15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. sjútvn. Nd., en gat því miður ekki verið viðstaddur fundinn 12. des. Ég er sammála niðurstöðu nefndarinnar, bæði um samþykkt frv. og um brtt. sem kemur fram í nál. Þessi breyting er sjálfsögð og eðlileg. Það er löngu tímabært að gæðamat á ferskum fiski færist í hendur sjálfra viðskiptaaðilanna eins og hefur raunar oft verið rætt um á þingi. Þannig tengist meðferð fisksins betur fjárhagslegum skiptum og hagsmunum þeirra. Þessir aðilar, þ.e. kaupendur og seljendur, þurfa eðlilega að finna þessu rétta framkvæmd. Það er mikilvægt að vel takist til í þessu efni án stórkostlegra afglapa eða árekstra. Það er kannske sérlega mikilvægt að vel sé á haldið þar sem eru stórir samningar og miklir hagsmunir í húfi, svo sem eins og síldarsamningar við Rússa.

Kaupendur og seljendur fá ekki langan frest til að finna þessu rétta framkvæmd þar sem lagt er til að þessi lög öðlist gildi 1. jan. 1987. Alþingi hefur raunar ekki fengið langan frest til að ræða þessi mál heldur þar sem málið er alveg nýlega komið hér inn í sali. En ég lýsi því yfir að ég er samþykkur niðurstöðu þessa nál.