11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Framsóknarmenn hafa ekki tekið endanlega afstöðu í þessu máli. Framsóknarmenn hafa ekki lokað á hugmyndina um yfirtöku ríkisins á rekstri Borgarspítalans sem lið í skipulagsbreytingu í heilbrigðismálum þjóðarinnar, enda er það í samræmi við tillögur nefndar um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem verið hefur að störfum. Í kjölfar yfirtöku á rekstri Borgarspítalans hlýtur náttúrlega að fylgja yfirtaka á rekstri annarra sjúkrahúsa í landinu.

Samrekstur Landspítala og Borgarspítala getur leitt til bættrar sjúkrahúsþjónustu með aukinni sérhæfingu og verkaskiptingu á milli sjúkrahúsa. Ef ekki verður um samrekstur að ræða fæ ég ekki séð ávinninginn. Þá dugir ekki að hlaupa til og kaupa bara af því að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar eru óánægðir með að Borgarspítalinn fari á föst fjárlög.

Endurgreiðsla á útlögðum kostnaði er flókið mál. Yfirtaka á rekstri er allt annað. Ég hélt að ríkissjóður væri tæplega aflögufær þessa dagana að taka við fleiri pinklum. Og fleiri vilja nú útþenslu ríkisbáknsins en ég hugði. Það hefur orðið mikil umræða og hörð viðbrögð hjá starfsfólki Borgarspítalans við þessum hugmyndum. Vilji lækna og starfsfólks er mikilvægur og ber að hafa í heiðri. En náttúrlega eru það hagsmunir sjúklinganna fyrst og fremst sem við þurfum að hugsa um.