02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

165. mál, herflugvöllur á Norðurlandi

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur gefið okkur. Það er öllum, trúi ég, ljóst að nauðsynlegt er að við byggjum varaflugvöll á Íslandi ekki bara fyrir okkur heldur einnig fyrir þá sem eiga leið um okkar næsta nágrenni.

Það hafa margir fjallað um þessi mál upp á síðkastið, bæði kirkjuþing og herstöðvaandstæðingar, og mig langar til að lesa nokkur orð sem sóknarprestur okkar Sauðárkróksbúa og prófastur Skagafjarðar skrifar í Morgunblaðið í síðustu viku út af umfjöllun kirkjuþings um málið, með leyfi hæstv. forseta:

„Samgöngubætur þessar kalla einstakir þingfulltrúar aukin hernaðarumsvif og varar kirkjuþingið við þeim.“

Og síðar segir séra Hjálmar Jónsson: „Hinn fyrirhugaði alþjóðaflugvöllur verður í framtíðinni mikil samgöngubót og ekki síður nauðsynlegt öryggistæki. Fullvíst má telja að herflugvélum í nauðum verði hjálpað til lendingar á Sauðárkróksflugvelli án tillits til tegundar eða þjóðernis. Skagfirðingar eru greiðasamir og sjálfsagt einnig til þess búnir að hjálpa kirkjuþingsmönnum niður á jörðina.“

Ég get sagt að við erum ábyggilega tilbúnir að hjálpa fleirum, sem um þessi mál hafa fjallað, til að komast niður á jörðina þannig að menn geti fjallað um þessi mál á vitrænan hátt, herra forseti.