18.12.1986
Neðri deild: 29. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til lánsfjárlaga. Frv. hefur verið til umfjöllunar í Ed. Alþingis og samþykkt þaðan. Í frv. er heildarfjáröflun til opinberra aðila, fjárfestingarlánasjóða og atvinnufyrirtækja áætluð 17,9 milljarðar kr. Þar af er ráðgert að afla 9,7 milljarða innanlands og 8,2 milljarða kr. með lántökum erlendis. Þá er í frv. talið að sem næst jöfnuður verði á viðskiptum við útlönd á árinu 1987.

Ljóst er að nýgerðir kjarasamningar koma til með að hafa nokkur áhrif á þetta frv. svo og frv. til fjárlaga. Sýnt þykir að áhrif kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins munu hafa veruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Þar vega þyngst óhjákvæmilegar hækkanir bóta lífeyristrygginga, takmörkun á gjaldskrárhækkunum ríkisfyrirtækja og að horfið verður frá álagningu orkuskatts. Allt bendir því til verulega aukins halla á ríkissjóði í krónum talið þó að reikna megi með að halli í hlutfalli af þjóðarframleiðslu verði svipaður og á þessu ári þegar upp verður staðið. Og ekki verður litið burt frá því að afla verður ríkissjóði lánsfjár til að mæta þessum nýju aðstæðum.

Ríkisstjórnin stefndi að því með frv. til lánsfjárlaga að auka lántökur innanlands, enda hefur aukinn sparnaður í þjóðfélaginu gert það kleift. Í tengslum við kjarasamninga og sameiginlegan vilja ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins til að gera ráðstafanir til að draga úr hættu á aukinni þenslu í þjóðfélaginu voru ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins sammála um að gera það sem unnt væri til að auka lántökur innanlands á vegum fjárfestingarlánasjóða og ríkissjóðs.

Endurskoðun á ráðstöfunarfé lífeyrissjóða á árinu 1987 gefur til kynna að ráðstöfunarfé muni nema 6,8 milljörðum kr. á áætluðu meðalverðlagi þess árs. Ráðgert er að 55% af því renni til skuldabréfakaupa lífeyrissjóðanna af húsbyggingarsjóðum eða sem nemur 3,7 milljörðum kr. auk 40 millj. kr. til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Óráðstafað fjármagn lífeyrissjóðanna nemur því rúmlega 3 milljörðum kr.

Að því er stefnt að hluti þess ráðstöfunarfjár fari til skuldabréfakaupa ríkissjóðs er nemur um 1300 millj. kr. og 700 millj. kr. til skuldabréfakaupa atvinnuvegasjóða. Þetta er annars vegar gert til að mæta viðbótarhalla á rekstri ríkissjóðs og hins vegar til að draga úr erlendum lántökum atvinnuvegasjóða. Ljóst er að með þessu eykst eftirspurn á innlenda lánsfjármarkaðnum sem kann að hafa einhver áhrif á vaxta- og lánskjör.

Við 2. umr. frv. í Ed. var lántökuheimildum sveitarfélaga að fjárhæð 350 millj. kr. ekki skipt á einstakar hitaveitur vegna ónógra upplýsinga frá einstökum fyrirtækjum. Nýverið var skipaður vinnuhópur af iðnrh., fjmrh. og forsrh. til að fjalla um fjárhag þeirra hitaveitna sem eiga við hvað mesta fjárhagsörðugleika að etja. Þar er einkum um að ræða Hitaveitu Akureyrar, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Fjarhitun Vestmannaeyja. Niðurstöður vinnuhópsins gefa að svo stöddu ekki tilefni til endanlegrar ákvörðunar um lausn á fjárhagsvanda Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveitu Akureyrar og Fjarhitunar Vestmannaeyja. Ráðgert er að vinna frekar að þessu máli á næstunni og er því lagt til að tekin verði inn viðbót við 5. gr., tölul. 5, sem heimilar fjmrh. að fengnu samþykki fjvn. að semja við þessar veitur um ráðstafanir til að bæta fjárhag þeirra.

Í lánsfjárlögum undanfarin ár hefur fjmrh. verið veitt heimild til að ábyrgjast lán með sjálfskuldarábyrgð vegna sölu svonefndra raðsmíðaskipa. Skipasmíðin hefur farið fram á árunum 1982-1986 og er ekki lokið. Viðskiptabankarnir hafa fjármagnað smíðina með erlendum skammtímalántökum. Lokið er smíði skips á Seyðisfirði og var það selt til Grindavíkur. Ríkisábyrgðasjóður yfirtók fjármagnskostnað að fjárhæð 15 millj. kr. í tengslum við sölu skipsins. Tvö skip eru í smíðum hjá Slippstöðinni á Akureyri, eitt í skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts og eitt hjá Stálvík í Garðabæ. Sala umræddra skipa er nú ákveðin og við það miðað að ríkissjóður ábyrgist allt að 80% af kaupverði skipanna með sama hætti og gert er hjá Fiskveiðasjóði Íslands. Þá er miðað við að Byggðastofnun láni allt að 5% og að 15% komi frá kaupendum. Í ljósi þessa er gert ráð fyrir að veitt verði allt að 600 millj. kr. ríkisábyrgð vegna sölu skipanna.

Þegar lánsfjárlagafrv. var afgreitt frá hv. Ed. var ekki ljóst hver endanleg niðurstaða yrði varðandi afgreiðslu fjárlaga og því nokkur óvissa um endanlega niðurstöðu lánsfjárlagafrv. og eðlilegt og nauðsynlegt að taka tillit til þeirrar niðurstöðu sem fæst við meðferð fjvn. á frv. til fjárlaga. En í frv. eins og það liggur hér fyrir er gert ráð fyrir að 1700 millj. kr. séu teknar að láni í þessu skyni.

Herra forseti. Ég sé ekki á þessu stigi ástæðu til að fara frekari orðum um efni frv. eða þær breytingar sem hafa orðið á því við meðferð hv. Ed. og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.