19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

1. mál, fjárlög 1987

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hér hafa farið fram langar umræður um fjármál ríkisins og margt verið sagt um þau. Hið háa Alþingi hefur setið og skipt tekjum ríkisins til þarflegra mála og fram hefur komið að niðurstaða fjárlaga er áætlaður halli ríkissjóðs um 2800 millj.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem aðrir hafa hér sagt, ég er lítt gefin fyrir það, en vek athygli á því að samkvæmt fréttum fjölmiðla í kvöld eru ekki miklar líkur á að hagur landsmanna batni.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, með tilliti til þess að hér er um síðasta þingfund að ræða, að lesa frétt sem birtist í báðum sjónvarpsstöðvum í kvöld og ég les fréttina eins og hún birtist í ríkissjónvarpinu:

„Hæstiréttur hefur sýknað Björn Pálsson lögfræðing af ákæru um að okra á Hermanni Björgvinssyni seinni hluta árs 1984 þar sem Seðlabankinn auglýsti ekki leyfilega hámarksvexti. Hins vegar var hann sakfelldur fyrir að okra á einu láni til Hermanns á árinu 1984. Þetta mál hefur víðtæk áhrif á framgang okurmálsins eins og Hallur Hallsson segir okkur frá“ - og síðan tekur Hallur Hallsson við:

„Með dómi Hæstaréttar hefur okurmálið tekið nýja stefnu og ljóst virðist að málið er að mestum hluta fallið um sjálft sig og væntanlega verða felldar niður ákærur á hendur þeim 123 konum og körlum sem sakaðir eru um að okra á Hermanni á árinu 1985 þegar lánastarfsemi hans var með hvað blómlegustum hætti. Og hið sama virðist liggja á borðinu um málið á hendur Hermanni Björgvinssyni. Lánastarfsemi hans á árinu 1985 og frá ágúst 1984 til áramóta teljist ekki varða við lög þar sem Seðlabankinn uppfyllti ekki þá lagaskyldu sína að auglýsa hæstu leyfilega vexti.“ - Ég vek athygli hv. þm. á að ég er að lesa hæstaréttardóm.

„En snúum okkur að máli Björns Pálssonar. Hann er sakfelldur í Hæstarétti og dæmdur til greiðslu 60 þús. kr. sektar fyrir eitt lán, fyrir að hafa lánað Hermanni 300 þús. kr. í júlí 1984 og tekið sér 80% ársvexti eða 14 750 kr. En Björn lánaði Hermanni mest á árinu 1985, alls 24 lán. Fyrir það var hann dæmdur í sakadómi Reykjavíkur í 1400 þús. kr. sekt, en hluti hennar var skilorðsbundinn og því reiknað með að raunveruleg sekt yrði 400 þús. kr. Þessi dómur er úr gildi felldur. Í þess stað er Björn dæmdur í 60 þús. kr. sekt fyrir aðeins eitt lán. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu sakadómara að sýkna Björn af ákærum um okur á tímabilinu ágúst 1984 til desember sama ár. Raunar kom til álita hjá sakadómara að sýkna Björn af að okra á árinu 1985, en taldi þó að þrátt fyrir annmarka á auglýsingum Seðlabankans bæri að sakfella Björn fyrir okur á árinu 1985.

Allt um það, þá er víst að mesta púðrið er úr málinu, ef svo má að orði komast, því Seðlabankinn uppfyllti ekki lagaskyldur sínar um að auglýsa hámarksvexti. Það má benda á að samkvæmt ákæru á Hermann yfir höfði sér allt að 518 millj. kr. sekt fyrir okur. Víst er að sú tala mun lækka gífurlega því lánastarfsemi hans var blómlegust á árinu 1985. Og einnig er víst að þeim fækkar verulega sem mega búast við að verða sakfelldir í þessu umtalaða okurmáli.“

518 millj. kr. sekt á hendur einum manni væri þó nokkrum sinnum skerðingar á Framkvæmdasjóði fatlaðra, hæstv. fjmrh.

