13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Guðmundur Einarsson:

Virðulegi forseti. Það kom einhvers staðar fram í blöðum í dag að hæstv. forsrh. var að því spurður hvers vegna Alþingi hafi verið kallað saman nú til að ræða þetta mál. Hann svaraði því til að honum hefði þótt það að ýmsu leyti lýðræðislegra og þá ber oss líklega að þakka að fá að vera viðstaddir.

Það hafa nokkur atriði komið hér fram sem ég vildi gera að umræðuefni. Í fyrsta lagi um ábyrgð. Það er ljóst og það hafa ýmsir lýst því hérna með góðum rökum að líklega hefur engin ríkisstjórn unnið markvissara að því en þessi að gera allt sem heita frjálsir samningar algerlega marklaust. Það fara varla í gang þeir kjarasamningar nú orðið síðustu misseri að menn hafi það ekki nokkurn veginn á hreinu að annaðhvort verði þeim bjargað út úr klípum sem þeir kunna að koma sér í vegna þess hvernig kröfur eru settar fram eða vegna þess hvernig við kröfum er brugðist eða þeir verða stöðvaðir ef samningamálin þykja á einhvern hátt komin á það spor að það sé stjórnvöldum og þá ríkisstjórn vanþóknanlegt.

Við höfum séð um þetta ýmis dæmi og það er alveg ljóst hvernig þetta gerðist núna. Samningar höfðu ekki staðið nema í örfáa dagparta þegar því var lymskulega komið af stað að auðvitað yrði séð um að þetta færi ekkert úr böndum. Og hvernig gerðist það? Það kom fyrst með frétt frá sjútvrn. um að einhver hjá Long John Silver hefði að því er mig minnir hringt og sagt frá því að þeir hefðu þungar áhyggjur af þessu.

Hvað gerist síðan? Síðan sjáum við að það eru að því er virðist málefnalegar umræður um það í leiðurum Morgunblaðsins að auðvitað séu þarna stórir hagsmunir í veði. Auðvitað eru stórir hagsmunir í veði. Það eru alltaf stórir hagsmunir í veði þegar verkföll eru eða eru yfirvofandi. Síðan verður alveg augljóst að þetta stóð alltaf til vegna þess að jafnvel þótt samningar hafi verið vel á veg komnir og menn eru með tvo stóra bunka á borðum sínum, annar er bunkinn sem búið er að semja um, hinn er bunkinn með þeim málum sem voru til umræðu, þá er gripið inn í.

Það er rangt, sem kemur fram í þessu þskj., að deiluaðilar hafi verið sammála um að ekki þýddi lengur að reyna að semja. Þetta er sett inn í þskj. sem nú hefur verið dreift. Hins vegar hefur það komið fram í okkar viðtölum við málsaðila að þeir telja þetta rangt. Fulltrúar Sjómannasambandsins telja a.m.k. að það sé rangt að ekki hafi verið hægt að leita samninga lengur, það sé rangt að málið hafi verið komið í hnút og telja auðsýnt að málið hafi verið í miðju kafi. Það voru kannske að fæðast samningar að þeirra mati. En auðvitað hafði þetta legið í loftinu dögum saman, sbr. það sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði áðan, og auðvitað var þetta flumbrugangur, ekki kannske flumbrugangur klaufans heldur flumbrugangur þess sem líður fólki það ekki að gera frjálsa samninga vegna þess að þeir gætu samið sig út fyrir einhvern rammann.

Auðvitað er það orðið svo að samningaumleitanir í þessu landi um kaup og kjör eru í langflestum tilfellum orðin markleysa. Eins og ég segi: Annaðhvort geta menn átt það víst að ef þeir koma sér í einhverja klípu með óbilgjörnum kröfum eða óbilgjarnri framkomu við samningaborðið verður þeim bjargað úr samningasnörunni eða að ef þeir eru komnir vel á veg með að gera samninga sem ríkisstjórnin teldi að gæti verið slæmt fordæmi, það gæti nefnilega verið slæmt fordæmi ef það kæmi í ljós að einhver í þessu landi gæti lifað, þá getur hún stöðvað samninga með lagainngripi. Þannig er samningsformið að þessu leyti orðið óvirkt. Auðvitað er verið að gera grín að þessu samningafyrirkomulagi. Auðvitað er verið að gera grín að verkfallsrétti. Og það er verið að gera grín að áratugabaráttu verkafólks fyrir að ná þessu vopni sem nú er álitið svo beitt að því er ekki treystandi fyrir að beita því.

