11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1326)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi yfir andstöðu þm. Kvennalistans við sölu Borgarspítalans til ríkisins. Ég vil enn fremur nota tækifærið til að átelja þau vinnubrögð sem höfð hafa verið í frammi í þessu máli. Það voru engin samráð höfð við starfsfólk Borgarspítalans né heldur við fulltrúa í borgarstjórn þegar tilkynnt var að fyrir lægi sala spítalans, en vitað er að mikil og kröftug andstaða starfsfólks hefur komið í ljós gegn þessari ráðstöfun. Það var heldur ekki leitað álits Reykvíkinga áður en ákvörðun um þessa kerfisbreytingu var tilkynnt.

Ég undirstrika að hvað efni málsins varðar hefur ekkert komið fram í máli hæstv. heilbrrh. né annarra sem rennir stoðum undir fullyrðingar um aukna hagkvæmni í rekstri ef ríkið tæki yfir stjórnun og rekstur spítalans. Hagræðingu í samstarfi sjúkrahúsa á Reykjavíkursvæðinu er nauðsynlegt að gera, en slíkt er hægt án þess að ríkið kaupi Borgarspítalann.

Hvað varðar neytendur - því það er annað mikilvægt atriði - er líklegt að þjónusta við sjúklinga verði minni en áður vegna niðurskurðar sem fylgir því að spítalinn fer á föst fjárlög. Það er ekki meiri halli á rekstri Borgarspítalans en á öðrum daggjaldaspítölum landsins. Og ég vil leggja sérstaka áherslu á að sjúkrahús eru líknarstofnanir og þjónustustofnanir en ekki framleiðslufyrirtæki og arðsemi þeirra verður ekki metin á hefðbundinn hátt. Til að meta þá arðsemi þarf breytt verðmætamat.

Síðasta atriði í máli mínu er að hagræðing í rekstri sjúkrahúsa og sú stefnubreyting sem þarf að verða í átt frá dýrri viðgerðarþjónustu yfir í fyrirbyggjandi heilsuvernd verður ekki farin í einu stökki. Hins vegar, ef hægt er að losa 6-700 milljónir úr ríkissjóði í þágu heilbrigðismála, á að verja þeim öðruvísi en að kaupa Borgarspítalann.