19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

1. mál, fjárlög 1987

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki við 3. umr. fjárlaga að spjalla um þetta mál almennt, svo vel sem það hefur verið gert af talsmanni Alþb. og fulltrúa í fjvn., hv. þm. Geir Gunnarssyni, og væri þó af ærnu að taka ef ætti að fara út í athugasemdir við gerðir meiri hl. í þessum efnum. Við heyrðum hjá hv. síðasta ræðumanni ýmis iðrunarmerki í orði, hv. þm. Eggert Haukdal, og það hefði verið betur að það hefði sést eitthvað á borði frá þessum stjórnarliðum, fulltrúum kjörnum á landsbyggðinni. Þegar við blasir hvernig skammtað er til undirstöðuþátta og framlaga til framkvæmda út um land láta þessir hv. stjórnarþingmenn sér nægja, eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns og heyra má frá mörgum fleiri, að vísa til verðbólgunnar. Það er það sem ekki má hreyfast, en það er allt í lagi að byggðarlögin séu að fara í rúst. Það er allt í lagi þó það halli þannig undan landsbyggðinni eins og raun ber vitni. Það er ekki það sem ræður þeirra gjörðum og afstöðu heldur einhverjar goðsagnir frá ráðandi öflum, eins og hv. 1. þm. Suðurl., hæstv. fjmrh., um verðbólgu og almenn efnahagsmarkmið sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Það leggst heldur lítið fyrir þá fulltrúa landsbyggðarinnar sem standa að meirihlutaákvörðunum varðandi þetta frv. og ég kem hér að örfáum atriðum sem ég stend að brtt. við nú við 3. umr. í von um að fá fram þó ekki væri nema örlitla lagfæringu í brýnum efnum og ætla að víkja að þeim till., herra forseti, öðrum en endurfluttar eru og ég mælti fyrir við 2. umr. um frv.

Ég flyt á þskj. 345 brtt. ásamt hv. 2. þm. Austurl. Helga Seljan varðandi framkvæmdir á flugvöllum. Till. okkar er sú að veitt verði til byggingar nýrrar flugbrautar á Egilsstöðum 50 millj. kr. framlag. Það er um 1/5 af því sem áætlað er að þessi framkvæmd kosti samkvæmt upplýsingum frá hæstv. samgrh. á þessu þingi. Ástandið í flugsamgöngum varðandi Austurland á að vera hv. alþm. kunnugt, stjórnarsinnum sem stjórnarandstæðingum. Við flm. þessarar till. sjáum ekki hvernig í ósköpunum Alþingi ætlar að afgreiða fjárlög og fara í jólaleyfi án þess að sýna lit á að ráða bót á vanda heils landsfjórðungs í undirstöðuþáttum samgöngumála. Mér þætti vænt um ef það heyrðist í stjórnarsinnum af Austurlandi, eins og hæstv. ráðherrum og þm. sem hér sitja fyrir Austurland, um þetta efni, hvernig þeir hugsa sér að standa að afgreiðslu þessa máls án þess að lagfæring fáist varðandi þennan þátt mála.

Hér situr valinkunnur sómamaður, hv. varaþm. Tryggvi Gunnarsson, og ég veit að hann hefur áhyggjur af þessu máli og hlýtur að hafa það. Það væri óskandi að hann gæti haft áhrif á þá ráðherra sem skipa sæti sem þm. á Austurlandi, m.a. af hálfu Sjálfstfl., til þess að ráða hér bót á máli þannig að menn sjái eitthvað fram úr þeim vanda sem þarna er við að fást og hefur blasað við lengi.

Við fluttum, Alþýðubandalagsmenn, till. um hækkun á framlagi til flugmála, framlagi sem lækkar í krónutölu frá síðustu fjárlögum samkvæmt þeim till. sem nú liggja fyrir, og gerðum þá ráð fyrir 50 millj. kr. aukningu á framlagi til flugvallarframkvæmda. Við höfum með samþykki þingflokks okkar endurflutt þessa till., markaða Egilsstaðaflugvelli til nýrrar flugbrautar, nú við 3. umr. En auðvitað erum við ekki allt of bjartsýnir á að menn taki sig á í þessum efnum og því höfum við flutt till. til vara sem felur í sér að 5 millj. kr. verði veittar til endurbóta á Egilsstaðaflugvelli, þeirri flugbraut sem nú er notast við og er ófær dögum oftar núna um vetrartímann, á vorin og nánast á hvaða árstíma sem er, sem getur dregið til þess að þessi aðalflugvöllur á Austurlandi, miðsvæðis, verði ófær. Ég vænti þess að ef menn ekki treysta sér til að marka hér það spor að hefja framkvæmdir við nýja flugbraut, þar sem undirbúningi er lokið í öllum aðalatriðum, fallist menn a.m.k. á að verja þessari upphæð til að gera núverandi flugbraut færa í bili á meðan menn eru að safna í sig dug og vilja til að hefja þá framkvæmd sem til frambúðar horfir.

