðilegri hernaðaráætlun en eins góðri tryggingu og hverri annarri svo lengi sem andstæðingar eru búnir gereyðingarvopnum. Hin dýrkeypta kaldhæðni er, eins og prófessor Lawrence Friedman hefur nýlega bent á, að hvorugur aðila hefur nálgast það mark að geta lamað hinn í fyrstu árás. en hugmyndin að baki geimvarnaráætluninni er að koma í veg fyrir hana. „Það er því engin nauðsyn að koma upp flóknu varnarkerfi til að vísa frá hernaðargetu, sem Sovétríkin ráða ekki yfir“", vitnar blaðið í Friedman prófessor.

„Það sem vekur hjá okkur óróa er að hér er um að ræða mikilvæga hernaðarlega umræðu milli risaveldanna þar sem mörgum á Vesturlöndum virðist Rússar hafa á réttu að standa en Bandaríkjamenn hafa rangt fyrir sér. SDl-áætlunin er ekki það sem Reagan telur hana vera, stein gullgerðarmannsins sem breytir plútóníum í skaðlaust ryk. Hún leiðir til óstöðugleika. Andstæðingar SDI-áætlunarinnar virðast í augum Bandaríkjanna vera ákærðir eða ásakaðir fyrir að taka hvorki afstöðu með vestrinu eða austrinu, að líta á risaveldin sem mjög áþekk. Það er þó alIs ekki tilfellið“, segir blaðið í lok þessarar tilvitnuðu greinar. „Það er einfaldlega að varðandi hina hugmyndalegu og tæknilegu spurningu hvort SDl-áætlunin sé góð hugmynd eða vond hefur Kreml rétt fyrir sér en Hvíta húsið á röngu að standa“, segir The Guardian Weekly í þessari grein fyrir nokkrum dögum.

Herra forseti. Í grg. með þáltill. flytjum við flm. frekari rök fyrir nauðsyn þess að Íslendingar taki afstöðu í þessu örlagaríka máli. Við getum vitnað til samþykkta fulltrúa hlutlausra ríkja og áhrifamikilla aðila, eins og yfirlýsinga og ályktana Palme-nefndarinnar og Delhi-hóps sex þjóðarleiðtoga frá árinu 1984, þar sem eindregið er lagst gegn þessum áformum.

Með samþykkt þessarar þáltill., sem ég mæli hér fyrir, mundi Alþingi taka undir með þeim fjölmörgu sem gera sér ljósa hættuna af þeirri stigmögnun vígbúnaðarkapphlaupsins sem fylgja mundi í kjölfar geimvopnarannsókna. Með till. er lögð á það áhersla að Alþingi Íslendinga leggi sitt lóð á vogarskálina gegn öllum hugmyndum um að nota himingeiminn til hernaðar nú og í framtíðinni og að fulltrúar Íslands fylgi þeirri stefnu eftir á alþjóðavettvangi.

Ég vænti þess, herra forseti, að við fáum viðbrögð í þessari umræðu frá hæstv. utanrrh. til þessa máls. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. utanrmn.