16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hæstv. félmrh. hengir bakara fyrir smið úr þessum ræðustól. Ég vil í þessu samhengi minna á að 28. okt. s.l. svaraði hæstv. ráðh. hér fsp. varðandi húsnæðismál og efndir á loforði ríkisstjórnarmeirihlutans í félmn. Alþingis varðandi samkomulag frá 21. apríl s.l. Hæstv. ráðh. lofaði þá að innan fárra daga kæmi inn á Alþingi greinargerð um þetta mál, en það var líka lofað frumvörpum. Almanakið hjá hæstv. félmrh. er að vísu afar sérstætt eins og við vitum og virðist oft ganga aftur á bak tímatalið hjá hæstv. ráðh. Enn bólar ekki á þessu þótt kominn sé 16. des. Ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er dæmigert um loforð og yfirlýsingar frá þessum hæstv. ráðh. gagnvart Alþingi.