Ekki meira um það, herra forseti. Ég veit að það bjátar á í flugsamgöngum innanlands víðar en á Austurlandi en tel og held að því sé ekki á móti mælt að hvergi sé vandinn slíkur eins og í þeim landshluta.

Þá kem ég, herra forseti, að brtt. sem við flytjum, tveir þm. ásamt mér, hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan og hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon, á þskj. 424. Það eru tvær till. sem fluttar voru við 2. umr. fjárlaga en voru dregnar til baka. Önnur er um hækkun á framlagi til Náttúruverndarráðs til framkvæmda í þjóðgörðum um nær 2,5 millj. kr. Sú till. er hér endurflutt. Nauðsyn og rök fyrir þeim tillöguflutningi eru óbreytt. Þó að fjvn. leggi til 1 millj. kr. hækkun á framlagi til framkvæmda í þjóðgörðum var það upplýst af framsögumanni fjvn., hv. 1. þm. Norðurl. v., að það framlag væri eingöngu ætlað til skuldagreiðslu vegna liðinna ára. Ég tel því nauðsynlegt að fá fram hækkun umfram þessa 1 millj. kr., hækkun sem svarar til þess sem við leggjum hér til.

Þess er að geta, herra forseti, að Náttúruverndarráð býr við miklar þrengingar, ekki aðeins að því er varðar nauðsynlegar framkvæmdir á þeim svæðum sem Náttúruverndarráð ræður yfir, heldur í rekstrarfjármagni. Í erindi frá 17. nóv. 1986, sem fjvn. var sent um þetta efni, er það dregið fram með mjög skýrum hætti hvernig þrengt hefur verið að Náttúruverndarráði ár eftir ár í framlögum þannig að það er alveg ljóst að ráðið er ekki í stakk búið til að sinna lögbundnum skyldum sínum í sambandi við m.a. eftirlit með framkvæmdum og umsvifum og gæslu á þeim svæðum sem Náttúruverndarráði hefur verið falið að annast. Þetta er auðvitað óhæfa að svona skuli gengið fram ár eftir ár og auk þess áætlaðar sértekjur til ráðsins umfram það sem líkur eru til að takist að afla. Er það reyndar aðferð sem beitt hefur verið með ósanngjörnum hætti gagnvart ýmsum aðilum sem sinna eiga brýnum lögboðnum verkefnum.

Önnur till. sem við endurflytjum er varðandi ferðamálaráð, sérmerkt Til umhverfisverndar á ferðamannastöðum, 10 millj. kr. og liggur hún fyrir hér við 3. umr. til afgreiðslu.

Þriðja till. sem ég ætla að ræða nokkuð á sama þskj. varðar Námsgagnastofnun og er nýr liður, Námsefnisgerð vegna forskólanema, að upphæð 2,5 millj. kr. Námsgagnastofnun er ein af þeim opinberu stofnunum sem hefur verið falið mikilsvert hlutverk lögum samkvæmt en þar sem ríkisvaldið, og Alþingi, tekur við fjárlagaafgreiðslu lítið sem ekkert tillit til þeirra skyldna og kvaða sem á Námsgagnastofnun hafa veríð lagðar.

Ég vil, herra forseti, til þess að spara hér tíma vitna til erindis sem fjvn. fékk í hendur 17. des., þ.e. í fyrradag, þar sem um er að ræða ályktun og bókun námsgagnastjórnar frá fundi hennar 16. des. 1986 sem send var ráðherrum og alþm. Með leyfi forseta segir þar:

„Með tilliti til þeirra fjárveitinga sem Námsgagnastofnun eru ætlaðar á næsta ári, 1987, að lokinni 2. fjárlagaumræðu ályktar stjórn Námsgagnastofnunar eftirfarandi:

1. Um áramótin 1984-85 var námsefnisgerð sú sem verið hafði á hendi skólarannsóknadeildar menntmrn. flutt til Námsgagnastofnunar að boði menntmrh. Stjórn stofnunarinnar var fyrir sitt leyti samþykk þessari ráðstöfun að því gefnu að fullt tillit yrði tekið til þess við fjárveitingar til stofnunarinnar. Sú hefur ekki orðið raunin. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 eins og það lítur út eftir 2. umr. eru ætlaðar ríflega 8 millj. kr. til námsefnisgerðar. Árið 1984, síðasta árið sem verkefni þetta var hjá skólarannsóknadeild, var varið til þessa verkefnis liðlega 17 millj. kr. framreiknað til núvirðis. Hér er því um meira en helmings lækkun að ræða.

