21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er tímabært að minnast á þau samskipti sem varða Sovétríkin í verslunarmálum og ég þakka hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni að taka það upp.

Menn undrast að Rússar skuli ekki kaupa af okkur saltsíld og vissulega er afar slæmt að svo skuli vera. Það veldur atvinnuleysi víða um land. Eins og fram hefur komið er talið að Grindavík ein muni tapa um 80 millj. króna á því að missa af saltsíldarsamningnum. Milljónir tapast í öðrum byggðarlögum á Suðurnesjum og svo er það víða um land.

En ég minnist þess að þegar viðskiptasendinefndin kom frá Sovétríkjunum hafði formaður sendinefndarinnar mörg og fögur orð um að samningar mundu takast og væri ástæðulaust að efast um það. Í tilefni af þeim ummælum er ástæða til þess líka að spyrja hvort rétt hafi verið á málum haldið, hvort ekki hefði mátt gera betur- aðeins af því tilefni að Rússarnir sjálfir voru svo bjartsýnir í upphafi.

En það er eitt sem er ástæða til að spyrja að líka. Það kemur fram að Rússar vilja fremur kaupa ódýra síld frá Noregi og Kanada. Oft hefur verið talað um niðurgreiðslur þessara vinaþjóða okkar á fiskmörkuðum og menn fullyrða að hér sé um niðurgreiðslur að ræða. Er ekki ástæða til að kanna þetta frekar og mótmæla frekar? Ég spyr að því: Hvað hefur verið gert í þessum efnum? Hvað hefur verið gert til að mótmæla þessum niðurgreiðslum sem eiga að vera óheimilar samkvæmt EFTA-samkomulaginu eins og reyndar kom fram áðan? Ástæða er til að spyrja að þessu.

Ég vænti þess að allt verði gert sem mögulegt er til að samningar náist og við megum þrátt fyrir það halda okkar reisn í samskiptum okkar við þetta stórveldi og treysti því að hæstv. viðskrh. fylgi þeim málum fast eftir. En eftir sitja þessar spurningar hjá mér: Hvað hefur gerst í athugun á því hvernig okkar vinaþjóðir fara að því að niðurgreiða fiskafurðir í samkeppni við okkur og einnig sú hugleiðing hvort rétt hafi verið á málum haldið eða hvort formaður sendinefndar Rússa hafi aðeins verið með látalæti.