20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hygg að það sé skynsamlegra að reyna að greina nokkuð um hvað þetta mál snýst sem hér er til umræðu í stað þess að vera með hnútukast og brigslyrði í allar áttir sem leiða ekki til neinnar niðurstöðu í þessu máli.

Þetta mál er miklu stærra en svo að það snúist um persónuna Sturlu Kristjánsson. Af því sem fram hefur komið má telja að samskiptaörðugleikar hafi verið miklir milli menntmrh., menntmrn. og fræðslustjórans í Norðurlandskjördæmi eystra. Til þessara samskiptaörðugleika má víst rekja að nokkru að erfitt hefur reynst að halda uppi eðlilegri kennslu, m.a. vegna þröngs fjárhagsramma sem fræðsluumdæmunum eru búin. Fræðslustjórinn er í því vandasama hlutverki að þurfa annars vegar að reyna að halda uppi eðlilegu skólahaldi í kjördæminu og hins vegar að halda sér innan allt of þröngs fjárhagsramma sem honum er skammtaður af menntmrn. og fjárveitingavaldinu. Þetta tvennt hefur ekki gengið upp. Fræðslustjórinn hefur tekið þann kostinn að reyna að halda uppi skólahaldi sem gengið hefur á svig við ákvarðanir ráðherra og sem gengið hefur út yfir þann fjárhagsramma sem honum hefur verið skammtaður. Engu að síður tel ég að of hart hafi verið gengið fram af hálfu menntmrh. í þessu máli þó ég vilji ekki þar með mæla því bót að fræðslustjórinn gangi á svig við fjárlög. Spurningin er líka og hún er veigamikil: Hver stendur fyrir niðurskurði til sérkennslu frá áætlaðri þörf fræðsluumdæmanna eða fyrir niðurskurði til grunnskólanna almennt? Í þessu sambandi vil ég, með leyfi forseta, vitna í greinargerð fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra varðandi brottvikningu fræðslustjóra, Sturlu Kristjánssonar, úr starfi, sem dagsett er 19. jan. 1987. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Það liggur fyrir að eftir þá meðferð sem áætlanir fræðslustjóra fá í menntmrn. fara þær óbreyttar í gegn hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og koma því til skila til fjárlaga eins og ráðuneytið gengur frá þeim. Vísast hér til ummæla Magnúsar Péturssonar hagsýslustjóra er hann viðhafði við fræðslustjórana Pétur Bjarnason, Guðmund Inga Leifsson og Sturlu Kristjánsson þegar þeir hittu hann að máli 17. febr. 1986. Tjáði hann þeim að áætlanir frá menntmrn. um grunnskóla hefðu ekki verið skornar niður hjá hagsýslu s.l. tvö ár.“

Ég tel, herra forseti, að hér sé um athyglisverða tilvitnun að ræða og nokkurn kjarnapunkt í þeirri umræðu sem hér fer fram. Sé þetta rétt, að áætlanirnar hafi ekki verið skornar niður frá því sem menntmrn. gengur frá þeim til Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, þá staðfestir það að menntmrh. og menntmrn. virðast fyrst og fremst bera ábyrgð á þeim niðurskurði sem orðið hefur til sérkennslu.

Menntmrh. hefur líka sagt að fræðslustjóri Norðurlands eystra gefi fjárlögunum langt nef og slíkan mann vilji hann ekki hafa í sinni þjónustu. Í því sambandi má að vísu segja að fræðslustjórinn er ekki einn um það að gefa fjárlögunum langt nef, eins og hæstv. menntmrh. orðaði það í blöðum nýlega. Ég hygg að benda megi á margar ríkisstofnanir, ráðuneyti og jafnvel fræðsluumdæmi sem hafa ekki átt annars úrkosta en að fara fram úr þröngum ramma fjárlaga, að ekki sé talað um ríkisstjórnir sem vissulega gefa fjárlögunum árlega langt nef með stórfelldum aukafjárveitingum sem hafa skipt, ekki hundruðum milljóna, heldur milljörðum.

Ég veit ekki nema eitthvað sé til í því sem hæstv. menntmrh. vitnaði til í greinargerð Sturlu Kristjánssonar hér áðan þar sem Sturla heldur því fram að fjárlögin séu vitlaus. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en til síðasta árs þar sem fjárlög voru afgreidd með 163 millj. kr. rekstrarafgangi en þegar upp er staðið í árslok þá er yfir tveggja milljarða kr. halli. Þetta segir okkur skýrt að eitthvað getur verið til í því sem Sturla Kristjánsson hefur haldið fram, að fjárlögin séu vitlaus.

