17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ætli hæstv. fjmrh. heyri mál mitt? Ég hafði hugsað mér að beina til hans spurningum. (Forseti: Hæstv. fjmrh. mun vera upptekinn vegna umræðna í Ed. Óskar þm. að geyma ræðu sína eða getur hann haldið henni áfram?) Ég óska eftir því að umræðum verði frestað þangað til fjmrh. má vera að því að hlýða á mál þm. (Forseti: Ég vildi þá spyrja hv. 4. landsk. þm., sem er næstur á mælendaskrá, hvort hann gæti flutt ræðu sína án þess að fjmrh. væri viðstaddur.) (GE: Ég er með brýn skilaboð til fjmrh. um skattsvik.) (Forseti: Nú er hæstv. fjmrh. genginn í salinn ef hv. 3. þm. Reykn. vildi flytja ræðu sína.)

Herra forseti. Þegar gengið var frá svonefndum febrúarsamningum var gert eins konar samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, samkomulag sem var talið undirstaða og grundvöllur þeirra samninga sem þá tókust. Í þessu samkomulagi komu fram ýmsar óskir af hálfu aðila vinnumarkaðarins sem ríkisstjórnin tók undir og tók að sér að framkvæma. Sumt af því sem þar kom fram varðaði reyndar skattana í landinu. Þar var m.a. ákvæði um aðgerðir til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 eða síðar. Þar segir m.a. um þetta atriði:

„Þeir sem veitt er lánafyrirgreiðsla með þessum hætti, þ.e. með þeim hætti að þeir fái greiðsluerfiðleikalán, skulu eiga rétt á húsnæðisafslætti.“

Hér er verið að fjalla um að nú þegar verði varið ákveðnum fjárhæðum til þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum til viðbótar því sem áður hafi átt sér stað og þessari heildarfjárhæð verði varið samkvæmt nánari reglum sem stjórn Húsnæðisstofnunar setur til viðbótarlána til þeirra sem hófu byggingarframkvæmdir eða keyptu húsnæði á árinu 1980 eða síðar og eiga í greiðsluerfiðleikum eða hafa ekki getað lokið framkvæmdum. Um þessi lán segir að lán þessi verði með sama lánstíma og almennt er á lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins.

En síðan kemur það sem varðar skattamál því að þar stendur: „Þeir sem veitt er lánafyrirgreiðsla með þessum hætti skulu eiga rétt á húsnæðisafslætti, x kr. í y ár talið frá byggingar- eða kauptíma, í stað vaxtafrádráttar ef þeir kjósa það frekar.“

Síðar í þessu samkomulagi segir enn fremur, þ.e. 7. liður: „Frá og með árinu 1986“, ég vek athygli á því að það stendur frá og með árinu 1986, „verður þeim sem kaupa og byggja í fyrsta sinn veittur húsnæðisafsláttur, x kr. á ári í tíu ár miðað við núgildandi verðlag. Afsláttur þessi miðist við hvern einstakling og dragist frá sköttum og getur verið útborganlegur. Jafnframt verði þak á afslætti í núverandi mynd 200 þús. kr. Þeir sem byggðu 1985 eða fyrr geta valið um hvort þeir fylgja núgildandi reglum eða nýjum reglum, enda verði þeirri ákvörðun ekki breytt eftir að hún hefur verið tekin.“

Nú er komið að seinustu dögum fyrir jól og hér hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að afgreiða frv. til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og reyndar alla þá tekjustofna aðra sem ríkið ætlar sér. En ég sé ekki að í neinum þessum plöggum komi fram að ríkisstjórnin hafi efnt eða ætli sér að efna það fyrirheit sem í þessum ákvæðum og atriðum, sem ég hef upp lesið, felst. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé hugmyndin að standa við þau fyrirheit sem hér voru gefin og hvort ekki sé þá von á lagafrv. eða frv. til breytinga á lögum varðandi þetta efni núna á þessum dögum fyrir jól. Ég tel nauðsynlegt að við því fáist skýr svör hvort hugmyndin sé að standa við þessi fyrirheit eða ekki. Um það mál sem hér er til afgreiðslu vil ég síðan segja að ég tel það mjög miður að frá því skuli nú eiga að ganga, þessum lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með þeim hætti sem hér um ræðir. Það er ekki einasta að hafnað hafi verið öllum hugmyndum sem fram hafa komið um að grisja frádráttafrumskóginn hjá fyrirtækjunum, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði mjög að umtalsefni, heldur hefur líka verið hafnað að taka ákveðin skref til þess að draga úr skattsvikum, skref sem koma fram ábendingar um í skýrslu sem hæstv. fjmrh. og fyrirrennari hans í embætti létu vinna, væntanlega með tilliti til þess að taka ætti á skattsvikunum í landinu en ekki bara að hugmyndin væri að safna hér saman einu pappírsgagninu enn. Þetta er mjög miður.

Í þriðja lagi tel ég að ríkisstjórnin hafi farið offari í skattlagningu sinni samkvæmt þeim hugmyndum sem nú er ætlunin að samþykkja, offari í skattlagningu sinni á venjulegt vinnandi fólk og það furðar mig að fjmrh. úr röðum Sjálfstfl. skuli ekki sjá, eftir þær ábendingar sem fram hafa komið, hversu fráleitur sá skattstigi er sem setur venjulegt vinnandi fólk í hæsta eða næsthæsta skattþrep. Það hefur verið sýnt og sannað, m.a.s. dregin upp af því mynd í nál. sem ég skilaði, að jaðarprósenta í sköttum er 40% í næstefsta þrepi og 50% í því efsta. Þetta eru firna háar prósentutölur fyrir venjulegt fólk.

Mig minnir að fulltrúar Sjálfstfl. hafi oftar gert það að umræðuefni að þeir vildu að venjulegt vinnandi fólk hefði tækifæri til þess að vinna sig til bjargálna, að þeir vildu að frelsi einstaklinganna í þessum efnum væri virt og það væri ekki ofþjakað með skattpíningu, þannig að hver sá sem vildi vinna hefði af því verulegan hag. En nú er svo komið samkvæmt þessu lagafrv., eins og ríkisstjórnarflokkarnir ætla sér greinilega að ganga frá því og samþykkja það hér, að venjulegu vinnandi fólki á að gera að borga 40 eða 50% af hverri viðbótarkrónu sem það vinnur sér inn umfram 73 000 annars vegar, en 42 200 hins vegar. Ég vil eindregið beina því til hæstv. fjmrh. að hann skoði þetta mál nánar og þá afbökun sem er orðin á skattstiganum.

Auðvitað er ekki tækifæri til þess hér núna að taka á öllum þáttum skattamálanna með þeim hætti sem nauðsynlegt væri en hér hefði a.m.k. verið ástæða til þess að lagfæra þá augljósu agnúa sem greinilega eru á frumvarpinu. Ég vil þess vegna inna hæstv. fjmrh. eftir því í fyrsta lagi hvort hann hyggist ekki láta skoða þessi mál nánar þegar í stað að því er jaðarprósenturnar varðar og í annan stað hvort hann hyggist þá ekki a.m.k. láta taka það mál til meðferðar strax að loknu jólaleyfi.

Að endingu, herra forseti, vil ég ítreka spurningu mína um það hvort ekki sé hugmyndin núna fyrir jól að leggja fram lagafrv. sem sé í þá veru að staðið verði við þau fyrirheit varðandi húsnæðisafslátt sem gefin voru í sambandi við febrúarsamningana og talin voru einn af undirstöðuþáttum þeirra samninga þegar þeir voru gerðir.