10.12.1986
Efri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

Útbýting mála í deildum

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Eins og fram kom í máli hv. 2. þm. Austurl. hafa verkefni þessarar hv. deildar að undanförnu verið fremur smá og fá. Það er rétt, sem kom fram í hans máli, að forseti þessarar hv. deildar hefur haft af þessu áhyggjur og ekkert tækifæri látið ónotað til að vekja athygli hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar á þessu atriði, þ.e. hvernig málum mætti skipta á milli deilda til að nýta sem best vinnutíma hv. þingdeildarmanna í Ed. En við stöndum samt frammi fyrir orðnum hlut. Það má segja sem svo að forseti sé á frumvarpaveiðum hvenær sem tækifæri gefst, en veiðin verður heldur rýr. En forseti mun að sjálfsögðu koma þessum skilaboðum áleiðis á þeim vettvangi þar sem hann hefur tækifæri til þess.