Ef það er meginástæðan fyrir brottrekstri fræðslustjórans að hann hafi farið fram úr fjárlögum þá hygg ég að ýmsir aðrir embættismenn ættu allt eins að fá slíka sendingu frá stjórnvöldum. Ráðherrarnir ættu líka að líta sér nær, til að mynda menntmrh., sem þurfti aukafjárveitingu til að reka sitt ráðuneyti vegna greiðsluerfiðleika, auk þess sem ráðherrann, sem gjarnan vill beita niðurskurðarhnífnum, þarf miklu meiri hækkun milli ára til síns ráðuneytis en ætlað er bæði til fræðslumála almennt og til grunnskólanna.

Það má líka líta á þessa brottvikningu í öðru samhengi. Það er spurningin um ábyrgð í þessu þjóðfélagi. Hverjir eiga að bera ábyrgð á gjörðum sínum í þjóðfélaginu og hverjir ekki? Hér hefur komið upp hvert stórmálið á fætur öðru þar sem enginn virðist bera ábyrgð. Ég nefni okurmálið, ég nefni Hafskips- og Útvegsbankamálið. Þar vísar hver á annan og enginn ber ábyrgð, engum þarf að vísa úr starfi þó stórfelldir fjármunir hafi tapast vegna vanrækslu og eftirlitsleysis þar sem menn hafa ekki staðið við sínar skyldur. Herkostnaðinn af þessu ábyrgðarleysi, t.d. í Útvegsbankamálinu, þarf síðan almenningur að bera en þeir sem báru ábyrgðina virðast sitja sem fastast og hvorki fá áminningu eða bréf um brottvikningu frá ráðherra. Sumir eru líka verðlaunaðir, eins og bankaráð Útvegsbanka Íslands sem var allt endurkosið nema fulltrúar Alþfl. í bankaráðinu, og í okurmálinu hefur okur orðið löglegt vegna klúðurs í kerfinu þar sem hver vísar á annan og enginn ber ábyrgð. Niðurstaðan er sú að okrarar, sem grætt hafa oft á neyð fólksins, hafa frítt spil. Þar virðast hvorki embættismenn né stjórnvöld bera ábyrgð.

Það er því allsérkennileg staða í þessu ábyrgðarlausa þjóðfélagi að fræðslustjóri Norðurlands eystra sé rekinn fyrirvaralaust úr starfi að því er virðist fyrir þá sök að reyna að halda uppi eðlilegri kennslu í fræðsluumdæminu og fyrir það að gagnrýna og vekja á því athygli að fræðsluumdæmið sitji ekki við sama borð að því er til að mynda sérkennslu varðar. Þetta er ekki bara prívatskoðun fræðslustjórans, heldur hafa skólastjórar og yfirkennarar í Norðurlandi eystra ályktað í þessu máli. Skólamenn sendu frá sér greinargerð til alþingismanna Norðurlandsumdæmis eystra um stöðu mála varðandi sérkennslu. Ég hygg að hér sé um sömu skýrslu að ræða og menntmrh. hefur vitnað til þegar hann talar um trúnaðarbrot Sturlu Kristjánssonar. Það er heldur sérkennilegt ef það er flokkað undir trúnaðarbrot að skólamenn fyrir norðan geri þingmönnum kjördæmisins, og á opinberum vettvangi, grein fyrir stöðu sérkennslumála í kjördæmi sínu.

