19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

1. mál, fjárlög 1987

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Á þskj. 460 og 461 hef ég leyft mér að flytja brtt. sem kveða á um í fyrsta lagi aukin framlög til aðgerða gegn fíkniefnum, en þá tillögu flytja þm. úr öllum flokkum, og í öðru lagi um framlög til aðgerða gegn skattsvikum. Ég mun, herra forseti, gera nánari grein fyrir þessum tillögum.

Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að nokkur umræða hefur orðið í þjóðfélaginu um skattsvik í kjölfar skýrslu sem lögð var fram á Alþingi 18. apríl s.l., en þar eru leiddar líkur að því að á árinu 1985 megi áætla að skattundandráttur hafi numið 6,5 milljörðum kr. s.l. miðvikudag urðu miklar umræður um þessa skýrslu í hv. Nd. og skattsvik almennt í kjölfar þess að felldar voru tillögur um breytingu á tekjuskattslögum sem lúta að því að breyta ákvæðum skattalaga og loka ýmsum smugum sem bjóða upp á skattsvik í tekjuskattslögunum. Um var að ræða ýmsar tillögur sem voru í samræmi við ýmsar breytingar sem skattsvikanefndin lagði til í umræddri skýrslu um umfang skattsvika.

Ástæða er til að rifja þetta upp nú við 3. umr. fjárlaga þegar mælt er fyrir tillögu um fjármagn til aðgerða gegn skattsvikum, ekki síst í ljósi ýmissa ummæla sem fallið hafa hjá formönnum stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., um nauðsyn þess að herða á aðgerðum gegn skattsvikum í kjölfar skýrslunnar um skattsvik. Á þessu ári hefur til að mynda hæstv. forsrh. ítrekað sagt í fjölmiðlum að eitt af brýnustu verkefnunum sé að herða aðgerðir gegn skattsvikum og þau orð hefur hann oft á vörunum þegar rætt er um hallann á fjárlögunum, þar séu peningarnir til að brúa hallann. Í skattsvikarana þurfi að ná því að óverjandi sé að undandráttur frá skatti sé svo gífurlegur sem skýrsla þessi gefur til kynna. En hvað fylgdi þessu meira en orð hjá hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh.? Allar tillögur voru felldar við afgreiðslu tekjuskattslaga sem lúta að hertum aðgerðum gegn skattsvikum og spurningin er nú hvað verður við afgreiðslu fjárlaga. Ýmsar af tillögum skattsvikanefndarinnar, svo að dæmi sé tekið, kosta fjármagn ef þær eiga að skila árangri. Ég gríp niður í þrjár þeirra, með leyfi forseta, en í skýrslu nefndarinnar, sem lögð var fram á Alþingi hinn 18. apríl 1986, kemur m.a. fram að gera þurfi verulegt átak í menntunarmálum starfsfólks á skattstofum, endurvekja þurfi skattskólann, festa hann betur í sessi, komið verði á fót sérstakri eftirlitssveit sérhæfðra skattrannsóknamanna sem geri skyndikannanir á bókhaldi fyrirtækja og taki til rannsókna flókin og erfið framtöl, endurskoðuð verði ákvæði skattalaga um meðferð hlunnindagreiðslna.

