16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1581)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin þrátt fyrir að ég hafi verið mjög undrandi miðað við þau ummæli sem hafa komið fram í blöðum eftir hæstv. ráðh. þar sem ég man ekki betur en fullyrt hafi verið að þessu hafi verið framfylgt á sínum tíma. En það er ánægjulegt að þessu verður breytt og nú verði komið til móts við alla vega 7900 lántakendur. En ég vil aðeins minna á að hér er bara um þá að ræða sem eru með lán sín tryggð gagnvart lánskjaravísitölu. Áður en sú vísitala var tekin upp, því að það er náttúrlega orðaleikur með þessar vísitölur, var byggingarvísitalan grundvöllurinn. Byggingarvísitalan hefur ekki hækkað minna ef ég veit rétt og kannske veit hæstv. ráðh. betur um það en ég. Þessi lækkun um 3% nær ekki til þeirra sem eru með byggingarvísitölu sem sinn grunn. Þetta kom einnig fram varðandi námslánin og ekkert hefur verið gert í þeim og ég veit að hæstv. félmrh. gerir ekkert í þeim efnum. Það er í öðru ráðuneyti. En þar er einnig um að ræða lánskjaravísitölu og svo framfærsluvísitölu áður en lánskjaravísitalan kom til greina. Lánskjaravísitalan er samansett af tveim vísitölum, byggingarvísitölu og framfærsluvísitölu, þannig að það er mjög sérkennilegt ef á að miða bara við orðið lánskjaravísitala, en byggingarvísitalan og framfærsluvísitalan skipta ekki máli og þarf ekkert að leiðrétta hjá því fólki sem er með lán sín tryggð á þeim vísitölum. Ég vildi að hæstv. ráðh. gæti upplýst betur um þetta.

Eins og fram kom hjá þeim hv. þm. sem komu hér í ræðustólinn og gerðu athugasemdir er þetta mál mjög stórt og mjög alvarlegt, enda þarf varla að segja hæstv. ráðh. það þar sem daglega má sjá auglýsingar í blöðum um uppboð á húsnæði. En það er eins og eyrun séu ansi lengi að opnast hjá hæstv. ríkisstjórn eins og sést á því að það skuli taka rúmlega þrjú ár að framkvæma slíka ákvörðun. Það segir ekkert um það í bréfinu frá hæstv. ráðuneyti hvernig eigi að framfylgja fyrirmælunum. Það þýðir ekkert að koma eftir á og segja: Það er bara stofnunin sem ber hér ábyrgð. Auðvitað á hæstv. ríkisstjórn að fylgjast með því hvernig framkvæmdin er á hennar ákvörðunum.