Fræðslustjórar eiga samkvæmt ákvæðum sérkennslureglugerðar að gera tillögur um meginskipulag sérkennslu í umdæmi sínu og leggja þær fyrir fræðsluráð. Ef stefna ráðuneytisins gengur gegn ákvæðum reglugerðar um sérkennslu og ekki er hægt að halda uppi eðlilegri og nauðsynlegri sérkennslu í fræðsluumdæmum, þá tel ég það skyldu fræðslustjórans að vekja athygli á því. Það er skylda fræðslustjórans til að mynda gagnvart þeim foreldrum og börnum þeirra, sem ekki fá fullnægjandi sérkennslu, að greina frá því hvers vegna til að mynda ekki sé jafnræði til náms milli þeirra barna sem þurfa á sérkennslu að halda eða stuðningskennslu og annarra barna. Hitt var að mínu viti ekki síður nauðsynlegt að gera grein fyrir því á opinberum vettvangi ef sú er raunin að sérkennslumagni sé misskipt eftir fræðsluumdæmum. Það verður auðvitað að virða fræðslustjóranum það til betri vegar að hann vilji ekki liggja undir þeirri sök í sínu kjördæmi að hann sem fræðslustjóri beri ekki ábyrgð á því að hægt sé að halda uppi viðunandi sérkennslu. Að telja slíkt trúnaðarbrot við ráðherrann tel ég fjarstæðu. Þvert á móti er það skylda skólamanna í hvaða kjördæmi sem er að upplýsa fólk um stöðu skólamála og framkvæmd þeirra, ekki síst þegar ekki er hægt að halda uppi eðlilegri kennslu í fræðsluumdæminu.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna orðrétt í þessa skýrslu skólamanna fyrir norðan þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Við sem störfum að skólamálum hér um slóðir getum ekki unað því til lengdar að ráðuneyti menntamála í landinu mismuni svæðum og byggðarlögum eins og okkur virðist raunin.“

Ég vil, herra forseti, gera þessari fullyrðingu nokkur skil en í umræðunum undanfarna daga hefur nokkuð verið vitnað til fræðsluumdæmis Austurlands og Reykjavíkur þegar skólamenn í Norðurlandi eystra telja sig afskipta í sérkennslumálum. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef hafa þeir nokkuð til síns máls eins og ég skal nú greina frá.

Samkvæmt upplýsingum Fjárlaga- og hagsýslustofnunar er áætlað að verja til sérkennslu á fjárlögum 1987 80 millj. kr. á verðlagi í des. s.l. og 72 millj. til stuðningskennslu. Hlutfallsleg skipting fjármagnsins til sérkennslu innan almenna grunnskólans milli fræðsluumdæma er þessi:

Reykjavík 44%, Reykjanes 11,6%, Vesturland 10,5%, Vestfirðir 3,3%, Norðurland vestra 9,1%, Norðurland eystra 9,1%, Austurland 6,2% og Suðurland 11,2%.

Ég aflaði mér upplýsinga um fjölda barna í Reykjavík, á Norðurlandi eystra og á Austurlandi sem njóta sérkennslu innan almenna grunnskólans. Miðað við skiptingu fjármagns milli þessara fræðsluumdæma og fjölda barna sem njóta sérkennslu innan almenna grunnskólans kemur eftirfarandi í ljós fyrir þetta skólaár. Fjármagn, sem veitt er á hvern nemanda innan almenna grunnskólans vegna sérkennslu í þessum kjördæmum, er eftirfarandi:

Í Reykjavík 95 000 kr. á hvern nemanda vegna sérkennslu innan almenna grunnskólans, á Austurlandi 90 000 á hvern nemanda og á Norðurlandi eystra rúmlega 69 000 kr. Mismunurinn á Reykjavík og Norðurlandi eystra er um 25 000 á hvern nemanda samkvæmt fjárlögum vegna sérkennslu innan grunnskólans. Það virðist því svo vera, ef þessar tölur eru lagðar til grundvallar, að nálægt 3 millj. kr. vanti til fræðsluumdæmis Norðurlands eystra til að það hafi hlutfallslega sama fjármagn til ráðstöfunar til sérkennslu innan grunnskólans og Reykjavík og Austurland. Því er líka við að bæta að að því er Reykjavík varðar tel ég að þarna sé í raun og veru um enn meiri mun að ræða milli Reykjavíkur og Norðurlands eystra vegna staðsetningar sérskólanna hér á Reykjavíkursvæðinu. Svo ég nefni Öskjuhlíðarskóla sem dæmi, þá liggur fyrir að 63 af 119 nemendum Öskjuhlíðarskóla á skólaárinu 1985 voru úr Reykjavík. Þær tölur sem ég nefndi um kostnað pr. nemanda vegna sérkennslu innan almenna grunnskólans eru auðvitað fyrir utan það sem rennur til sérkennslunnar á vegum Öskjuhlíðarskólans. Ljóst má vera að Öskjuhlíðarskólinn léttir mjög á sérkennsluþörf innan almenna grunnskólans í Reykjavík og hef ég þar fyrir mér orð ýmissa skólamanna sem telja að hluti nemenda sem nú eru í Öskjuhlíðarskóla gæti nýtt sér sérkennslu innan almenna grunnskólans. Þannig að þegar til viðbótar kemur að stór hluti nemenda í Öskjuhlíðarskóla er af Reykjavíkursvæðinu og til þess skólastarfs rennur sérstakt fjármagn, utan þess fjármagns sem skipt er til sérkennslu innan almenna grunnskólans á landinu öllu, þá er hér í raun og sannleik um meiri mismun að ræða pr. sérkennslunemanda í Reykjavík og á Norðurlandi eystra en þær 25 000 kr. á hvern nemanda sem fram kemur í samanburði um hlutfallslega skiptingu fjármagns vegna sérkennslu innan almenna grunnskólans.