Ég minni einnig á tillögu um aðgerðir gegn skattsvikum sem samþykkt var á Alþingi í maí 1984, en þar koma fram ýmis atriði sem Alþingi áleit að grípa þyrfti á, atriði sem kostar fjármagn að hrinda í framkvæmd. Ég nefni að stofna sérdeild við sakadóm Reykjavíkur sem sérstaklega skal rannsaka skattsvik, bókhaldsbrot, gjaldeyrisbrot, faktúrufalsanir o.fl., að fjölga sérhæfðum starfsmönnum hjá embætti saksóknara og efla starfsemi Rannsóknarlögreglu ríkisins, að auka hagræðingu og tölvuvæðingu við upplýsingaöflun og úrvinnslu skattframtala, að fjölga sérhæfðu starfsliði við embætti skattrannsóknarstjóra og á skattstofum, að veita á fjárlögum nauðsynlegt fjármagn til að stórauka allt skattaeftirlit, m.a. til þess að a.m.k. 10% skattframtala fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri fái ítarlega skoðun árlega. Alþingi hefur sem sagt ályktað í þessu máli og falið framkvæmdavaldinu að framkvæma þessar tillögur. Til þess að hrinda þeim í framkvæmd þarf fjármagn sem margfalt mun skila sér aftur í ríkissjóð eins og dæmin sanna. Ég minni á í því sambandi að hæstv. fyrrv. fjmrh. tók á þessu máli í sinni embættistíð sem fjmrh. Hann setti á fót þá nefnd sem gerði skýrsluna um umfang skattsvika, en það verkefni var hæstv. fjmrh. falið með ályktun Alþingis frá maí 1984. Hæstv. fyrrv. fjmrh. lét heldur ekki við það sitja og byrjaði á að framkvæma þá ályktun sem einnig var samþykkt í maí 1984 um aðgerðir gegn skattsvikum. Hæstv. fyrrv. fjmrh. veitti til þess fjármagni að auka við mannafla hjá skatteftirliti og árangurinn lét ekki á sér standa eins og nú skal lýst:

Á árinu 1982 innheimtust vegna skattaeftirlits rannsóknadeildar ríkisskattstjóra 2,9 millj. kr., árið 1983 innheimtust 7,1 millj. kr., árið 1984 þrefaldaðist sú upphæð og fer í tæpar 22 millj. kr. en það var árið sem hæstv. fyrrv. fjmrh. byrjaði að framkvæma einn þátt í ályktun Alþingis um aðgerðir gegn skattsvikum, árið 1985 fjórfaldast sú upphæð og fer nú úr 22 millj. í 85 millj. og fyrstu fimm mánuði þessa árs hafa innheimst 85 millj. kr. eða sama upphæð og allt síðasta ár.

Hér er um að ræða um 17 millj. á hverjum mánuði og hefur skattaeftirlitið því skilað því inn að nú innheimtast 17 millj. á mánuði hverjum, en á öllu árinu 1982 innheimtust einungis 2,9 millj. kr. Hér er fyrst og fremst fyrir að þakka hertu skattaeftirliti og að aukið fjármagn var lagt til skattaeftirlitsins. Sú till. sem ég hér mæli fyrir kveður á um að sérstakt átak verði nú gert í skattsvikamálum og 20 millj. kr. verði sérstaklega varið til hertra aðgerða gegn skattsvikum. Með þeirri upphæð tel ég að hægt væri að gera stórátak gegn skattsvikum. Þetta er ekki stór upphæð miðað við hvað mikið er í húfi. 17 millj. innheimtust á hverjum mánuði fyrri hluta þessa árs. Hér er gert ráð fyrir 20 millj. kr. framlagi sem er nálægt því að vera sama upphæð og innheimtist á hverjum mánuði og hefur skilað sér vegna þess að byrjað var að framkvæma hertar aðgerðir gegn skattsvikum skv. ályktun Alþingis frá maí 1984.

Það er ekki vafi í mínum huga að sú upphæð mundi enn margfaldast og skila sér aftur í ríkissjóð ef Alþingi tæki þetta mál nú föstum tökum og veitti til þess nauðsynlegu fjármagni eins og hér er lagt til. Hér yrði fyrst og fremst um að ræða sparnaðartillögu, þær 20 millj. sem hér er lagt til að þegar í stað verði varið til aðgerða gegn skattsvikum þannig að verulegt átak sé nú hægt að gera til að vinna gegn skattsvikum, og það gæti á örskömmum tíma skilað sér margfalt aftur í ríkissjóð. Það er ekki fjarri lagi að álykta að þessar 20 millj. kr. gætu tífalt skilað sér aftur í ríkissjóð í lok ársins með þeim árangri að ríkissjóður fengi verulegt fjármagn jafnframt því sem stuðlað væri að jöfnun tekjuskiptingarinnar í þjóðfélaginu. Ég skora á hv. alþm. að samþykkja þessa till. því að öruggt má telja að með því munu þeir bæta stöðu ríkissjóðs verulega jafnframt því sem þm. fylgdu eftir þeirri ályktun sem samþykkt var samhljóða á Alþingi í maí 1984.

