18.12.1986
Neðri deild: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál efnislega, ég tók þátt í afgreiðslu málsins í hv. fjh.- og viðskn., en ég get ekki stillt mig um að láta þá skoðun mína í ljós að mér þótti ræða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar ekki drengileg. Hann er að finna að því við hv. stjórnarandstæðinga að þeir nenni varla að tala fyrir nál. og er nánast að mana þá til að tefja fyrir þingstörfum.

Ég vil segja það að ég tel að hv. stjórnarandstæðingar hafi þvert á móti reynt að greiða fyrir þingstörfum með því að stilla máli sínu í hóf og það virðum við sem höfum verið að reyna að semja um að þingstörf gætu gengið sem greiðast fyrir sig. Þess vegna kann ég ekki að meta það þegar þm. úr liði ríkisstjórnarinnar flytja ræður eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson flutti.