Hvers vegna er ég að tala um þetta í umræðum um fjárlög? Það er vegna þess að Seðlabanki Íslands leikur ekki hvað þýðingarminnst hlutverk í fjármálum þjóðarinnar, enda hljóðar 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands svo, með leyfi forseta:

„Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Seðlabankans. Heimili og varnarþing Seðlabankans er í Reykjavík.“

Hvað er hér um að ræða? Seðlabanki Íslands, æðsta peningastofnun þjóðarinnar, hefur ekki sinnt lagaskyldu sinni. Hvað þýðir það, hv. alþm.? Stofnunin er óstarfhæf. Í lögum um Seðlabanka Íslands segir í 29. gr., með leyfi forseta:

„Hafi bankastjóri brotið af sér í starfi getur ráðherra vikið honum úr starfi fyrirvaralaust án launa.“

Og hvað var það sem ég leyfði mér að halda fram að bankastjórar Seðlabankans hafi svikist um í starfi? Það er að fara að 3. gr. laga um Seðlabanka. Þar segir í f-lið: [Hlutverk Seðlabankans er] „að vera banki innlánsstofnana, hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaviðskiptum.“

Síðan liggur það fyrir að tekjur landsmanna, arðurinn af vinnu landsmanna liggur í hundraða milljóna króna tali í vösum svindlaranna sem ekki er hægt að draga til ábyrgðar og ná þessum peningum aftur vegna þess að Seðlabanki Íslands brást lagaskyldu sinni. Ég spyr bankaráð Seðlabankans sem Alþingi Íslendinga hefur kjörið. Einn hv. þm. á þar sæti, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra bankamála: Hvernig hyggst hann bregðast við þessu? Fyrir nokkrum árum eða nánar tiltekið 20. júní 1985 fékk ég svar hæstv. ráðherra bankamála við fsp. minni sem hljóðaði svo, með leyfi forseta, og var tilkomin vegna þess að ég gerði athugasemdir við að bankar innheimtu misháa vexti af skuldabréfum. Í svari ráðherra kemur fram eftirfarandi:

Ég spurði: Geta bankar og sparisjóðir krafið viðskiptamenn um mismunandi vexti af veðskuldabréfum sem til innheimtu eru?

Svarið við því var m.a. á þessa leið og ég mun ekki þreyta þingið á að lesa það allt. Hér var um skriflegt svar að ræða. En hæstv. ráðh. svaraði því til í lok svarsins:

„Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið svo og að framangreindar auglýstar ákvarðanir um vexti gilda bæði utan og innan innlánsstofnana, en um þessi atriði hefur vart verið ágreiningur, verður að telja að bankar og sparisjóðir geti ekki krafið viðskiptamenn um önnur og þyngri vaxtakjör í þessu efni en Seðlabankinn hefur auglýst frá einum tíma til annars.“

Nú liggur fyrir að þetta svar er einskis virði. Um það hefur fallið dómur í Hæstarétti. Það liggur því alveg ljóst fyrir að þeir menn sem æðstum embættum gegna við stjórnun fjármála í landinu hafa brugðist skyldu sinni. Og ég endurtek: Hundruð milljóna króna liggja á víð og dreif um þjóðfélagið og það er ekki hægt að ná þeim aftur vegna þess að Seðlabankinn er sá seki. Það var hann sem brást skyldu sinni.

Ég spyr: Er ekki hjákátlegt að eyða dögum í að pexa um hvort einhver þjóðþrifafyrirtæki fái 1 millj., 5 millj., 10 millj. til að geta stundað þann rekstur sem þar er rekinn í þágu þegna þjóðfélagsins á meðan spekúlantar fá að leika lausum hala í þjóðfélaginu undir verndarvæng Seðlabanka Íslands sem er á ábyrgð ríkissjóðs?

