16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

201. mál, fjárhagsvandi Þjóðleikhússins

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess í þessu sambandi að það þarf að hyggja að fleiru en Þjóðleikhúsinu, enda þótt það standi okkur kannske næst í þessari hv. stofnun. Ég hef miklar áhyggjur út af viðgangi ýmissa annarra leikfélagahópa og mér hafa þótt tregar og daufar undirtektir hjá fjármálayfirvöldum um hríð við beiðni um hækkun framlaga, t.d. til Leikfélags Akureyrar og Leikfélags Reykjavíkur reyndar, og eins hef ég miklar áhyggjur vegna Íslensku óperunnar. Allt er þetta enn til umræðu. Ég þykist þó vita að það verði ekki af miklu að má svo sem þótt einhverjar úrbætur væntanlega fáist.

En vegna þess sem hv. 11. þm. Reykv. gat um lít ég reyndar ekki svo á, ef hér yrði um að tefla vegna viðhalds og reksturs um 30 millj. kr. til Þjóðleikhússins, fyrir utan að ríkið verður vitaskuld að taka að sér skuldahalann upp á nær 90 millj. kr., fyrir utan þá vexti sem þetta kann að hafa hlaðið á sig, þá ætla ég ekki að kalla þá afgreiðslu, ef hún næst fram, smáa í sniðum, ekki að svo komnu. Við þurfum að gera betur, það veit ég vel, en það væri að mínum dómi þakkarvert skref sem með þessu yrði stigið.

En aðalerindi mitt var að ég mun svo fljótt sem kostur er, og það var einhver hv. þm. sem óskaði sérstaklega eftir því, það var Haraldur Ólafsson, hv. 9. þm. Reykv., ef ég man rétt, sem fór fram á það, gefa skýrslu á hinu háa Alþingi um niðurstöður þeirra tveggja nefnda sem hugað hafa að viðreisn Þjóðleikhússins. Það mun gerast svo fljótt sem kostur er.