2. Auk þess sem að framan greinir gengu í gildi á árinu 1985 ákvæði grunnskólalaga um skólaskyldu nemenda í 9. bekk sem fela í sér skyldu Námsgagnastofnunar að sjá þessum nemendum fyrir ókeypis námsgögnum. Heildarkostnaður Námsgagnastofnunar vegna þessa aldursflokks er áætlaður á árinu 1986 um 12 millj. kr. Hafi fjárveitingavaldið talið sig taka tillit til þessa við fjárveitingu fyrir árið 1986 er ljóst að lækkun til annarra verkefna hefur verið þeim mun meiri.

3. Eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt fyrir árið 1986 varð námsgagnastjórn að leggja til hliðar áætluð verkefni fyrir u.þ.b. 30 millj. kr. Í tillögum stofnunarinnar til fjárlaga fyrir árið 1986 voru þessi verkefni sett inn á áætlun á nýjan leik auk annarra brýnna verkefna. Svo virðist sem enn eigi að hafa tillögur Námsgagnastofnunar að engu.

4. Samkvæmt frv. til fjárlaga 1987 að lokinni 2. umr. eru Námsgagnastofnun ætlaðar 2494 kr. á hvern nemanda í skyldunámi, þeir eru nú 37 806, til útgáfu allra náms- og kennslugagna og annarrar þjónustu sem stofnuninni er ætlað að veita. Ef námsgögn handa forskólanemendum, 6 ára börnum, eru reiknuð með, þeir eru 4588, er þessi upphæð 2223 kr. eða sem nemur andvirði tveggja til þriggja barnabóka á almennum markaði. Námsgagnastofnun gerði tillögu um 4078 kr. á hvern nemanda og gerði þá ráð fyrir námsgögnum handa forskólanemum. Enda þótt stofnuninni sé samkvæmt lögum aðeins ætlað að sinna nemendum í skyldunámi, 1.-9. bekk, hefur reynst óhjákvæmilegt að gefa út námsgögn handa forskólanemum enda er kennslu haldið uppi fyrir næstum öll 6 ára börn í landinu.

5. Við núverandi aðstæður getur Námsgagnastofnun ekki fullnægt þörf skólanna fyrir námsgögn. Ef svo fer fram sem horfir verður enn meiri skortur á námsefni en nú er og gerð og útgáfa nýrra námsgagna stöðvast. Námsgagnastjórn heitir því á Alþingi að samþykkja verulega hækkun fjárveitinga til Námsgagnastofnunar í samræmi við tillögur hennar þegar frv. til fjárl. kemur til 3. umr.

Þessu er hér með komið á framfæri.“

Undir þetta ritar Ásgeir Guðmundsson námsgagnastjóri.

Þetta er erindi námsgagnastjórnar frá í fyrradag og fjvn. hefur haft þetta erindi fyrir framan sig þegar hún gerði sínar tillögur um breytingar við 3. umr. fjárlaga í öllu góðærinu.

En hvernig endurspeglast vilji meiri hl. fjvn. í þessum efnum? Þannig í stuttu máli að ekki er gert ráð fyrir neinni breytingu frá því sem fram hafði komið við 2. umr. fjárlaga til þessa brýna þáttar og segir það sitt um það hvernig þeir sem hér halda á málum hugsa til þeirra rösklega 40 000 nemenda að forskólanemendum meðtöldum sem stunda nám í skólum landsins og þeirra sem ætlað er að annast þar lögboðna kennslu.

Þetta eru kaldar kveðjur sem þessum stóra hópi þjóðfélagsþegna eru sendar og ég bendi á þær staðreyndir sem tíundaðar voru í erindi námsgagnastjórnar, stjórnar stofnunarinnar, að sú upphæð sem veitt er til hennar svarar ekki til nema sem nemur andvirði tveggja til þriggja barnabóka á nemanda. Af þessu hlýst gífurlegur aukakostnaður sem dreifist fyrst og fremst á sveitarfélögin í landinu og kemur hvergi fram. Auðvitað verður að leysa þetta í einhverju lágmarki. Hvernig er það gert, herra forseti? Kennararnir gera það með því að reyna að bjargast við ljósritun á kennslugögnum og fjölföldun sem kostar stórar upphæðir. Það kostar samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá Námsgagnastofnun 100 000 kr. - ég endurtek, það kostar 100 000 kr. að ljósrita eitt blað, eitt einasta blað, fyrir hvern nemanda í grunnskólum landsins. Þessi kostnaður dreifist á sveitarfélögin, líklega 150 sveitarfélög, og kemur hvergi fram hér á Alþingi. Hér skýtur Alþingi sér undan að sinna lögboðnum framlögum til þátta sem það sjálft hefur ákveðið. Þetta er óhæfa.