Ég tel því að skólamenn á Norðurlandi eystra hafi nokkuð til síns máls þegar þeir tala um misskiptingu á fjármagni til sérkennslu innan fræðsluumdæmanna og þarf enginn að lá þeim það þó þeir þegi ekki þegar svo er í pottinn búið. Nógu erfitt er samt að framkvæma sérkennsluna samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða sem Alþingi hefur samþykkt þó ekki bætist við að fræðsluumdæmum sé mismunað án nokkurra eðlilegra eða haldbærra skýringa.

Ég tel því að hvergi hafi verið nægileg tilefni til brottrekstrar fræðslustjórans í Norðurlandi eystra, hvorki að því er varðar ásakanir um trúnaðarbrot eða að hann virðist ekki halda sig innan fjárlagarammans, enda gætir þar mikils tvískinnungs hjá menntmrh. eins og ég hef áður lýst og eru þar fleiri undir sömu sök seldir þó þeir fái ekki reisupassann af þeim sökum.

Herra forseti. Þetta mál allt leiðir líka hugann að því gífurlega misrétti sem nú ríkir milli landshluta, t.d. í menntunarmálum sem hér eru til umræðu. Víða á landsbyggðinni er ekki hægt að framfylgja settum lögum um kennslu barna og unglinga og hefur þetta m.a. bitnað harkalega á sérkennslunni eins og ég hef lýst. Það er ljóst að ekki verður lengur unað við það stórfellda misrétti sem nemendur á landsbyggðinni þurfa að þola. Ef betur er að gáð kemur í ljós að þetta misrétti á sér einnig stað í margvíslegri opinberri þjónustu, starfsemi lána- og bankastofnana, atvinnu- og launamálum og heilbrigðismálum svo dæmi séu nefnd.

Það er mikilvægara en flest annað að snúa þessari öfugþróun við og færa sveitarfélögunum meira vald í eigin málum, tryggja meiri jöfnuð í þjónustu velferðarkerfisins og lífvænlegri afkomu fólks í hinum dreifðu byggðum. Hin svokallaða byggðastefna hefur brugðist og verður nú að taka af harðfylgi á byggðamálunum í heild ef búseta í landinu á ekki að raskast meir en raun hefur á orðið.

Að lokum þetta, herra forseti. Ég tel, miðað við málavexti alla og þær upplýsingar sem fram hafa komið, að menntmrh. beri skylda til að afturkalla uppsögn fræðslustjórans í Norðurlandi eystra og einsýnt að friður kemst ekki á skólahaldið fyrir norðan nema að svo verði gert, sem og að sérkennslumálin verði öll tekin til rækilegrar endurskoðunar.

Í því sambandi hefur þingflokkur Alþfl. lagt fram á Alþingi í dag beiðni um skýrslu frá menntmrh. um framkvæmd reglugerðar um sérkennslu þar sem ítarlega er farið ofan í alla framkvæmd reglugerðarinnar frá 1977, bæði að því er varðar kennslumagnið, sem sérstaklega hefur verið nú til umræðu, og ýmsa aðra mikilvæga þætti sérkennslumála því það er mikilvægt að svo verði haldið á málum í framtíðinni að gott skipulag komist á sérkennslumálin í landinu öllu. Það er óviðunandi með öllu að ekki verði sú niðurstaða í þessu máli að betra og eðlilegra skipulag komist á sérkennslumálin í landinu. Ég tel að brýnt sé orðið að tafarlaus endurskoðun fari fram á þeirri reglugerð sem í gildi er og orðin er úrelt og ekki í samræmi við breytt viðhorf sem uppi eru í sérkennslumálum.