15.12.1986
Neðri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hér til að greiða fyrir störfum deildarinnar reifa önnur tengd mál jafnframt þeirri umræðu sem hér fer fram um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Eins og komið hefur fram í máli þeirra sem talað hafa hér á undan mér af hálfu nefndarmanna er hér fyrst og fremst um að ræða samkomulagsatriði aðila vinnumarkaðarins, þ.e. fjmrn. annars vegar og BSRB og BHMR hins vegar og BK. Þessi mál fengu allítarlega umfjöllun í nefndinni og eins og fram kemur á þingskjölum hef ég með hliðsjón af þeirri umfjöllun sem málið fékk og þeim meðmælum sem það fékk frá aðilum vinnumarkaðarins lagt til að ekki einungis þetta frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem hér er á dagskrá, verði samþykkt heldur einnig önnur frv., þ.e. frv. varðandi breytingu á lögum um lögreglumenn og sömuleiðis varðandi réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og loks með fyrirvara það frv. sem varðar lög um Kjaradóm.

Ég þarf í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem komið hefur fram hjá hv. nefndarmönnum, einungis geta þess að fyrirvari minn varðandi frv. til I, um Kjaradóm er á því byggður að mér sýnist ekki vera í gildi neinar einhlítar reglur um það hverjir skuli njóta launa samkvæmt ákvörðun Kjaradóms. Sumir yfirmenn opinberra stofnana teljast samkvæmt þessu eiga að hljóta laun samkvæmt úrskurði Kjaradóms en aðrir ekki og þá væntanlega með einhverju tilteknu ráðherrasamkomulagi eins og það hefur verið nefnt. Ég tel að það sé galli á framkvæmdinni að hafa ekki skýrar og einhlítar reglur í þessum efnum og vil vekja á því athygli í hv. deild og því hef ég undirritað það frv. með fyrirvara.