Við gerum okkur það ljóst sem stöndum að þessum tillöguflutningi að þess er ekki að vænta að mikil lagfæring fáist hér á við 3. umr. fjárlaga og því höfum við verið afar varfærnir í tillögugerð okkar og lagt til að tekið verði þó á þessum vanda með því að veita litlum 2,5 millj. kr. til námsefnisgerðar vegna forskólanema, þannig að það létti þá á þeim tilkostnaði sem til námsefnisgerðar er ætlaður og þegar hefur verið reiknað með framlögum til, þó að í allsendis ófullnægjandi mæli sé.

Ég tel, herra forseti, að ég hafi rökstutt þessa tillögu okkar nægilega, þannig að öllum hv. þm. megi vera ljóst hvað er að gerast í þessum efnum. Það ætti að vera létt verk fyrir meiri hluta hér á Alþingi að bæta ögn úr með því að víkja smáupphæð til námsefnisgerðar fyrir forskólanema.

Þá vil ég, herra forseti, víkja aðeins að tillögugerð sem uppi var höfð nú við undirbúning 3. umr. fjárl., milli umræðna, af hæstv. menntmrh. og Sjálfstfl., þar sem eru hugmyndir og hugsjónamál hæstv. menntmrh. og Sjálfstfl. í sambandi við tilfærslu á kostnaði til sveitarfélaganna varðandi skólaakstur, gæslu í heimavistum og kostnað við mötuneyti í heimavistum grunnskóla.

Ég minnti á það milli umræðna oftar en einu sinni að hæstv. menntmrh. hefur látið undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum um hugmyndir sínar, sem hann kastaði fram á miðju sumri og vöktu mikla athygli að endemum, í sambandi við það að færa stórar upphæðir varðandi þessa þætti yfir á sveitarfélögin í landinu án þess að nokkuð kæmi þar í staðinn. Því var eðlilegt að spurt væri. Og það var ekki aðeins um að ræða yfirfærslu kostnaðar heldur grófar aðdróttanir af hálfu viðkomandi hæstv. ráðh. gagnvart starfsmönnum fræðsluskrifstofa og yfirmönnum skólamála um meintar misfellur, ótilgreindar, af hálfu þessara aðila í sambandi við meðferð á opinberu fé. Óskað var eftir því að hæstv. ráðh. gæfi Alþingi skýrslu um það á hverju hann byggði sínar staðhæfingar og aðdróttanir í garð þessara starfsmanna. Hæstv. ráðh. hefur ekki séð ástæðu til þess þó að ég ítrekað hafi gengið eftir svörum og tveir mánuðir og vel það séu liðnir frá því að formlega var beðið um svar í þessum efnum hér á Alþingi. Hins vegar höfðust úf úr ráðuneyti ráðherrans hugmyndir, mér sendar og til fjvn., milli umræðna varðandi þessa þætti. Það var ekki vegna þess að ráðherra vildi upplýsa Alþingi með formlegum hætti og svara fyrirspurn um þessi atriði heldur var það nú hugsjón hans áframhaldandi að troða þessu máli fram hér við 3. umr. fjárlaga og ná markmiðum sínum í þessum efnum og það munaði víst mjóu. (TG: Nú er orðið fáskipað hér.) Já, það er fáskipað en þeir eru nú gildir sem þó sitja, sýnist mér. (TG: Það hefur mér heyrst.) Ég held að það sé ómaksins vert, herra forseti, að festa aðeins í þingstíðindi þær hugmyndir sem ráðherrann hefur verið að viðra og féllu á jöfnu í þingflokki Framsfl., að okkur er tjáð, þegar málið var þar til umræðu og meðferðar þannig að litlu munaði og segir það nú sitt um festuna í hinum stjórnarflokknum að það hafi munað minnstu að ráðherrann næði markmiðum sínum a.m.k. að talsverðu leyti fram, þó að það liggi ekki fyrir í tillöguformi sem betur fer.

Með leyfi forseta: Í erindi sem mér barst 12. des. s.l. frá menntmrn. segir svo um rekstrarkostnað grunnskóla:

Samkvæmt meðfylgjandi hugmyndum er gert ráð fyrir aukinni hlutdeild sveitarfélaga í rekstrarkostnaði grunnskóla. Ljóst er að hluta þess kostnaðar má mæta með sparnaði og ýmiss konar hagræðingu. Eftir sem áður er nokkuð víst að tilkostnaður sveitarfélaga mun aukast frá því sem nú er. Sveitarfélög eru misvel í stakk búin til þess að mæta auknum kostnaði og er því lagt til að veitt verði sérstök fjárveiting, 10 millj. kr., til að styrkja þau sveitarfélög er verst standa. Gert er ráð fyrir að settar verði sérstakar reglur um úthlutun þessara styrkja. Þá er einnig gert ráð fyrir að reglugerð um rekstrarkostnað grunnskóla verði felld úr gildi og ný sett í staðinn. Breytingar á frumvarpi til fjárlaga samkvæmt meðfylgjandi gögnum eru sem hér segir:

