15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Grg. hv. þm. Stefáns Benediktssonar fyrir því sem hann nefnir sérstöðu Alþfl., því að fulltrúi Alþfl. skrifaði ekki upp á þetta þskj., gæti kannske valdið misskilningi um afstöðu okkar hinna sem skrifuðum upp á þskj. Ég vil taka af allan vafa með því að gera hér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að ég sem fulltrúi Alþb. og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sem fulltrúi Kvennalistans tökum það fram í nál. að við styðjum ekki þessa sérstöku tegund skattfrádráttar. Ástæðurnar fyrir þessu eru nákvæmlega þær sömu og hv. þm. Stefán Benediktsson var að lýsa hér áðan. Við erum almennt á móti frádrætti af þessu tagi. Við Alþýðubandalagsmenn flytjum tillögur og höfum oft áður flutt tillögur um að þessi frádráttarliður sé afnuminn. Ég hygg að allir þessir þrír flokkar hafi stutt tillögur við afgreiðslu fjárlaga um tekjuauka í ríkissjóð við það að þessi frádráttarliður sé felldur niður. Það er því ekkert nýtt í þeim efnum. En vegna þess að þetta er tæknileg breyting og ekki er verið að taka efnislega afstöðu til málsins, aðeins verið að breyta nokkrum prósentum til samræmis við verðlags- og tekjuþróun í þjóðfélaginu, þá þótti okkur ekki ástæða til að gefa út sérstakt nál., heldur létum það koma fram í nál. fjh.- og viðskn. að við værum þessum frádráttarlið andvíg en létum kyrrt liggja að meiri hl. nefndarinnar stæði fyrir að honum yrði breytt í samræmi við breyttar forsendur.

Hv. þm. Stefán Benediktsson nefndi það hér áðan að aðeins 2800 fyrirtæki í landinu greiddu tekjuskatt af um 10 000 fyrirtækjum. Þetta er vafalaust alveg hárrétt. Ég vil bara láta þess getið að ég hef verið með aðrar tölur í þessu sambandi. Ég hef nefnt það, og byggi það á tekjuskattsálagningu fyrir árið 1985, að af 4000 fyrirtækjum, sem hafa einhvern rekstur sem heitið getur og velta ákveðinni lágmarksfjárhæð, er aðeins helmingur, rétt um 2000 fyrirtæki, sem greiddi tekjuskatt á árinu 1985. Munurinn á þessum tveim tölum er einfaldlega sá að í tölunni sem hv. þm. Stefán Benediktsson nefnir eru líka öll smáfyrirtækin, þ.e. þessi fyrirtæki sem kannske velta allt frá 5 og 10 þús. kr. og upp í eins og eina milljón. En þegar búið er að skilja frá þessi pínulitlu fyrirtæki sem svo má kalla og við erum komin með fyrirtæki sem velta að lágmarki fast að einni milljón, þá verða eftir um 4000 fyrirtæki og það er helmingurinn af þeim sem ekki greiðir tekjuskatt. Mér hefur fundist að þessi viðmiðun væri kannske sanngjarnari og eðlilegri vegna þess að það er til svo mikið af fyrirtækjum, sum bara hreinlega að nafninu til og önnur með nánast engan rekstur, sem lenda inni í þessum stóru tölum þegar allt er meðtalið. En sú tala sem ég hef miðað við eru fyrirtæki með nokkurn rekstur. Þau eru um 4000 talsins og það er helmingur þeirra sem ekki greiðir tekjuskatt, en upplýsingar hv. þm. Stefáns Benediktssonar eru auðvitað alveg hárréttar eftir sem áður og ég er ekkert að andmæla þeim.

Ég vildi láta þetta koma skýrt fram vegna þess að mér finnst að það sé kannske af einhverjum misskilningi að við í stjórnarandstöðunni erum ekki samflota í málatilbúnaði að þessu sinni því að afstaða okkar er greinilega nákvæmlega sú sama.