17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram í umræðunum að frv. þetta sé seint fram komið og það er vissulega rétt. Ég vil hins vegar geta þess hvernig að þessu máli hefur verið unnið. Þegar breyting sem þessi á að eiga sér stað er að sjálfsögðu mikilvægt að reyna að undirbúa hana sem best eftir því sem hægt er. Það hefur verið gert með þeim hætti að hafa um það náið samráð við þá aðila sem eiga að búa við þessa skipan. Málið hefur verið tekið fyrir á fundum, fyrst á sameiginlegum fundi í október, síðan á þingum hagsmunaaðilanna og um það hefur verið fjallað þar þannig að málið hefur fengið ítarlega umfjöllun hjá þeim aðilum sem við lögin eiga að búa. Það eru, leyfi ég mér að segja, allir þeir aðilar sammála um að þessi breyting þurfi að eiga sér stað. Það eru hins vegar til aðilar og þá sérstaklega Landssamband ísl. útvegsmanna sem telja að eigi að ganga mun lengra. En það má segja að sú leið sem hér er farin sé í nokkru samræmi við þær skoðanir sem hafa komið fram hjá fiskvinnslunni og einnig að verulegu leyti hjá sjómönnum þó það sé ekki eins afdráttarlaust, en það mun hv. sjútvn. að sjálfsögðu kanna við yfirferð á málinu.

Það er hins vegar rétt að það tók e.t.v. nokkrum dögum lengri tíma en þörf hefði verið á að koma málinu fyrir þingið. Það er rétt að framlagning var heimiluð í Sjálfstfl. fyrr en í Framsfl. Er það stundum svo með mál að það tekur misjafnlega langan tíma í flokkunum að fá heimild fyrir framlagningu. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er.

Ég vænti þess hins vegar að hægt sé að ljúka þessu máli vegna þess að það er mjög slæmt að breyting sem þessi sé lengi að veltast í meðferð og óvissa ríki um ástand mála. Það er af hinu vonda fyrir alla aðila og ég tel mikilvægt að koma þessari breytingu frá eins fljótt og auðið er.

Varðandi þær spurningar sem hér hafa verið lagðar fram eru hjá Ríkismati sjávarafurða, eins og ég gat um áðan, 79,65 stöðugildi. Á aðalskrifstofu og upplýsingasviði eru 9,25 stöðugildi, í afurðadeild eru 12, ferskfiskmatsmenn eru 43,6, yfirmatsmenn svæða eru 10, á rekstrarsviði og í ferskfiskdeild eru 4. Samtals 79,65 stöðugildi. Á þessu stigi liggur fyrir að ferskfiskmatsmönnunum verður sagt upp í fyrsta áfanga, yfirmatsmenn svæða, 10 talsins, munu að sjálfsögðu verða áfram, afurðadeildin mun starfa áfram. Hver fækkun verður á aðalskrifstofu og upplýsingasviði, þar sem eru 9,25 stöðugildi, liggur ekki enn fyrir og ekki heldur á rekstrarsviði og í ferskfiskdeild á þessu stigi en ljóst er að þar mun verða um endurskipulagningu að ræða og einhverja fækkun. Eins og ég gat um er nú gert ráð fyrir endurmati á stofnuninni og endurskipulagningu í framhaldi af þessari breytingu, ef af henni verður og þetta frv. verður samþykkt, og sá undirbúningur er hafinn. Fiskmatsstjóri mun annast þá vinnu og fá sér til aðstoðar tvo aðila, m.a. mun hann fá aðstoð ráðgjafarfyrirtækis við þau störf.

Það hefur verið spurt um fjárveitingar og hvernig fjármálum stofnunarinnar er komið. Ég fullyrði að fjármál stofnunarinnar hafa aldrei verið í eins góðu lagi og á þessu ári. Það hefur því miður í gegnum árin verið misjafnt ástand á fjármálum þessarar stofnunar og hún oft þurft á aukafjárveitingum að halda, en í ár mun stofnunin komast af með þær fjárveitingar sem hún fékk á fjárlögum ársins 1986 og ef eitthvað er verður afgangur fremur en hitt.

Hv. þm. Stefán Benediktsson spurði mig um tiltekna aðila og nefndi hvaða störf þeir hefðu stundað á sviði félagsmála. Ég tek það skýrt fram að þegar núverandi fiskmatsstjóri var ráðinn var frá því gengið milli okkar að hann mundi annast allt starfsmannahald stofnunarinnar og ég mundi ekki hafa þar nokkur afskipti af. Þannig hefur verið haldið á málum. Ég verð að segja að mér finnst það afar undarlegt þegar stjórnmálamenn og alþm. eru að ýja að því að það sé af hinu vonda að einhverjir tilteknir menn komi nálægt pólitísku starfi og láta í það skína að þeir séu nánast óalandi og óferjandi. Ætti hv. þm. Stefán Benediktsson að viðhafa önnur ummæli að mínu mati. Það er leiðinlegur ávani hvar í flokki sem menn standa, því að allir stjórnmálaflokkar þurfa á því að halda að fólk vilji í þeim starfa og nálægt þeim koma, að það skuli hvað eftir annað koma fyrir á hv. Alþingi að menn séu með slíkar slettur. Það er að mínu mati ekki til mikils sóma. En að öðru leyti vil ég ekki segja neitt um það og ítreka það, sem ég sagði áður, að ég hef hvorki afskipti af því hvaða starfsmenn þarna eru ráðnir, hvaða matsmenn eru þarna ráðnir né nokkurt „kontrol“ á því hvort þeir menn starfa einhvers staðar í félagsmálum, ekki einu sinni í Bandalagi jafnaðarmanna.

Hv. þm. Karl Steinar spurði um skipurit, sem er frá s.l. vetri, sem var tekið upp miðað við núverandi skipulag stofnunarinnar. Það skipurit verður að sjálfsögðu úrelt þegar þessi breyting hefur átt sér stað og mun þurfa að endurskoða það miðað við þær breytingar sem á verða. Það liggur alveg fyrir að þessar breytingar munu hafa veruleg áhrif á stofnunina og með þeim er endurskipulagningu hennar alls ekki lokið.