17.12.1986
Efri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

254. mál, málefni aldraðra

Frsm. hellbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta mál og leggur reyndar einróma til að það verði samþykkt, en flytur þó brtt. á sérstöku þskj. sem er til komin vegna þess að launabreytingar hafa orðið aðrar milli áranna 1985/1986 heldur en áætlað var, 35% í stað 31%, þannig að þær tölur sem eru í frv. breytast í samræmi við það. Að vísu er nefskatturinn skv. frv. hækkaður um heldur meira en sem nemur þessari prósentuhækkun eða úr 1000 kr. í 1500 kr. Sú fjárhæð sem þannig verður til af þessum skatti er talin mjög nauðsynleg til þess að unnt verði að halda áfram brýnum framkvæmdum á vegum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það sakar ekki að geta þess að nú þegar hafa verið greiddar úr sjóðnum á þessu ári 92 millj. kr. en gert er ráð fyrir því að á grundvelli frv. þess, sem við fjöllum um hérna, verði tekjur sjóðsins 130-135 millj. kr. eða þar um bil.

Nefndin leggur einróma til að þetta frv. verði samþykkt.