19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

1. mál, fjárlög 1987

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hafði hér eftir mér að umboð það sem þingflokkur sjálfstæðismanna gaf hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. þann 10. des. s.l. hefði falið í sér að þeir skyldu leysa málið varðandi kaup á Borgarspítalanum þannig að kaupin gangi eftir með því skilyrði að sjálfstjórn spítalans verði tryggð, eins og hv. þm. hafði eftir mér. Ég sagði hins vegar í ræðu minni fyrr í kvöld að í umboðinu hefði falist að jafnframt verði gefin yfirlýsing um hvernig sjálfstæði spítalans verði tryggt. Á þessu er verulegur munur og nóg um það.

Það væri vissulega freistandi að ræða nokkuð um byggingu þess húss sem hér hefur verið gert að umtalsefni, húss fyrir Alþingi, en ég skal reyna að stilla mig, enda nokkuð liðið á nóttu og hæstv. forseti sameinaðs Alþingis hefur svarað þeim sem hér hafa talað gegn till. okkar. En það er út af fyrir sig að þeir hv. alþm. sem hafa verulega kynnt sér málið kunni að vera á móti því. Um það er ekkert að segja. En þeir sem lítið hafa kynnt sér það og eru á móti því ættu ekki að tala eins og þeir gera.

Ég skil t.d. ekki í hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni þegar hann segir að þetta sé í fyrsta skipti sem þetta mál sé rætt í þingsölum. Af hverju segja menn svona? Bygging húss fyrir Alþingi hefur verið hér til umræðu um áraraðir. (JBH: Hvaða tillaga?) Ég man satt að segja ekki hvenær það kom fyrst til umræðu í þinginu frá því ég kom á þing. (JBH: Hvar er tillagan?) Hvaða tillaga? (JBH: Um byggingu Alþingishúss?) Svo segja menn, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð, að það hafi aldrei verið ákveðið að byggja þetta hús. Það er alveg rétt. Við erum ekkert að ræða um að byggja einmitt það hús sem hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni. Það hefur enginn samþykkt að byggja það hús. En menn tala eins og við séum að fara að byggja ef við samþykkjum þessar 12 millj. sem farið er fram á til hönnunar hússins. Af hverju í ósköpunum tala menn svona? Þetta er að tala gegn betri vitund.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð segir líka að við sem erum flm. þessarar till., og á þá vafalaust við okkur sem erum í þingflokki sjálfstæðismanna, höfum ekkert umboð, við höfum ekkert umboð til að vera flm. þessarar till. Við báðum ekkert þingflokkinn allan um að styðja till. Það gerðum við ekki. Og enginn ætti að vita það betur en hv. þm. Eyjólfur Konráð að enginn þm. Sjálfstfl. er stöðvaður í því að vera flm.till. þótt þingflokkurinn allur væri andvígur málinu. Ég efast um að nokkur annar þm. Sjálfstfl. en Eyjólfur Konráð Jónsson hafi oftar flutt till. sem þingflokkurinn er á móti. En það hefur enginn stöðvað hann. Hann hefur auðvitað ekki flutt till. í umboði þingflokksins eða talað fyrir hans hönd. Við höfum ekkert látið í það skína að við værum að því. Af hverju talar þá hv. þm. svona? Af hverju er hann að gera því skóna að við séum að tala í umboði þingflokksins?

Svo ætlar hv. þm. að leysa þetta mál með því bara að kaupa Oddfellowhúsið á morgun. Svona einfalt er það. (Gripið fram í: Það líst mér vel á.) Ja, það væri kannske rétt að kanna það áður en Alþingi ákveður að kaupa Oddfellowhúsið hvort það er til sölu. Það kannske þarf ekki. Ég veit að hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur flutt hér till. um að breyta Útvarpshúsinu í smáíbúðir og selja jafnvel Hótel Sögu þó ríkið eigi það ekki, ekki það hús. Það er kannske hægt að leysa þetta svona. Það má vel vera.

Já, svo má fá eina hæð í húsi Pósts og síma líka á morgun. Það eru að vísu hægari heimatökin þar en að kaupa Oddfellowhúsið því að það er þó eitthvað í tengslum við ríkið. (SvG: Hver var að benda á slysadeildina?) Það er ekki afgreitt mál, hv. þm. Ég hélt ég væri búinn að lýsa því yfir að það er óafgreitt mál.

Svo er talað um að það sé óvirðing við Alþingi að flytja þessa till. Ef eitthvað er óvirðing við Alþingi er það að halda því fram að þetta þinghús og aðstaðan sem allir sem hér starfa búa við sé fullnægjandi fyrir þessa virðulegustu stofnun þjóðarinnar. Ég hef boðið þeim þm. Sjálfstfl. sem telja að það þurfi ekkert að gera í málefnum húsnæðis Alþingis að ganga um húsnæði Alþingis og skoða hver aðstaða starfsfólks þingsins er, alveg að slepptri aðstöðu þingmanna, við skulum láta hana mæta afgangi. En að nokkur opinber stofnun leyfi sér að bjóða starfsmönnum sínum upp á þá aðstöðu sem hér er það er alveg útilokað mál og þekkist hvergi hjá því opinbera nema hjá Alþingi. Og þessu mæla einstaka þm. bót og vilja hafa þetta svona, kaupa kannske einhverja kofa í viðbót, sem við höfum verið að gera á undanförnum árum, og gera jafnvel upp með ærnum kostnaði. Muna menn eftir skýrslunni sem var send þm. þegar endurbyggt hafði verið húsið Vonarstræti 12? Það er ágætt hús, fallegt hús, að hluta til verndað. Og það er verndað svo vel að þegar það var endurbyggt var passað upp á það að það mátti ekki hafa tvöfalt gler í því og það mátti náttúrlega ekki hljóðeinangra veggina. Það er í lagi á efstu hæðinni vegna þess að Alþb. hefur hana alla þannig að menn geta talað upphátt þar, en ekki á öðrum hæðum. Vilja menn halda þessu áfram? Vilja menn það virkilega? Það er verið að endurbyggja hérna eina hæð í einum kofa hérna í næsta nágrenni við Alþingi. Það er búið að taka á leigu. Menn vita það kannske ekki. Það er búið að taka á leigu eina hæð, ég man nú ekki hvað það heitir, Kirkjuhvoll líklega, einn kofann í viðbót, eitt hrófatildrið í viðbót til að bæta úr brýnustu húsnæðisþörf þingsins. Þetta vilja menn. Þessu vilja menn halda áfram. Menn eru víst að gæta virðingar Alþingis með því að halda þessu áfram undir forustu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Ja, drottinn minn dýri!

Ég verð að segja að mér finnst einhvern veginn að þeir sem hæst tala gegn þessum byggingaráformum séu þeir sem minnst hafa kynnt sér starfsaðstöðu þeirra sem vinna hér við Alþingi og þá á ég ekki bara við þingmennina. Sumir búa svo vel að vísu að þeir þurfa ekkert til Alþingis að leita með skrifstofur. Þeir hafa þær hérna í næsta nágrenni. Ég nefni þar engin nöfn, ekki einu sinni fyrsta stafinn.