13.01.1987
Neðri deild: 34. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

275. mál, stöðvun verkfalls á fiskiskipum og á farskipum

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég mótmæli því algjörlega að hér sé verið að deila um aukaatriði eða formsatriði. Það skiptir höfuðmáli hvort það á að vísa mönnum enn á ný til samningaþófsins með svipu lagasetningarinnar hangandi yfir sér eða ekki. Valið stendur á milli þess hvort menn vilja hér játa frumhlaup sitt, játa þau mistök sem hafa hér orðið og taka málið út úr þinginu, láta samningsaðila setjast eins og frjálsa menn að samningum eins og þeir hafa lýst sig fúsa til og þeir hafa lýst því yfir að það hafi verið svigrúm til að semja. Þetta er ekki spurning um aukaatriði eða formsatriði heldur spurning um þetta. Við höfum heyrt lýsingar á því hvaða gagn er af samningaprósessnum þegar menn á undanförnum dögum hafa haft þetta mál hangandi yfir sér. Það skiptir ekki höfuðmáli hvort menn vita af málinu tilbúnu í skrifborðsskúffunni uppi í ráðuneyti eða liggjandi á borðum þingnefndar. Aðalatriðið er að málið á að fara út úr heiminum. Fyrst þessi niðurstaða er komin er augljóst mál að flm. frávísunartillögunnar munu halda fast við að hún komi til atkvæða og það sem allra fyrst. Ég geri það að tillögu minni eftir yfirlýsingu fjmrh. að málið verði látið koma til afgreiðslu nú og það verði ekki gefið neitt sérstakt tóm til þingflokksformannafunda. Málið er alveg ljóst frá hendi ráðherra og hvaða farveg málið á að fara í.