16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það sem stendur upp úr í þessu máli er auðvitað það að fyrst kemur ríkisstjórnarsamþykkt sem menn skilja með ýmsum hætti og gengur sumum misjafnlega að skilja. Húsnæðisstofnun framkvæmir þessa samþykkt eins og ráðherra segir henni að gera. Nú þegar ráðherra þykir henta snýr hann við blaðinu og hefur allt aðra skoðun en hann áður hafði. Þetta er auðvitað fáheyrður málflutningur og furðulegur jafnvel þó menn séu ýmsu vanir.