Hin tillagan sem ég mæli fyrir kveður á um 5 millj. kr. framlag til aðgerða gegn fíkniefnum. Þessa till. flytja með mér hv. þm. Svavar Gestsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Ellert B. Schram og Guðrún Agnarsdóttir. Hér er einnig um sparnaðartillögu að ræða eins og tillagan um framlag til aðgerða gegn skattsvikum er.

Um fíkniefnavandann mætti hafa mörg orð. Neysla fíkniefna er orðið ógnvekjandi þjóðfélagslegt vandamál hér á landi eins og í öðrum löndum. Talið er að gífurleg aukning hafi orðið á fíkniefnaneyslu á undanförnum árum jafnframt því sem sterkari og hættulegri fíkniefni eru í umferð en áður var. Það er einnig ljóst að fíkniefnalögreglan og tollyfirvöld ná aðeins broti af þeim eiturefnum sem eru í umferð, en talað hefur verið um að aðeins náist 1-5% af fíkniefnum sem berast til landsins. Fjöldi fólks hér á landi hefur ánetjast fíkniefnum og eru það aðallega ungmenni sem orðið hafa fórnarlömb fíkniefnaneyslunnar. Afleiðingar fíkniefnaneyslunnar koma einnig fram í alvarlegum afbrotum og þjófnaði sem oft eru framin til að fjármagna neysluna. Reynsla nágrannaþjóða okkar í Vestur-Evrópu talar þar skýru máli um þá skelfilegu þróun sem orðið hefur á s.l. árum. Ofbeldi, misþyrmingar, rán og jafnvel manndráp hafa margfaldast sem rekja má beint til fíkniefnaneyslu. Gífurleg aukning hefur einnig orðið á fjölda þeirra sem vistaðir eru á sjúkrahúsum og meðferðarstofnunum vegna notkunar fíkniefna.

Af þessu má ljóst vera að mikil ábyrgð hvílir á stjórnvöldum að sporna við þessu mikla vandamáli. Hér er ekki aðeins í húfi lífshamingja fjölda einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Afleiðingarnar eru einnig gífurleg útgjöld, m.a. á sviði heilbrigðis-, trygginga- og félagsmála, sem munu fara vaxandi verði ekkert að gert. Umfram allt er því mikilvægt að stjórnvöld hafi skilning á þessu máli og leggi fram það fjármagn sem þarf til að hefta eins og kostur er útbreiðslu og dreifingu ávana- og fíkniefna.

Þó gagnrýna megi mjög ýmis framlög í þessum fjárlögum til ýmissa félagslegra verkefna og þá skerðingu sem á þeim hefur orðið er fátt sem jafnast á við það ég vil segja skammarlega litla fjármagn sem veitt er á fjárlögum til aðgerða gegn fíkniefnum, aðeins rúm 1 millj. kr. Það er lítil fyrirhyggja hjá stjórnvöldum í þessu máli. Skilningur stjórnvalda lýsir sér í 1 millj. kr. framlagi til aðgerða gegn fíkniefnum.

Það væri vissulega fróðlegt að bera þetta framlag, 1 millj. kr., saman við þau útgjöld sem ríkið hefur vegna þeirra sem ánetjast fíkniefnum. Hvað kostar t.d. að vista einn eiturlyfjasjúkling á meðferðarstofnun? Ætta má að það kosti 1 millj. kr. fyrir ríkissjóð að vista aðeins einn eiturlyfjasjúkling á stofnun í þrjá mánuði. Það kostar því það sama að vista einn eiturlyfjasjúkling á stofnun í þrjá mánuði og það framlag sem ríkissjóður ætlar til aðgerða gegn fíkniefnum á heilu ári. (GJG: Sagði þm. 1 millj. í þrjá mánuði?) Já. Þessa tölu hef ég fengið staðfesta hjá landlæknisembættinu þannig að ég geri ráð fyrir að hún sé alveg rétt.