Ég vildi síðan gera örlítið að umtalsefni þær röksemdir sem ég hef á minni stuttu þingsetu heyrt þegar menn eru að réttlæta þessar lagasetningar. Þar er hentistefna ráðandi. Fyrsta röksemdin er þjóðhagslegt mikilvægi. Auðvitað getur ríkisstjórn alltaf beitt þessari röksemd um þjóðhagslegt mikilvægi. Auðvitað er það alltaf þjóðhagslega mikilvægt og getur orðið þjóðhagslega sársaukafullt ef verkafólk beitir þessu vopni. En það er þess vegna sem verkafólk á það, til þess að geta sótt þennan rétt sinn. Lagin ríkisstjórn í röksemdafærslu, eins og þessi, getur alltaf beitt þessu um þjóðhagslega mikilvægið. Það komu nýlega fram upplýsingar um að myndbandaleigur í þessu landi velta líklega 700-1000 millj. kr. á ári. Ef afgreiðslufólk á myndbandaleigum ætlaði sér að gera verkfall yrði það stoppað með lögum. Auðvitað er þjóðhagslega mikilvægt að það velti 700-1000 millj. Þannig er hægt að beita rökum um þjóðhagslegt mikilvægi undir hvaða einustu kringumstæðum sem er, enda er augljóst að þeim er alltaf beitt. Við munum eftir flugfreyjuverkfallinu. Það var ekki lítið sem gekk á þá að koma lögum yfir flugfreyjur vegna þess að það var svo þjóðhagslega mikilvægt að fyrirtækið Flugleiðir gæti haldið áfram flugi sínu sem mér skilst nú vera tap á. Ég held að það hefði kannske verið miklu mikilvægara þjóðhagslega að fyrirtækið hætti rekstri á þeim tíma. En þjóðhagslegt mikilvægi eru röksemdir sem eru notaðar gegn verkföllum og notaðar til að stöðva þau.

Í öðru lagi er þetta nýjasta: markaðssjónarmið. Ég hef reyndar heyrt það áður vegna þess að þegar lög gegn verkföllum í samgöngugeiranum svokallaða hafa verið uppi hafa menn gjarnan beitt fyrir sig markaðssjónarmiðum. Fyrirtæki eins og Flugleiðir, sem eru í ferðamannabransanum, eru auðvitað að afla sér markaða, það er partur af því að vera fyrirtæki að afla sér markaða, og þá má ekki eyðileggja markaðina. Nú er þetta eitt meginsjónarmiðið, þetta er ein meginröksemdin fyrir því að banna þetta verkfall núna. Það eru markaðir fyrir frystan fisk. Þarna erum við komnir með þjóðhagslegt mikilvægi, við erum komnir með markaðssjónarmið. Síðan eru alkunn öryggissjónarmiðin sem sett eru upp þegar t.d. samgöngustéttir eins og flugfólk eða farmenn hafa vogað sér að fara í verkfall. Þá eru rökin sem eru notuð þau að það sé öryggi þjóðarinnar hættulegt að verkfallsvopninu sé beitt.

Þá hafa í þessari deilu heyrst fjórðu rökin og þau eru þau að hagsmunir þeirra sjómanna sem núna séu í verkfalli séu svo ólíkir. T.d. eru þá loðnusjómenn teknir sem dæmi og þar með segja menn: Hagsmunir þeirra sem eru í verkfalli eru svo ólíkir að það er ekki hægt að líða þeim að vera í verkfalli. Menn hafa líka sagt að áhrif þessa verkfalls komi svo ólíkt niður á mismunandi landshluta að þess vegna megi ekki líða þeim að vera í verkfalli. Þannig er reynt að etja mönnum saman innan stéttarinnar og það er líka reynt að etja mismunandi landshlutum saman gegn verkfallinu. Þannig verður það að þjóðhagslega mikilvægið og það að verkfallsvopni er beitt, að verkfallsvopnið bítur, er notað sem rök gegn því að beita því. Verkalýðshreyfingin fékk verkfallsvopn í hendurnar vegna þess að það bítur, vegna þess að það getur ógnað þjóðhagslegu mikilvægi, vegna þess að það getur ógnað mörkuðum, vegna þess að það getur ógnað öryggi, vegna þess að það getur gert ýmislegt. Það hefur alltaf verið ljóst. Þess vegna börðust menn í áratugi fyrir að fá þetta vopn. En núna koma menn hérna og segja: Það er ekki hægt að leyfa mönnum að hafa þetta vopn. Þetta er svo hættulegt. Þetta getur skaðað markaði. Þetta getur gert hitt og þetta. Auðvitað er það ljóst, en þá eiga menn bara að semja.

