10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

212. mál, virðisaukaskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Örstutt athugasemd. Hæstv. fjmrh. vék að brtt. okkar Alþýðuflokksmanna við fjárlög á s.l. ári og vakti athygli á því að við fluttum till. um niðurfellingu á undanþágum í söluskatti sem hefðu leitt til verulegrar tekjuaukningar ríkisins, um rúmlega 2 milljarða. Hver var skýringin á því? Skýringin er fyrst og fremst þessi og hún kom ákaflega vel fram í svokallaðri skattsvikaskýrslu: Með varfærnu mati þeirrar nefndar sem þar lagði mat á skattundandrátt og skattsvik var því slegið föstu að undandráttur í söluskatti, sem er aðallega í skjóli undanþága, næmi hvorki meira né minna en a.m.k. 1,3 milljörðum kr. Við vorum m.ö.o. að gera till. við fjárlagagerð um að reyna að uppræta skattundandráttinn með því að fækka undanþágum. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.: Ef það er mat þeirra manna sem semja þetta frv. að útvíkkun skattskyldunnar og skattsviðsins og niðurfelling á undanþágum leiði ekki nema til 400 millj. kr. tekjuauka til ríkissjóðs, hvernig má það koma heim og saman við þær staðreyndir sem birtar hafa verið af opinberri hálfu um möguleika á tekjuaukningu með niðurfellingu á undanþágum og útvíkkuðu skattsviði?

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.