Ég hlaut, herra forseti, að vekja athygli á þessu máli og krefjast þess að nú þegar verði brugðist við þessu máli og það áður en þingheimur fer í þinghlé. Við getum hvorki treyst bankaráði, bankastjórn né bankastjórum Seðlabankans fyrir fjármálum þjóðarinnar. Það liggur alveg ljóst fyrir. Skal þetta nægja um það mál.

Ég sagði áðan að ég hygðist ekki endurtaka það sem áður hefur verið sagt hér og flokksfélagar mínir hafa vikið að. Ég hygg ég hafi heyrt mest af þeim umræðum, en þó ekki allt og hafi enginn minnst á atriði varðandi Ríkisútvarpið vil ég vekja athygli á því hér. Ríkisútvarpið fer fram á hækkun afnotagjalda. Og af hverju er það? Jú, það stendur í Morgunblaðinu í dag í viðtali við Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra. Hann talar um að það hafi orðið mikill samdráttur í auglýsingum hjá sífjölgandi fjölmiðlum sem berjast um auglýsingarnar. Hann segir:

„Sjónvarpið hefur hins vegar haldið sínu nokkurn veginn og hefur Stöð 2 ekki haft veruleg áhrif þar á auglýsingasviðinu. Við lækkuðum auglýsingaverð á Rás 1 um 12,5% nú fyrir skömmu til að halda í við samkeppnina, en á móti verðum við að hækka afnotagjöldin.“

Hvað þýðir þetta? Til viðbótar við að viðskiptavinir auglýsenda greiða að sjálfsögðu kostnaðinn af öllum þeirra auglýsingum eiga þeir nú að bæta við sig þeim kostnaði sem hlýst af því að stöðvarnar eru orðnar fleiri og fleiri og þeir verða að lækka auglýsingatekjur sínar. Finnst mönnum þetta sanngjarnt og er þetta í samræmi við önnur verðlagsákvæði og loforð um stöðugt verðlag sem nýafstaðnir kjarasamningar fela í sér? Ég spyr hv. þingheim hvort þetta geti talist eðlilegt.

Ég ætla ekki að bæta miklu við um kjör ellilífeyrisþega og aldraðra í þessu þjóðfélagi, fatlaðra. Á meðan lágmark er talið að hægt sé hugsanlega að draga fram lífið á 26 500 kr. er það talið ónauðsynleg upphæð fyrir námsmenn. Þeir geti lifað af langtum lægri upphæð og þeirra börn. Þó nær hún 20 þús. kr. rúmum. En öryrkjunum og ellilífeyrisþegunum nægi 15-16 þús. kr. til að lifa af á mánuði. Þegar þetta mál kom upp spurði ég skrifstofur verkalýðssamtakanna hvernig bæri að skilja kjarasamningana þar sem öll þekkjum við ákvæði almannatryggingalaga um að þegar dagvinnulaun hækki í almennri verkamannavinnu skuli bætur almannatrygginga hækka. Og svarið var ofureinfalt og vitað frá byrjun: Það urðu ekki hækkanir í almennri daglaunavinnu. Lægstu launin voru einungis hækkuð svo að lagalega séð er ekki hægt að krefja hæstv. fjmrh. um að tryggingabætur fylgi þessari hækkun lægstu launa. Sem sagt: verkalýðshreyfingin samdi um að elli- og örorkulífeyrisþegar skyldu ekki fá lægstu laun né heldur námsmenn.

Ég ætla ekki að taka fleiri dæmi af þeirri revíu sem hér fer fram. Þetta er nefnilega löngu orðinn farsi. Við erum að fárast í smámunum á meðan allt aðrir aðilar í þjóðfélaginu leika sér með fé landsmanna. Það er óvera sem við erum að fást við. Og fari hv. þm. heim í þingleyfi í fullvissu um að þeir stjórni þessu þjóðfélagi verð ég að gefa þeim í jólagjöf að segja: Það er alrangt. Það gera allt aðrir.