Menn verða líka að hafa í huga að nauðsynin á að efla fíkniefnavarnir er nú enn meiri og knýjandi en áður með tilliti til hættu á útbreiðslu eyðni, en fíkniefnaneytendur eru stór áhættuhópur sem dreifir smiti af eyðni út fyrir stærstu áhættuhópana. Það er því ljóst að mikið er í húfi, enn meira en áður, að taka á þessu máli og gera stórátak í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn fíkniefnum.

Við 2. umr. fjárlaga var felld till. sem ég flutti ásamt hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur og Eiði Guðnasyni um þetta mál, till. sem hefði getað sparað ríkissjóði mikla fjármuni. Þess er nú enn freistað við 3. og síðustu umræðu fjárlaga að fá aukið fjármagn til að vinna gegn þessu vandamáli. Fimm þm. úr öllum flokkum flytja nú till. um að veittar verði 5 millj. til átaks gegn fíkniefnum til að forða Alþingi hreinlega frá þeirri skömm að afgreiða fjárlögin með 1 millj. kr. framlagi til aðgerða gegn fíkniefnum.

Í þessu sambandi vil ég minna á þál. sem samþykkt var á Alþingi 20. des. 1983 um skipulagðar aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Þessi tillaga var flutt af þm. úr öllum flokkum. Hún var lögð fram í desember 1983 og samþykkt nokkrum dögum síðar fyrir jólaleyfi þm. Með þeirri þál. og þeirri góðu samstöðu sem náðist um það mál á Alþingi hefði mátt ætla að þm. væru ákveðnir að taka á þessu mikla máli.

Nefnd sem skipuð var í kjölfar þessarar ályktunar skilaði margvíslegum tillögum til úrbóta gegn fíkniefnum. Margar af þeim tillögum hafa ekki komist í framkvæmd vegna skorts á fjármagni.

Ég skora á þm. að sýna hug sinn í verki til þessa máls, sýna að þeir meintu að þeir vildu gera átak í þessu máli þegar þessi ályktun var samþykkt fyrir þremur árum á Alþingi. Ég skora á hv. þm. að samþykkja það framlag sem hér er lagt til af þm. úr öllum flokkum. Ég trúi því ekki að nokkur mæli því gegn að hér er um sparnaðartillögu að ræða. Þessar 5 millj. munu skila sér margfalt aftur því það eru ekki síst afleiðingar fíkniefnavandans sem munu auka verulega útgjöld til heilbrigðis- og félagsmála á komandi árum verði ekkert að gert, að ekki sé talað um hrikalegar afleiðingar fíkniefnaneyslunnar fyrir fjölda einstaklinga, ekki síst ungmenni og fjölskyldur þeirra. Á það mun reyna við lokaafgreiðslu fjárlaga hvaða skilning stjórnvöld hafa á þessu máli og hvort stjórnvöld ætla að skjóta sér undan þeirri miklu ábyrgð sem á þeim hvílir að gera nú stórátak til að vinna gegn þessum vágesti.

Herra forseti. Ég mun nú snúa mér að málefnum fatlaðra og framlögum til þess málaflokks á þessum fjárlögum. Allt frá því að sérstakur sjóður var stofnaður til framkvæmda í þágu fatlaðra á árinu 1979 hafa orðið umræður við afgreiðslu fjárlaga um þá skerðingu sem sá sjóður hefur orðið að sæta. Fyrir skömmu leyfði ég mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Salome Þorkelsdóttur, Haraldi Ólafssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur að flytja fsp. til hæstv. fjmrh. um framlög til framkvæmda í þágu fatlaðra. Þeirri fsp. hefur fjmrh. enn ekki haft tækifæri til að svara. Ég vil því beina því til hæstv. fjmrh. nú við 3. umr. fjárlaga hvort hann hafi einhver svör við þeirri fsp. sem þar var fram borin. Þar var spurt um hver skerðingin hafi verið á framkvæmdafé sjóðsins frá i. jan. 1980 til 31. des. 1986, einnig hve mikið af tekjum Erfðafjársjóðs hafi runnið til framkvæmda í þágu fatlaðra og loks hver hafi verið heildarframlög vegna framkvæmda í þágu fatlaðra á þessu ári.

