02.12.1986
Sameinað þing: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

206. mál, fjárveitingar til Alþýðuskólans á Eiðum

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Svo ég rifji það aðeins upp var á árinu 1982 lokið við að byggja heimavist sem rúmar um 40 nemendur, einnig kennaraíbúð. Nokkurt átak var þá einnig gert í að snyrta staðinn með því að malbika bílastæði við skólahúsið. S.l. tvö ár hefur verið unnið að því að bæta mötuneytishús skólans með því m.a. að skipta um miðstöðvarkerfi og ofna og setja tvöfalt gler í hluta af húsinu. Bætt hefur verið aðstaða til matargerðar í kjallara eldhúss, endurbætt hitakerfi í íbúð skólastjóra o.fl. Næstu verkefni, aðalverkefni m.a., eru að laga inngang og hreinlætisaðstöðu við mötuneyti, bæta einangrun húsa og setja tvöfalt gler í glugga þar sem það hefur ekki verið gert, mála að utan hús skólans og gera við múrskemmdir, endurbyggja að hluta heimavistir skólans, sérstaklega hreinlætisaðstöðu, og endurnýja innanstokksmuni, lagfæra eldhús í samræmi við nútímakröfur.

Þegar svara á þeirri spurningu hve mikilla fjármuna sé þörf á til viðhalds Eiðaskóla sérstaklega og svo annarra héraðsskóla raunar er strax hægt að svara því til að það eru miklum mun hærri fjárhæðir en stjórnvöld hafa talið sig geta látið af hendi rakna hinn síðasta áratug t.d. Viðhaldsþörf er orðin mikil og er nú unnið að því að endurmeta viðhaldsþörf staðarins á ný. Slíkt hefur raunar verið gert bæði árið 1973 og 1976, en í framhaldi af því hefur nægilegt fjármagn ekki fengist til að sinna þeirri þörf.

Ljóst er að ef ætti að endurmeta og lagfæra öll hús Eiðaskóla kostar það ekki undir, lauslega áætlað, 10-20 millj. kr. Auðvitað eru slíkar endurbætur háðar því hve mörgum nemendum á að ætla rúm í skólanum á næstu árum, en eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram er sem betur fer enginn uppgjafartónn austur þar í starfsemi skólans.

Við áætlanagerð í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 1987 óskaði menntmrn. eftir fjárveitingu fyrir Eiðaskóla að upphæð 2 millj. kr. Í frv. til fjárlaga 1987 eru áætlaðar 17 millj. til framkvæmda við héraðsskóla, en Alþingi á eftir að skipta þeirri fjárhæð.

Ég get getið þess að í fjárlagatillögum var lagt til að hlutur stofnkostnaðar héraðsskólanna af hálfu ráðuneytisins yrði 21 millj. 450 þús. Reykholt var þar efst á blaði með 8 millj., Núpur með 5 millj. 650 þús., Eiðar með 2 millj. kr. og aðrir héraðsskólar minna.

Það var getið sérstaklega í rökstuðningi fyrir þessari beiðni um endurnýjunarþörf á miðstöðvarlögnum í mötuneytishúsi skólans, tvöfalt gler í allt húsið árið 1987 og að einangra það betur til að minnka upphitunarkostnað og enn fremur skírskotað til margháttaðrar endurbótaþarfar á húsum skólans, en nú er eins og ég sagði unnið að áætlanagerð. Ég skal játa að það vekur manni áhyggjur hversu naumt er skammtað til þessara þarfa, alveg sérstaklega þar sem, eins og fram hefur komið í svari mínu, margháttaðra viðgerða og endurbóta er þörf á skóla sem stendur vel í stykkinu hvað aðsókn og rekstur varðar.