Skólaakstur, samkvæmt frumvarpi 127 millj. 497 þús., samkvæmt hugmyndinni (þ.e. hugmynd ráðuneytisins) 60 millj. 629 þús. Og neðanmáls segir: Skólaakstur samkvæmt uppgjöri skólaárs 1985-1986. Þannig að tölurnar eru sem nemur því lægri samkvæmt hugmyndinni sem þarna er viðruð af ráðuneytinu.

Mötuneyti (það er á verðlagi í janúar 1986), samkvæmt frumvarpi 31 millj. 263 þús., samkvæmt hugmynd ráðuneytisins 21 millj. 853 þús.

Gæslan (það er einnig á verðlagi í janúar 1986) 15 millj. 450 þús., samkvæmt hugmynd ráðuneytis 11 millj. 483 þús.

Rekstrarstyrkir, samkvæmt hugmynd ráðuneytisins 10 millj.

Þarna áttu 10 millj. kr. að koma á móti til þess að jafna í einhverju þá byrði sem átti að leggja á sveitarfélögin samkvæmt hugmyndum Sjálfstfl. samþykktum, hugmyndum sem reynt var að ýta fram hér við undirbúning 3. umr. fjárlaga.

Ég reiknaði út að tölurnar eins og þær liggja hér fyrir næmu um 70 millj. kr. en það eru gamlar tölur. Hæstv. ráðh. kom því á framfæri sjálfur úr þessum ræðustól í umræðu um þingsköp um daginn að í reynd væri um að ræða um 90 millj. kr., og hygg ég að það sé varlega áætlað, sem Sjálfstfl. ætlaði að ýta yfir á sveitarfélögin og var stöðvað næstum fyrir tilviljun í atkvæðagreiðslu hjá hinum stjórnarlokknunum að því er hermt er, þar sem það féll á jöfnu að taka undir þessar hugmyndir, að vísu þó með einhverjum mildandi breytingum.

Þetta er sundurliðað nánar í því erindi sem mér barst frá ráðuneytinu, þessar kveðjur sem senda átti sveitarfélögum landsins frá Sjálfstfl. og meiri hluta ríkisstjórnarinnar hér á Alþingi. Í niðurlagi þessa erindis segir svo, herra forseti:

„Samkvæmt framangreindu er gert ráð fyrir aukinni hlutdeild sveitarfélaga í rekstrarkostnaði grunnskóla. Ljóst er að hluta þess kostnaðar má mæta með sparnaði og ýmiss konar hagræðingu.

Eftir sem áður er nokkuð víst að tilkostnaður sveitarfélaga mun aukast frá því sem nú er. Sveitarfélög eru misvel í stakk búin til þess að mæta auknum kostnaði og er því gert ráð fyrir að veitt verði sérstök fjárveiting til að styrkja þau sveitarfélög er verst standa.“

Þetta átti að verða aðferðin: Færa yfir á sveitarfélögin hátt í 100 millj. kr. og ætla 10 millj, kr. á móti til þess að milda þessa aðgerð, milda þessa blóðtöku úr úr sveitarsjóðunum, og eftir standa svo fullyrðingar og staðhæfingar ráðherrans og brigslyrði í garð starfsmanna sinna í sambandi við meðferð á opinberu fé sem hann enn hefur ekki fundið neinn stað fyrir og ekki haft fyrir að svara Alþingi hvað búi á bak við fullyrðingar hans. Það hefur svo oft verið gengið á eftir þessu máli að ég sé ekki einu sinni ástæðu til þess að kalla á viðkomandi hæstv. ráðh. Hann hefur þegar fengið orð í eyra frá sveitarfélögum í landinu í sambandi við þessar tillögur sínar og hugmyndir.

Það er sagt í sambandi við þetta mál, herra forseti, að menn eigi ekki endilega að vera að halda í það sem gamalt er og ekki að standa á óbreyttu kerfi. Ég get vel tekið undir það almennum orðum. Það er sjálfsagt að skoða hugmyndir um breytingar, m.a. á verkefnum ríkis og sveitarfélaga og tekjum ríkis og sveitarfélaga í sambandi við verkefnatilfærslu, en það hlýtur auðvitað að vera undirstöðuatriði í sambandi við allar slíkar breytingar að hlutur sveitarfélaganna sé ekki skertur frá því sem nú er í þeim samskiptum. Nógu erfiður er hann þegar orðinn. Hann þarf þvert á móti að bæta fjárhagslega í sambandi við þau verkefni sem sveitarfélögunum nú þegar er ætlað að annast, hvað þá ef á að fara að leggja ný verkefni á sveitarfélögin með ákvörðunum héðan frá Alþingi.