Ég held að það sé nauðsynlegt að við hv. þm. áttum okkur á því að lögin um málefni fatlaðra taka til mjög stórs hóps í þjóðfélaginu eða allra þeirra sem á einhvern hátt eru andlega eða líkamlega fatlaðir. Ég geri ráð fyrir að hér sé um að ræða ekki minni hóp en 15-18 þús. manns. Hér er því um nálægt því jafnstóran hóp að ræða og aldraðir eru. Fatlaðir eiga allt undir því komið að Alþingi sýni málefnum þeirra skilning, en neyðarástand ríkir nú víða í vistunarmálum fatlaðra. Verkefni Framkvæmdasjóðsins eru gífurleg, en honum er ætlað að standa undir framkvæmdum vegna meðferðarheimila fatlaðra, sambýla, verndaðra vinnustaða, hjúkrunarheimila, hæfingar- og endurhæfingarstöðva, vistheimila eða sólarhringsstofnana, skóladagheimila, dagvistarstofnana, skammtímafósturheimila, leikfangasafna og sumardvalarheimila fatlaðra. Sjóðurinn þarf einnig til viðbótar þessum verkefnum að standa straum af sérkennslu og skólamálum fatlaðra sem löggjafar- og fjárveitingavaldinu ber skylda til að sinna samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga. Vegna þessa hefur sjóðurinn orðið að láta nærri þriðjung af sínu framkvæmdafé renna til skólamála fatlaðra á hverju ári. Sjóðurinn hefur einnig orðið að bæta á sig viðhaldskostnaði á stofnunum fatlaðra og hefur verulegur hluti af framkvæmdafénu runnið til endurbóta og breytinga á eldra húsnæði án aukins vistrýmis. Skólamálin og viðhaldsframkvæmdir hafa því verið verulega þungur baggi á sjóðnum sem dregið hefur verulega úr uppbyggingu á annarri þjónustu fyrir fatlaða.

Í þessu sambandi vil ég nefna að um 160 manns eru nú á biðlistum svæðisstjórna fyrir sólarhringsvistun. Þörfin fyrir sambýli er líka gríðarleg, en alls geta 113 af 320 þeirra sem nú dvelja á sólarhringsstofnunum verið á sambýlum væru þau fyrir hendi, en sambýli eru mun ódýrari í rekstri en sólarhringsstofnanir. Samkvæmt því sem samtök fatlaðra hafa upplýst er húsnæðisvandi mikill. Hjá fötluðum eru nú á biðlista 390-400 fatlaðir sem ekki sjá neina lausn á sínum málum, og margir hafa verið á biðlista svo að árum skiptir.

Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram þegar enn á að skerða gífurlega fjármagn til sjóðsins. Ljóst er að hefði ríkissjóður staðið við lögboðin framlög til fatlaðra væri staða þeirra allt önnur bæði í húsnæðis og atvinnumálum svo að dæmi séu nefnd. Ég nefni sem dæmi um þá miklu þörf sem er fyrir hendi að svæðisstjórn Reykjavíkur í málefnum fatlaðra, sem er ein af átta svæðisstjórnum málefna fatlaðra í landinu, þarf á að halda 110 millj. kr. á næsta ári til framkvæmda til að leysa úr brýnustu þörf, en það er nálægt því að vera allt framkvæmdafé sjóðsins. Samt er hér aðeins um að ræða beiðni frá einni svæðisstjórn af átta á landinu öllu.

