20.01.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

248. mál, yfirlýsingar í tengslum við kjarasamninga

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er laukrétt sem fram kom hjá hv. fyrri flm. þessarar fsp. að við komum svo að segja samtímis með sams konar fyrirspurnir til skrifstofu Alþingis og því þótti okkur ráðlegt að flytja þessa fsp. saman.

Hæstv. forsrh. svaraði því ekki að mínu dómi hvort umrædd 12,74% hækkun kæmi til framkvæmda, þ.e. hvort yfirlýsing ríkisstjórnarinnar á sínum tíma vegna nýgerðra kjarasamninga kæmi í veg fyrir framkvæmd þeirrar hækkunar á sínum tíma. Ég óska eftir því að hæstv. ráðh. svari því skorinorðar en hann gerði hér áðan.

Að mínu áliti er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna ekki í samræmi við 8. gr. búvörulaganna svonefndu né heldur 30. gr. þeirra. Í báðum tilvikum er óhjákvæmilegt að opinberir aðilar komi til, annars vegar varðandi 8. gr. þegar um verðlagningu er að ræða og hins vegar varðandi 30. gr. þegar um stjórnun er að ræða. Vel má vera að það sé túlkunaratriði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að því er varðar landbúnaðarmál, yfirlýsingu hennar vegna kjarasamninganna hvað eru opinberar aðgerðir, hvað er framleiðslu- og verðstýring af opinberri hálfu. Það má vel vera að það sé túlkunaratriði.

Til viðbótar tilvitnun í nýsett búvörulög, þá muna það allir, sem tóku þátt í umfjöllun um búvörulagafrv. á sínum tíma á vordögum 1985, að þá lágu fyrir yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnar, a.m.k. hef ég allar götur síðan litið svo a, yfirlýsingar um það að yrði um að ræða samkomulag af hálfu framleiðenda í þeim greinum sem hér um ræðir, þá mundu stjórnvöld gera allt sitt til þess að stuðla að því að stjórnun yrði komið á í þessum greinum.

Ég skal ekki á þessari stundu leggja persónulega mat á það hvort nú sé rétti tíminn til slíkra aðgerða. Ég hef þó freistast til þess að fara eftir viðhorfum hagsmunaaðila í þessum greinum að því er varðar löngun meiri hluta þeirra til þess að stjórna sínum málum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en vil ítreka spurningu mína til hæstv. forsrh. varðandi þá hækkun sem að vísu fulltrúar bændastéttarinnar samþykktu að yrði frestað, hvort yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna launasamninganna nýgerðu eiga m.a. við þessar prósentur.