21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

35. mál, kjarnorkuverið í Dounreay í Skotlandi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur að nokkru leyti upplýst það sem ég ætlaði að gera, en mér þykir rétt að þingheimur viti af því að á Norðurlandaráðsþingi á síðasta ári bar ég fram fsp. til ráðherranefndarinnar um annað kjarnorkuver og afleiðingar þess, en það er í Shellafield þar sem áður hét Windscale. Þar er löngu vitað að eru stórskaðleg efni í sjónum, börn hafa veikst og annað slíkt. Um það eru til viðamiklar skýrslur.

Fsp. minni svaraði umhverfismálaráðherra Dana, Christian Christensen, og tók mjög undir það að Norðurlöndin hefðu um þessi mál samstarf og ég held að mér sé óhætt að segja að við Íslendingarnir í Norðurlandaráði munum svo sannarlega fylgja því eftir að svo verði gert.

Að lokum, herra forseti, held ég að mál eins og þessi veki enn upp þá mikilvægu spurningu hvort ekki sé tími til kominn að stofnað verði umhverfismálaráðuneyti á Íslandi. Það er ákaflega erfitt að eiga við umhverfismál þegar þau heyra undir velflest ráðuneytin.