Starfandi eru tvær nefndir á vegum ráðherra, önnur á vegum hæstv. félmrh. en hin á vegum hæstv. fjmrh., sem eru að vinna að skoðun þessara mála. Sú nefnd sem félmrh. skipaði 12. sept. 1986 er að vinna að tillögum um breytingar á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í skýrt afmörkuðum áföngum. En ofan í starf þeirrar nefndar, sem er á frumstigi þó að fyrir liggi drög varðandi hugmyndir hennar sem mér hafa borist í hendur, ætlar stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi og Sjálfstfl. sérstaklega að fara að troða byrðum á sveitarfélögin í landinu, verkefnum á sveitarfélögin í landinu, hátt í 100 millj. kr., mitt ofan í vinnu sem hafin er milli aðila væntanlega og með samþykki aðila til þess að endurskoða verkefnaskiptinguna milli ríkisins og sveitarfélaganna. Hæstv. fjmrh. skipaði, eins og ég gat um, aðra nefnd til að fjalla um þessa þætti varðandi tekjustofnana. Hvers konar vinnubrögð eru þetta af hálfu þeirra manna sem bera hér fram tillögur eins og hæstv. menntmrh. ofan í þá vinnu sem er í gangi á vegum ríkisstjórnarinnar, að ætta að fara að velta yfir á sveitarfélögin verkefnum og byrðum með þeim hætti sem tillögur voru hér um og minnstu munaði að kæmu fram við 3. umr. fjárl. til afgreiðslu og ákvörðunar? Ljóst er að Sjálfstfl. í heild hafði skrifað upp á þessar tillögur ráðherra síns og Framsfl. að hálfu leyti. Það var nú ekki meiri fyrirstaðan þar en svo þó að eitthvað hafi átt að draga úr sárasta broddinum ef framsókn hefði átt að taka við þessum tillögum að sínu leyti.

Nei, þetta eru sannarlega dæmalaus vinnubrögð og þeim tengist síðan hvernig staðið er að málefnum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem snertir afgreiðslu lánsfjárlaga hér á Alþingi sem liggja fyrir hv. deild, skerðing á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga upp á 300 millj. kr., eða á milli 300 og 400 millj. kr. hugsanlega. Það var farið að blanda þessu máli inn í og reyna að nota það sem verslunarvöru og þvingu á sveitarfélögin að taka við þessum hugsjónum Sjálfstfl. og tillögum menntmrh. Ef menn yrðu við því skyldi verða dregið svolítið úr skerðingunni á Jöfnunarsjóðnum. Þetta eru sannarlega fáheyrð vinnubrögð, fyrir nú utan það að þarna er verið að tengja saman mál sem eiga að vera óskyld í málsmeðferð og eru óskyld að eðli, annars vegar lögboðin útgjöld sem ríkið hefur tekið á sig skuldbindingar um gagnvart sveitarfélögunum og hins vegar lögboðnir tekjustofnar sveitarfélaganna, þar sem er Jöfnunarsjóðurinn, sem gengið er að með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn stendur að hér á Alþingi. Það er ekki aðeins að staðið sé að framlögum til lífsnauðsynlegra framkvæmda vítt um land eins og raun ber vitni, heldur er einnig vegið að einingunum, sveitarfélögunum, með þeim hætti sem tillögur um skerðingu á framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sýna. Þetta er uppskeran, þetta er veganestið sem stjórnarþingmennirnir, kosnir af fólkinu út um landið, koma með í kosningabaráttuna sem er fram undan. Það eru pinklar sem hæstv. fjmrh. hefur hlaðið á þá, eða hitt þó heldur, það veganesti. Ég hefði kosið mér eitthvað annað og betra ef ég væri í sporum þeirra þm. sem ætla að leita eftir áframhaldandi umboði hjá kjósendum úti um landið.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að það lægi fyrir hvaða hugmyndir og tillögur Sjálfstfl. ætlaði sér að knýja hér fram við 3. umr. og minnstu munaði að lægju hér fyrir fullbúnar í tillöguformi.