Í þessu sambandi vil ég einnig nefna að svæðisstjórn Reykjavíkur hefur sent fjvn. og þm. Reykjavíkur bréf, bæði fyrir 2. umr. fjárlaga og aftur fyrir 3. umr. Þar er óskað eftir auknu framlagi til rekstrarkostnaðar frá því sem er á fjárlögum. Um var að ræða rekstrarkostnað vegna tveggja nýrra sambýla, framlag til að undirbúa framkvæmdir á vernduðum vinnustað á vegum Sjálfsbjargar í Reykjavík og ekki síst framlag til reksturs meðferðarheimilis fyrir fimm þroskahefta einstaklinga. Við 2. umr. fjárlaga var aðeins að litlum hluta komið til móts við þessar óskir, en veitt var fjármagn, 1,6 millj. kr., til leiguhúsnæðis fyrir sambýli. Ekki skal það vanmetið því að það leysti þörf nokkurra af þeim mikla fjölda sem nú er á biðlista í Reykjavík fyrir sambýli.

Eitt brýnasta forgangsverkefni þessarar svæðisstjórnar er að komið verði á fót meðferðarheimili fyrir þroskahefta einstaklinga með hegðunarvandkvæði. Hér er um að ræða fimm einstaklinga sem beðið hafa í mörg ár eftir slíku meðferðarheimili.

Aðstæður þessara einstaklinga eru mjög slæmar og heimili þeirra að sligast undan miklu álagi.

Svæðisstjórnin hafði við 2. umr. fjárlaga sótt um 4,5 millj. kr. til reksturs þessa meðferðarheimilis. Því var hafnað við 2. umr. fjárlaga. Nú við 3. umr. gerði svæðisstjórnin aftur tillögu og nú um að fá að hefja reksturinn frá 1. júlí n.k. Að auki var gerð tillaga um 540 þús. kr. framlag til reksturs sambýlis á vegum Styrktarfélags vangefinna. Fjvn. kemur til móts við þessar óskir með 1 millj. kr. framlagi nú við 3. umr. fjárlaga. Þótt þetta framlag nægi hvergi til að tryggja reksturinn frá 1. júlí fagna ég engu að síður þessu framlagi og í trausti þess að svæðisstjórnin njóti skilnings fjmrh. í framhaldi þessa máls og að rekstur meðferðarheimilisins og sambýlisins geti að fullu hafist á þessu ári mun ég ekki flytja brtt. að því er þennan þátt varðar.

Ég harma það að ósk Sjálfsbjargar um verndaðan vinnustað hefur ekki mætt skilningi meiri hl. fjvn. Hér er um verndaðan vinnustað að ræða sem félmrh. gaf starfsleyfi fyrir í maí 1985 en undirbúningur hefur ekki getað hafist þar sem hafnað hefur verið fjárveitingu til hans bæði á þessu ári og enn stefnir í að ekki verði hægt að hefja undirbúning að stofnun þessa verndaða vinnustaðar á næsta ári. Ég geri mér grein fyrir því að meiri hl. fjvn., eins og ráðherrar í ríkisstjórn, segir að ekki sé til meira til skiptanna og á því verði fatlaðir að hafa skilning eins og aðrir. Ég held þó, herra forseti, að hér sé fyrst og fremst um það að ræða hvað eigi að hafa forgang en ekki hvort meira sé til skiptanna. Ég get nefnt dæmi: Fyrir nokkrum dögum urðu hér miklar umræður um hert ákvæði í tekjuskattslögum til að sporna við því að forráðamenn fyrirtækja færðu einkaneyslu sína á fyrirtækin sem og um óhóflegan risnukostnað fyrirtækjanna.

