02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

188. mál, sjúkranuddarar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það mál sem hér er spurt um hefur verið til umræðu meðal margra heilbrigðisstétta, fleiri heilbrigðisstétta en hv. fyrirspyrjandi nefndi hér. Það er rétt að staðið var að undirbúningi þessarar reglugerðar eins og lög mæla fyrir, enda hafa lögin að geyma afskaplega víðtækar heimildir fyrir ráðherra til þess áð kveða á um einkarétt tiltekins hóps til tiltekinna starfa og draga að sama skapi úr möguleikum annarra eða réttindum til þess hins sama starfs.

Þegar um svona víðtæk lög er að ræða, sem takmarka rétt hóps manna til starfa frá því sem er áður en slík fyrirmæli eru gefin út, er það mín skoðun að ráðherra þurfi að hafa það á hreinu að ekki sé gengið inn á svið annarra stétta.

Öðru máli gegndi ef slíkt mál færi í gegnum Alþingi. En ég treysti mér ekki til að standa að því að ákveða með einu pennastriki að tilteknum hópi manna skuli leyft að stunda starf sem hann og aðrar heilbrigðisstéttir telja hann færan til og öðrum, hópi sem líka er talinn til starfsins fær, sé ekki leyft að vinna það. Ég skal skýra nánar hvað ég á við, því að það kom í ljós einmitt í þessu máli.

Ég hafði þær upplýsingar þegar þetta mál var lagt fyrir að þær heilbrigðisstéttir sem þarna ættu hlut að máli væru á einu máli um drög að reglugerð og svo virtist vera áður en undirritað var. Þegar mér fóru að berast ábendingar um að sú væri alls ekki raunin fór ég að kanna betur bakgrunn ýmsan fyrir þessari reglugerð og ég komst að þeirri niðurstöðu að reglugerðin gengi að vísu ekki á neinn hátt í bága við heimildarlögin sjálf heldur í bága við lögin um sjúkraþjálfara. En það eru aftur á móti sérlög sem gilda um þá stétt og þá sem starfa með sjúkraþjálfurunum. Það var því niðurstaða mín að reglugerðin óbreytt gæti ekki staðist samkvæmt lögum. Þess vegna taldi ég ekki fært annað en að nema hana úr gildi á meðan unnið væri að samningu nýrrar reglugerðar.

Á meðan á þessu stóð kom fram að menn úr félagi sem heitir Nuddarafélag Íslands féllu ekki undir reglugerð um sjúkranuddara. Í Nuddarafélagi Íslands eru ýmsir starfsmenn sem eru mjög hæfir á þessu sviði og eru að margra dómi ekki síður lærðir en hinir, en þeir hafa ekki hlotið fræðslu sína í skólum heldur á stofum í starfi. Þar er t.d. um að ræða blinda fjölskyldumenn sem eru taldir mjög færir í starfi og ekki síður en ýmsir sem eru í Sjúkranuddarafélaginu. En reglugerðin kvað á um það að allar umsóknir skyldu fara í gegnum Sjúkranuddarafélagið þannig að þarna var einn áreksturinn. Milli sjúkraþjálfara og sjúkranuddara var annar árekstur. Einn þáttur reglugerðarinnar eins og hún var gekk að mínu mati í bága við skýrgreiningu á störfum sjúkraþjálfara sem er í lögum sem Alþingi hefur samþykkt, svo og reglugerð byggðri á þeim lögum.

Þegar svona stendur á tel ég að verði að ganga vel frá því að ekki sé ómaklega tekinn réttur af neinum með setningu reglugerðar og þá þess heldur að þetta vald er í hendi ráðherra, þegar um þennan hóp er að ræða, en ekki Alþingis. Við þetta vil ég svo bæta að ég er orðin varkárari en í upphafi þessa starfsárs míns sem heilbrrh. um setningu slíkra reglugerða því að eins og hv. þm. þekkja hefur það farið mjög vaxandi að ýmsar stéttir vilja fá löggildingu eða einkaréttindi til tiltekins starfs. f slíkum tilvikum tel ég, a.m.k. á meðan breyting skv. löggildingum er að komast á, að vera þurfi svigrúm til réttindaveitingar á þann hátt að vinnan sé ekki tekin af mönnum sem hana stunda, nema þá að sýnt sé að þeir hafi beinlínis unnið tjón með því starfi sínu þannig að hér er um að ræða mikla grundvallarspurningu. Aðalatriðið er það að slík heimildarlög verður að nota með mikilli varúð.