05.12.1985
Sameinað þing: 26. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

86. mál, bann gegn geimvopnum

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu á þessu stigi. Ég vænti þess að till. komi fyrir.utanrmn. og þar verður ástæða til þess að ræða ýmislegt sem hana snertir. En á þessu stigi vildi ég einungis taka fram að ég tel það skaða að ekki skuli í till. vera nánari útlistun á því hvað felst í þessari svokölluðu stjörnustríðsáætlun. Og ég held að það sé ekki hægt að afgreiða þetta, eins og mér virðist að umræðan sé að falla í, út frá einhverjum flokkspólitískum sjónarmiðum. Það verður að liggja fyrir hvað það er sem hér er um að ræða. Og það verður einnig að liggja fyrir hvaða möguleikar eru á því að svona áætlun standist.

Það eru einungis örfá atriði sem ég vildi minnast á í því sambandi. Í fyrsta lagi þá er alveg augljóst mál að enn hefur ekki verið þróuð sú tölvutækni sem dugar til þess að slík áætlun standist. Eftir því sem ég hef komist næst af lestri um þessi mál, þá er sá laser-geisli sem notaður er framleiddur með vetnissprengingum, og það líður aðeins skammur tími frá því hann virkar og þar til sprengingin verður, sú sprenging sem knýr hann. Það er því augljóst mál, ef við hugsum okkur að sendar séu upp 1000 eldflaugar, þá væri hugsanlegur möguleiki að ná þeim öllum, ef þeim væri skotið upp samtímis. En við skulum segja að dreift væri tímanum. Sendar væru upp 1000 eldflaugar - við skulum segja með 5 mínútna millibili eða 10 mínútna millibili, dragist yfir einn sólarhring eða eitthvað slíkt - þá er nær óhugsandi að komið verði upp kerfi sem ráði við slíkan fjölda eldflauga. Nokkur ár eru liðin síðan farið var að vinna að þessum málum og hugleiða þau.

Einnig er vandinn sá að þarna yrði að vera um nær algjöra sjálfvirkni að ræða. Það er ekki lengur um það að ræða að Bandaríkjaforseti taki hina endanlegu ákvörðun. Það hefur komið fram bæði í ritum bandarískra stjórnmálafræðinga og annarra, sem fjallað hafa um þau mál frá hinu hernaðarlega sjónarmiði, að forsetinn er þegar búinn að afsala sér miklu af því valdi sem hann hefur til þess að taka hina endanlegu ákvörðun. Ákvörðunin liggur hjá - ja, mér liggur við að segja hjá hinum og öðrum hershöfðingjum víðs vegar um Bandaríkin. Það er því nær ógerlegt - það er talið að það muni þurfa kannske eina mínútu til þess að taka ákvörðunina. Og það sér hver maður að það er engin mannleg ákvörðun tekin á einni mínútu. Það er sjálfvirknin sem ræður.

Menn óttast einnig að aðrir þættir eins og t.d. sá að skotið er upp, við skulum segja gervihnetti eða flaug sem á að fara hnatta á milli, yrði misskilinn sem hernaðarárás, þannig að allt kerfið væri komið í gang eftir örfáar sekúndur, ef einhver slíkur misskilningur kæmi í ljós. Það væri ekki mannlegur misskilningur heldur hreinlega misskilningur hinna sjálfvirku tækja.

Þriðja atriðið er svo það sem kannske er ekki hvað síst athyglisvert og íhugunarvert í þessu sambandi. Og það er að nær ógerlegt er að koma upp þeim grúa varnartækja að ekki væri meira og minna af kjarnorkueldflaugum sem kæmust á réttan stað. Eins og málum er nú háttað er því alls engin vörn í slíku, heldur miklu fremur að búið væri að leggja í óhemju kostnað sem samt sem áður gæti ekki komið í veg fyrir eyðingu hins siðmenntaða heims. Þannig að stjörnustríðsáætlunin, svo fallega sem hún lítur út, og það er vissulega fögur hugsun sem liggur að baki, það er fögur framtíðarsýn að finna upp vopn sem í eitt skipti fyrir öll kemur í veg fyrir að önnur vopn séu notuð. En hinir tæknilegu þættir eru óleystir og hreinlega sá grúi sem unnt er að nota, sem mundi duga, er ekki fyrir hendi. Enda þótt mjög margt og mikilvægt hafi þegar komið út úr þeim tilraunum og þeim rannsóknum, sem farið hafa fram í sambandi við þessa geimvopnaáætlun, þá held ég að hún verði aldrei að veruleika. Talið er að það muni taka 15-20 ár að beisla laser-geislann þannig að unnt sé að nota hann frá slíkri geimstöð. Það verður því að sjálfsögðu ekki Reagan og það verður varla Gorbatsjoff sem endanlegar ákvarðanir tekur um slíkt. Hins vegar mun halda áfram sú vísindastarfsemi og sú tæknibylting sem hugsanlega fylgir í kjölfar hennar. En ég held að stjörnustríðsáætlunin verði löngu afskrifuð áður en praktískir möguleikar eru á að koma henni í framkvæmd.

Þetta eru nú bara lauslegar hugleiðingar. Ég vona að þetta mál verði rætt í utanrmn. og þá mun ég leggja mikla áherslu á að óska eftir upplýsingum um hvað felst í þessari áætlun, hvaða tækniatriði það eru sem þarf að upplýsa og yfirleitt hvernig þetta fellur inn í viðleitni okkar til þess að draga úr stríðshættu í veröldinni.