Þessi mál snúa einnig að ríkisstofnunum og ráðuneytum, þar er ekki síður þörf á að setja hertar reglur um ýmiss konar bruðl sem þar á sér stað svo sem í risnu og ferðalögum. Hjá ríkisstofnunum og ráðuneytum hækkaði ferða- og risnukostnaðurinn langt umfram verðlagsbreytingar milli áranna 1983 og 1984 annars vegar og hins vegar á milli áranna 1984 og 1985 eða um rúmlega 152 millj. kr. umfram verðlag. Væri þessi upphæð nú til ráðstöfunar þyrfti ekki að skerða framlög til Framkvæmdasjóðs fatlaðra við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1987. Skerðingin samkvæmt fjárlögum fyrir næsta ár er 100 millj. kr. Ríkissjóður gæti skilað sjóðnum þessu fé og átt þó eftir um 52 millj. kr. Þetta hefði verið hægt þótt ríkisstofnanir og ráðuneyti hefðu ekki dregið saman seglin í risnu og ferðakostnaði en einungis verið gert að halda sig innan ramma verðlagsbreytinga. Ef gert er ráð fyrir því að ríkisstofnanir og ráðuneyti hefðu sætt sömu meðferð í þessu efni og framlög ríkissjóðs í Framkvæmdasjóð fatlaðra liti dæmið þannig út: Þau hefðu sem sagt fengið fyrirmæli um að í risnu og ferðakostnað á árinu 1984 og 1985 mætti einungis verja sömu krónutölu og á árinu 1983. Hefði slík skipan verið gefin hefði verið til ráðstöfunar nú á verðlagi 1. des. 1986 hvorki meira né minna en rúmar 480 millj. kr. Með þetta fjármagn til ráðstöfunar nú hefði ríkissjóður getað skilað fötluðum öllu því sem haldið hefur verið eftir af lögboðnum framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra allt frá árinu 1980, eða 360 millj. kr. og átt engu að síður eftir 120 millj. kr. til ráðstöfunar. Því tel ég, herra forseti, að þetta sé miklu frekar spurning um forgangsverkefni, á hvað ríkisstjórnir á hverjum tíma leggja áherslu heldur en það hvað er til skiptanna. Spurningin er t.d. í þessu máli: Á að verja fjármagni til að leysa ýmis vandamál hjá fötluðum eins og vistunarmál eða á að verja því í óhóflegan risnu- og ferðakostnað langt umfram verðlag eins og gert var á árunum 1984 og 1985?

Herra forseti. Í lokin vil ég lýsa stuðningi við tillögu sem flutt er á þskj. 423 af Steingrími J. Sigfússyni, Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni, um aukin framlög til K-byggingar Landspítalans. Nái hún ekki fram að ganga er einsýnt að veruleg töf, eða um eitt ár, verður á því að hægt verði að taka K-bygginguna í notkun. Læknaráð Landspítalans hefur ritað heilbr.- og trmrh. og formönnum allra þingflokka bréf varðandi þetta mál. Þar kemur m.a. fram að verði ekki staðið við gefin fyrirheit um framkvæmdahraða muni það koma niður á mjög brýnu verkefni sem eru hópskoðanir kvenna til að fyrirbyggja brjóstakrabbamein.

Ég tel að K-byggingin sé meðal brýnustu verkefna á sviði heilbrigðismála. Ljóst er að Íslendingar eru orðnir langt á eftir nágrannaþjóðum sínum í tækjabúnaði og allri aðstöðu til krabbameinslækninga. Nágrannaþjóðir okkar hafa til að mynda fyrir löngu tekið upp svonefndan línuhraðal sem er lífsnauðsynlegt tæki fyrir nútímageislalækningar. Upplýst hefur verið hér á Alþingi að fjölda sjúklinga hefur orðið að senda utan til krabbameinslækninga vegna aðstöðuleysis hérlendis. Einnig hefur komið fram að um helmingur eða 2/5 þeirra krabbameinssjúklinga sem fara í geislameðferð þurfa á að halda geislameðferð í línuhraðli sem ekki er hægt að taka í notkun fyrr en K-byggingin kemst í gagnið. Það er því ljóst að um er að ræða eitt allra brýnasta verkefnið á sviði heilbrigðismála sem á að hafa forgang. Því skora ég á þingmenn að sameinast um nauðsynlegt framlag til að hægt verði að halda uppi áætluðum framkvæmdahraða við K-bygginguna.

Herra forseti, ég hef lokið máli mínu.