17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

231. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Örstutt athugasemd. Það er nokkuð einkennileg staða að við hv. 10. landsk. þm. skulum vera að ræða um almannatryggingalögin og séum mjög ósammála um ýmis atriði þeirra. Af því að hv. þm. var að tala um mismunun aftur og aftur og að almannatryggingalöggjöfin ætti að veita jöfnuð finnst mér miklar andstæður koma fram í hennar málflutningi vegna þess að um leið og hún er að tala gegn því sem ég hef hér talað um finnst mér að það komi fram í hennar máli að það megi mismuna t.d. elli- og örorkulífeyrisþega að því er varðar ekkju- og ekklabætur. Hún talar um að það sé eðlilegt þó að ellilífeyrisþegar hafi þær ekki. (GHelg: Ég sagði ekki að það væri eðlilegt, hv. þm.) Ég vil út af því, með leyfi forseta, vitna í umsögn frá Tryggingastofnun ríkisins að því er varðar ekkju- og ekklabætur til ellilífeyrisþega, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Stofnun réttar til grunnbóta lífeyristrygginga almannatrygginga grundvallast á lífeyrisatburðum. Það er meginreglan að bætur almannatrygginga taki til allra sem eins er ástatt um, þ.e. verða fyrir ákveðnum lífeyrisatburði sem almannatryggingalög tengja bótaskyldu við. 17. gr. almannatryggingalaga er ekki í samræmi við ofangreinda meginreglu þar sem hún undanskilur ellilífeyrisþega frá bótarétti í tilefni fráfalls maka. Lagaákvæðið felur þannig í sér undantekningu frá meginsjónarmiðum laganna.“

Ég held að þetta sé eins skýrt og verða má og ég er tilbúin að skoða það, herra forseti, með hv. 10. landsk. þm. hvort við eigum ekki að setjast niður og skoða 13. gr. almannatryggingalaga og fella einstæða foreldra t.d. undir það ákvæði þannig að ef einstæðir foreldrar eru bundnir heima vegna sjúkleika barna geti þeir fengið sams konar bætur.