Að lokum, herra forseti, er eitt mál, ein afturganga sem ég hlýt að víkja aðeins að áður en ég lýk máli mínu, sem er að finna í tillögum meiri hl. fjvn. á þskj. 459 sem eru brtt. og nýir liðir við 6. gr. Þar er um að ræða tölul. 7, brtt. við 6. gr. um nýjan lið 5.27, heimild til fjmrh. að selja jarðirnar Rauðamýri í Nauteyrarhreppi og Streiti í Breiðdalshreppi. Sé ég að hæstv. fjmrh. kannast við málið þannig að þetta kann að hafa verið nefnt við hann á fyrri stigum og ekki kannske fæðingin orðin til í fjvn. en hæstv. ráðh. er nú vís að víkja eitthvað að því. (ÞP: Hann rekur minni til langrar ræðu sem um málið var flutt á síðasta þingi.) Já, það er ágætt og ætti hæstv. fjmrh. að fara yfir þá ræðu og þær voru fleiri en ein. Er hæstv. fjmrh. að meina þann sem hér stendur? (ÞP: Já.) Já, já. (Gripið fram í.) Það er vel að hann fari yfir hana. Hún er ekki fullar tvær blaðsíður í þingtíðindum þannig að hæstv. ráðh. gæti áreiðanlega rennt yfir hana áður en ég lýk máli mínu ef hann aflaði sér þeirrar ræðu.

Ég mælti nokkur varnaðarorð í sambandi við þetta hugsjónamál ríkisstjórnarinnar því að öðru nafni er ekki hægt að nefna það þegar þessi afturganga er komin hér inn við 3. umr. fjárl. á lokastigi fjárlagaafgreiðslunnar, heimild til fjmrh. að selja jörðina Streiti í Breiðdalshreppi. Hver er nú saga þessa máls, herra forseti? Og hæstv. iðnrh.: Hver er nú saga þessa hugsjónamáls ríkisstjórnarinnar að afla heimildar fyrir fjmrh. til að selja Streiti í Breiðdalshreppi? Jú, það var flutt hér frv., þingmannafrumvarp, af hv. 4. þm. Austurl. og hv. 11. landsk. þm., Jóni Kristjánssyni og Agli Jónssyni, á síðasta þingi um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Streiti í Breiðdal í Suður-Múlasýslu og 1. gr. frv. og efni þar með var svohljóðandi, herra forseti:

„Ríkisstjórninni er heimilt að selja Magnúsi Þorleifssyni, nafnnr. 6293-5626, eyðijörðina Streiti í Breiðdalshreppi.“

Síðan er vikið að ákvæðum jarðalaga sem skuli fylgt og undanskilið verði land vegna vegagerðar í landi jarðarinnar, svo og land undir vita á Streitishorni, þ.e. fyrir skipstjórana. Og í grg. þessa frv. segir, með leyfi forseta:

„Frv. þetta er flutt að beiðni Magnúsar Þorleifssonar“ - Hvar skyldi hann nú búsettur? Mávanesi 21, Garðabæ. Kannast nokkur við götuna? Ég held að það séu ýmsir höfðingjar sem búa þarna í Mávanesinu. - „að fengnum meðmælum hreppsnefndar Breiðdalshrepps. Jörðin Streiti er nú í eyði og hyggst Magnús nýta hana fyrir æðarrækt, angórakanínur, garðrækt o.fl., en enginn fullnægjandi húsakostur fyrir hefðbundinn búrekstur er þar nú fyrir hendi.“

Þetta er upphaf grg. og meginrökstuðningur hv. flm. þessa frv. og fylgdi með erindi frá nefndum Garðbæingi, Magnúsi Þorleifssyni, erindi sem hann hafði sent hæstv. landbrh., þar sem hann segir m.a.:

„Móðir mín er fædd á Streiti og dvaldist þar til fullorðinsára.“

Það lá fyrir að þó að fyrrv. hreppsnefnd Breiðdalshrepps, þar sem flestir eru nú fallnir frá úr hreppsnefndinni við síðustu sveitarstjórnarkosningar eða a.m.k. meiri hluti þeirra sem þar sat, hafði ekki mikinn áhuga á þessu máli og var áreiðanlega orðinn afhuga því áður en málinu lauk hér við lok síðasta þings því að þá var komin umsókn frá heimamönnum um að fá jörðina keypta. (Fjmrh.: Féllu þeir frá eða féllu þeir úr hreppsnefnd?) Þeir féllu úr hreppsnefnd, hæstv. fjmrh. - Eins og menn sjá var frv. sem þarna var flutt bundið við nefndan Magnús Þorleifsson í Garðabæ og ég held að það sé óhætt að fullyrða að ef mál þetta lægi fyrir með eðlilegum hætti til þinglegrar meðferðar í formi frv. mundu menn ekki fá þær undirtektir sem lagðar voru fram við meðferð málsins í fyrra, á síðasta þingi. Og eflaust er mönnum fullkunnugt um þetta sem standa að því að reyna að smokra þessu máli inn við 3. umr. fjárlaga. En þeir eru ekki af baki dottnir, sennilega í þeirri trú að þetta gleymdist hérna í jólaönnunum og auðvelt reyndist að ná fram þessu hugsjónamáli.