Mér sýnist, herra forseti, að það sé komið að því að stjórnmálamenn, sérstaklega þeir sem eru í forsvari fyrir Sjálfstfl. og Framsfl., verði núna eftir stjórnarsetu sína að svara ákveðinni brennandi spurningu. Hún er þessi: Vilja þeir skilgreina verkföll eða verkalýðsbaráttu upp á nýtt? Eru þeir m.ö.o. að segja að það séu einhverjar þær kringumstæður núna í okkar samfélagi sem leyfi ekki að mönnum líðist að eiga svona beitt vopn? Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn svari þessum spurningum. Menn eiga að spyrja hvort þessi síendurtekna lagasetning sé vísbending um að menn vilji leita einhverra annarra aðferða í verkalýðsbaráttu til að gera út um kaup og kjör. Eru menn að undirbúa okkur undir að verkfallsréttur verði afnuminn og settur verði upp allsherjar lagadómstóll eða hvað meina menn? Vilja menn þá t.d. hreinlega taka sjómenn og farmenn út úr lögunum eða taka af þeim hinn venjulega verkfallsrétt og láta þá hafa takmarkaðan verkfallsrétt eins og hjúkrunarfólki og læknum er fenginn vegna þess að það geti orðið svo þjóðhagslega hættulegt ef þeir fara í verkfall? Heilbrigðisstéttir hafa takmarkaðan verkfallsrétt vegna þess að menn gera sér grein fyrir að það geti orðið hættulegt fyrir sjúklinga ef þær fara í verkfall. Nú virðist mér að það sé eiginlega komin upp sama staða. Ríkisstjórnin sé að biðja um að það sé skilgreindur upp á nýtt verkfallsréttur fyrir sjómenn og farmenn vegna þess að það sé þjóðhagslega hættulegt að þeir fari í verkfall. Mér sýnist að þessi röð síendurtekinna inngripa þessarar ríkisstjórnar í vinnudeilur krefji forsvarsmenn hennar til svars um það: Eru þeir að tala um að það þurfi að breyta lögunum um verkföll og vinnudeilur? Líða þeir ekki stéttum þessa lands að eiga þetta vopn?

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með því að gera grein fyrir þingmáli. Það er á þskj. 503 og er 275. mál Alþingis. Það heitir „Tillaga til rökstuddrar dagskrár í málinu: Frv. til l. um stöðvun verkfalls á fiskiskipum og verkfalls félagsmanna í Sjómannafélagi Reykjavíkur á farskipum.“ Það er frá Jóni Baldvini Hannibalssyni, Guðmundi Einarssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Karvel Pálmasyni og Kjartani Jóhannssyni, þm. Alþfl. í Nd. Málið hljóðar svo, herra forseti:

„Þar sem samningaumleitanir í þessum kjaradeilum hafa aðeins staðið yfir í 3-5 daga, þar sem samkomulag hafði tekist eða var að takast um mörg deiluatriðanna, þar sem deiluaðilar eru ekki sammála um að fullreynt hafi verið í samningaumleitunum, þar sem forsrh. hefur viðurkennt í framsöguræðu sinni að tilraunir til samkomulags hafi verið minni en æskilegt hefði verið og þar sem takmarkaðar birgðir sjávarafurða eru löngu þekkt staðreynd og ekki sök eða á ábyrgð deiluaðila telur Alþingi að forsendur frv. og rökstuðningur fyrir því standist ekki, vísar því málinu frá (til samningsaðila og sáttasemjara) og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“