04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það gerist e.t.v. of sjaldan að við alþm. ræðum tilhögun starfsins hér á Alþingi og fundarsköp, en tilefni gefast stundum, eins og nú hefur átt sér stað, til að taka þau mál til umræðu og að mínu viti hefur hér átt sér stað alvarlegur hlutur sem hlýtur að vekja spurningar um hvort þau þingsköp og e.t.v. einnig verkstjórn innan ramma þingskapanna sé með þeim hætti að tryggi ætíð og ávallt sem lýðræðislegastan framgang mála á Alþingi.

Nú er það svo að þegar almennt er settur lagarammi um störf Alþingis er æskilegt að í honum sé tryggður nægur tími og næg umþóttun til þess að öll sjónarmið komi fram í málum og enginn verði þar út undan þingskapanna vegna. En það skiptir máli hvort eðli máls sem um er fjallað er tímabundið af sjálfu sér eða ekki. Megi ég taka dæmi, herra forseti, skiptir það t.d. máli hvort við erum að fjalla um undirbúning afmælis kristnitökunnar árið 2000 þannig að við höfum nokkurn tíma fyrir okkur til undirbúningsins eða hvort við erum að fjalla um atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem vitað er að mun fara fram eftir fáeina daga. Hér er einmitt um slíkt að ræða og þá gefur auga leið að ætli Alþingi sér að taka afstöðu, að móta stefnu í slíkum tilfellum, verður að haga verkstjórn og eða setja þingsköpin þannig að slíkt sé kleift. Ég get ekki skilið niðurstöðu þessa máls með öðrum hætti en þannig að það sé óhjákvæmilegt að taka til endurskoðunar annaðhvort eða hvort tveggja verkstjórn í nefndum á hv. Alþingi og eða þingsköpin.

Ég vil einnig, eins og hv. 3. þm. Reykv. gerði, vitna til ákvæða 15. gr. þingskapa um störf utanrmn. Ég hef áður gert það, herra forseti, og ég hef áður gert því skóna að þau ákvæði séu ekki alltaf virt sem skyldi af hæstv. ríkisstjórn. Það sem hér hefur gerst er að í máli sem orðið hefur að hitamáli og deilumáli á hv. Alþingi á undanförnum þingum hefur enn einu sinni mistekist að fá fram ótvíræðan vilja Alþingis sjálfs í málinu. Ákvæði 15. gr., með leyfi forseta, hvað varðar utanrmn. eru svohljóðandi:

„Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga og er ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.“

Því verður ekki á móti mælt að hér er á ferðinni eitt af meiri háttar utanríkismálum síns tíma, þar sem er kjarnorkuvígbúnaðurinn og tilraunir til þess að stöðva hann. Því verður naumast á móti mælt. Og þegar það gerist að utanrrh. fær ekki frá utanrmn. einhlíta leiðsögn, einhlítar ábendingar um afstöðu okkar á alþjóðavettvangi hlýtur það eðli málsins samkvæmt að vera réttasta málsmeðferðin að skjóta málinu til Alþingis sjálfs. Ef utanrmn. verður einhuga um niðurstöðuna og hæstv. utanrrh. fær slíkar leiðbeiningar frá utanrmn. er í sjálfu sér ekki mikið við það að athuga þótt málið komi ekki fyrir hv. Alþingi sjálft. En ef uppi er ágreiningur innan nefndarinnar, ef hann liggur fyrir og er ljós, er það að mínu mati hrein óvirðing við þingræðislegan framgang mála að málinu skuli ekki skotið til úrskurðar í Alþingi sjálfu. Það hefði tvímælalaust átt að gera í þessu tilfelli.

Það má einnig vitna í umræður um þetta sama mál frá fyrri þingum þar sem komið hefur í ljós mikill stuðningur við till. hv. Kvennalistaþingmanna og hv. 5. þm. Austurl. sem snerta þetta mál. Ég vitna í því sambandi í ræður hv. þm. Framsfl., afstöðu Alþb. og Kvennalistans. Alþfl., sem að vísu hefur verið í felum, hefur ekki heldur lýst yfir að hann sé andvígur málinu. Þannig gæti vel verið að eiga sér hér stað að meiri hluti Alþingis væri settur frá því að láta vilja sinn í ljós og snúa hæstv. utanrrh. á rétta braut í þessu efni. Auðvitað hlýtur hann að eiga að greiða atkvæði og taka afstöðu í samræmi við vilja meiri hluti Alþingis og það á að vera honum sjálfum öllum öðrum mönnum fremur keppikefli að svo sé, að hann viti það ávallt að hann láti greiða atkvæði fyrir Íslands hönd í samræmi við vilja meiri hluta Alþingis. Það þarf að vera alveg ljóst og hæstv. utanrrh. sjálfur ætti öllum öðrum fremur að keppa að því að svo sé.

Virðulegur forseti. Ég treysti því að þetta mál verði geymt en ekki gleymt og við betri tíð munum við ræða í fullri alvöru, hv. alþm., hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta hér um þannig að slík þingræðisleg óhöpp eigi sér ekki stað framvegis.