En hverjar voru lyktirnar á Alþingi síðast? Jú, það var alveg ljóst að það var enginn vilji hér á Alþingi til að veita þessa heimild á síðasta þingi og málið dagaði þar uppi. Frv. sérstaklega flutt um þetta efni dagaði uppi á þinginu í fyrra og það var þar hörð andstaða. Hún tengdist ekki mér. Ég beitti mér ekki í þessu máli nema lítið. Hún tengdist mér ekki sérstaklega þó að ég mælti þar varnaðarorð eins og fleiri er málið var síðast til umræðu í hv. Nd. þingsins. Það voru margir sem bentu á hversu óeðlilega þarna væri staðið að máli. Og ég endurtek það hér: Þetta er hrein óhæfa. Það er hrein óhæfa að ætla sér að taka upp mál sem kemst ekki í gegnum þingið með þinglegum hætti á síðasta þingi og smokra því inn í heimild í 6. gr. fjárlaga. Hvað segir t.d. hv. fjárveitingarnefndarmaður, 1. þm. Vesturl., við vinnubrögðum af þessu tagi? Ætlar hv. 1. þm. Vesturl. að standa að þessu máli til loka eftir að hafa hlýtt á mál mitt? Ég geri ráð fyrir að það hafi verið mönnum algerlega úr minni fallið, sómakærum mönnum í fjvn., hvernig þetta mál lá fyrir hér í þinginu við lok síðasta þings, enginn stuðningur við að málið fengi framgang í Nd. þingsins. Ég skora á menn að skoða hug sinn í þessu áður en þeir fara að knýja þetta fram með meiri hluta hér, það hugsjónamál ríkisstjórnarinnar að koma þessari jörð undan ríkinu í hendur Garðbæingi sem hefur sett fram hugmyndir um að taka þar upp ræktun á æðarfugli, angórakanínum, garðrækt og fleiru á sama tíma og fyrir liggur ósk heimamanna um að að nytja jörðina og fá hana til kaups. Það er svo mál út af fyrir sig hvort þörf er á því að selja jarðir þannig undan ríkinu þó að menn fái að nytja þær, en auðvitað hljóta menn að styðja að það sé heimafólkið sem hafi landið til nytja og rétt til að nytja það.

Það voru nokkrir hæstv. ráðherrar sem létu sig þetta mál varða hér á þinginu í fyrra. Hæstv. forsrh. bar af sér að vera nokkuð tengdur hagsmunalega þessari eignayfirfærslu, en hæstv. utanrrh. upplýsti að jörðin Streiti væri merk fyrir margra hluta sakir, ekki aðeins þaðan komnir góðar stofnar í fé heldur einnig í hrossum. Stóðhesturinn Blakkur 129 væri þaðan ættaður. Og það eru miklir áhugamenn um hrossarækt í stjórnarliðinu og reyndar í stjórnarandstöðunni líka. En hæstv. utanrrh. hafði þá hugmynd og hreyfði henni sérstaklega við mig að það yrði reistur veglegur minnisvarði þarna við veginn á Streiti og sennilega ætlar hæstv. fjmrh. að styðja hann í því hugsjónamáli um Blakk 129 sérstaklega ef hann fær heimild til þess að ráðskast með þessa jörð. (EgJ: Blakkur 129 er frá Árnanesi.) Blakkur 129 segir hv. 11. landsk. að sé frá Árnanesi og fer nú heldur að vandast þegar stangast á heimildirnar á hinum æðstu stöðum í stjórnarliðinu, milli hæstv. utanrrh. og hv. 11. landsk. þm., en það er sjálfsagt að hann leiðrétti ættartölu nefnds stóðhests og komi henni réttilega á framfæri um leið og hann rökstyður hvers vegna hann er við 3. umr. fjárlaga að reyna að nauðga fram heimild varðandi frv. sem ekki fékk framgang á síðasta þingi en hann ætlar að hafa hér sem einhvern minnisvarða í sambandi við sína þingsetu, hv. 11. landsk. þm., ef ég ræð rétt í að hann hafi komið eitthvað nálægt þessu máli í fjvn.

Herra forseti. Þá hef ég vikið að þeim þáttum sem ég vildi koma hér að, mælt fyrir brtt. af minni hálfu þar sem ég er 1. flm. Ég á hlut að ýmsum öðrum brtt. til að freista þess að fá fram lagfæringar við 3. umr. á þessu stórkostlega gallaða frv. ríkisstjórnarinnar til fjárlaga, en það munu aðrir víkja að þeim í umræðunni svo að ég ætla ekki að lengja frekar mál mitt. Ég hef mælt hér varnaðarorð einnig varðandi aðra liði sem ekki náðu fram að ganga góðu heilli. Nóg er nú samt.