21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

30. mál, truflanir í símakerfinu

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það vantar vitaskuld tengingar, en hins vegar er sjálfsagt að nýta það sem fyrir er og það hefur verið gert hjá símanum á undanförnum árum. Þegar gerðar hafa verið stækkanir á sjálfvirkum símstöðvum hafa símstöðvarnar sem fyrir eru verið fluttar til á minni staði. Hins vegar getur álagið verið of mikið. Við getum aldrei byggt símakerfi á því ef útvarpsstöð eða einhver slík óskar eftir samtölum. Ef það hringja allir í hana bilar kerfið, kerfið þolir það ekki. Við það verður ekki ráðið.

Ég tel að það hafi verið unnið afar mikilvægt starf hjá símanum á undanförnum árum og langmikilvægast af öllu er ljósleiðarakerfið. Það er mikill munur að leggja ljósleiðara, þar sem ekki þarf magnara nema á 50 km millibili, í stað blýkapla sem þurfti magnara á, ef ég man rétt, með um 15 metra millibili. Þetta leysir af höndum stórkostleg vandamál og því legg ég sem samgönguráðherra gífurlega áherslu á að þessum framkvæmdum verði haldið áfram og við það verður að miða gjaldskrá Pósts og síma á næsta ári og næstu árum.