11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að hann skyldi skapa hér aðstæður til þess að þessi umræða gæti farið fram í dag. Það var óhjákvæmilegt vegna þess að þetta mál er að ganga yfir einmitt þessa dagana hjá þeim sem telja sig hafa valdið í þessu máli, þ.e. fjmrh., heilbrmrh. og borgarstjóranum í Reykjavík.

Ég fagna því, sem fram kom í ræðu hæstv. heilbrmrh., að það væri ekki hennar stefna að kaupa Borgarspítalann. Það væri hins vegar þannig ástatt að borgin vildi selja hann. Þetta er misskilningur hjá hæstv. heilbrmrh. Borgin hefur ekki gert neinar samþykktir um að selja Borgarspítalann. Borgarráð hefur ekki samþykkt það, borgarstjórn hefur ekki samþykkt það, stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkur hefur ekki gert samþykkt um það, heilbrigðismálaráð Reykjavíkur ekki heldur, starfsfólk Borgarspítalans ekki heldur. Það er rangt að Reykjavíkurborg hafi óskað eftir því að selja Borgarspítalann. Hins vegar er hugsanlegt að borgarstjórnarflokkur Sjálfstfl. hafi samþykkt að selja Borgarspítalann, en sú stofnun er ekki stofnun Reykjavíkurborgar, rétt til að leiðrétta misskilning. Mér þætti vænt um ef hæstv. heilbrmrh. gæti staðið fast á sinni stefnu í þessu efni og þá gegn þeim tilraunum sem Davíð Oddsson hefur í frammi hér til að kúga upp á ríkið þennan spítala.

Ég vil einnig mótmæla þeim almennu röksemdum sem hæstv. heilbrmrh. hefur í þessu máli. Samkvæmt hennar röksemdum er eðlilegt, ef maður tekur þær hátíðlega, að ríkið yfirtaki rekstur allra heilbrigðisstofnana í landinu, elliheimila, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, og samkvæmt hennar röksemdafærslu auðvitað skólana líka vegna þess að þar er um það að ræða að ríkið greiðir nokkurn kostnað, en sveitarfélögin hafa með reksturinn að gera. Hér er kominn miðstýringarmálflutningur sem á engan sinn líka í þessum ræðustól. Og það er sérkennilegt, eins og hv. þm. Páll Pétursson sagði, að þessi miðstýringarmálflutningur skuli hafður uppi af talsmönnum Sjálfstfl. sem reyna að fá kjósendur til að kjósa sig fyrir annað fyrir kosningar.

Ég held að það sé ójákvæmilegt í þessum efnum líka að mótmæla því sérstaklega, sem hæstv. heilbrmrh. var hér með áðan, að uppi hafi verið tillögur á mínum vegum um Heilbrigðisstofnun Íslands. Það er rangt. Ég hef ævinlega verið andvígur því og er það að ríkið stjórni öllum heilbrigðisstofnunum þannig að það hafi eignarhald þeirra og rekstur á sinni hendi. Ég tel að það sé til bóta fyrir heilbrigðisþjónustuna að um mismunandi eignarhald sé að ræða í þessu efni. En ég vil hins vegar í framhaldi af þeim upplýsingum og yfirlýsingum sem fram hafa komið vekja athygli á: Ef önnur sjúkrahús nú koma til hæstv. heilbrmrh. og segja: Góðan daginn, við viljum að ríkið kaupi þessa spítala, hvar ætlar heilbrmrh. að setja mörkin? Hvaða spítala á að kaupa og hverja ekki? Á að miða við hallann á spítulunum á þessu ári? Hvernig er hann? Sjúkrahúsið á Akranesi 28% halli á fyrstu níu mánuðum ársins, sjúkrahúsið á Patreksfirði 27%, Sauðárkróki 27,1%, Selfossi 25,7%, Keflavík 26,9, Gistiheimili Rauða krossins 23,4%, Hjúkrunarheimilið Fellsenda 29,9, Hlíðabær, Flókagötu 35,4%. Er það ætlunin hjá hæstv. heilbrmrh. að svara því játandi ef forráðamenn þessara stofnana biðja ríkið um að kaupa þær? Auðvitað getur það ekki verið. Auðvitað getur staða ríkissjóðs ekki verið þannig að menn telji þar að það sé rétt að fara að eyða stórfé í að kaupa stofnanir sem þegar er búið að byggja. Hér er um fjarstæðumálflutning af ræða af hálfu hæstv. ráðh. Það eru engin rök sem hafa komið fram, ekki hagkvæmnirök, en umfram allt ekki rök yfirmanns heilbrigðisþjónustunnar sem á númer eitt og tvö og þrjú að spyrja: Verður þjónustan betri við sjúklingana? Það er hlutverk heilbrmrh. númer eitt og tvö og þrjú í þessu efni,