27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2540 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

219. mál, rekstur jarðskjálftamæla á Suðurlandi

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrri tölulið spurningarinnar vil ég taka þetta fram: Fulltrúi jarðvísindamanna, sem standa að þessu verkefni, fór þess á leit við fjmrn. að íslensk stjórnvöld gæfu vilyrði fyrir því að rekstrarkostnaður jarðskjálftamælanna yrði greiddur af íslenska ríkinu svo framarlega sem styrkur fengist frá Norðurlandaráði til að koma þeim upp. Að höfðu samráði við samgrn. var fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnun falið að rita bréf til fulltrúa vísindamannanna þar sem greint er frá jákvæðri afstöðu stjórnvalda til verkefnisins og að ríkissjóður muni greiða rekstrarkostnað jarðskjálftamælanna ef til kemur í samræmi við það sem ákveðið verður í fjárlögum ár hvert. Þess má svo geta að við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1987 var samþykkt að heimila 500 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni á þessu ári.

Varðandi 2. tölul. fsp. vil ég, með leyfi forseta, vitna í minnisblað frá fulltrúa vísindamanna þar sem segir um verkefnið sem svar við 2. tölul. fsp.:

„Það gagnasöfnunarnet og úrvinnslukerfi vegna jarðskjálfta sem jarðskjálftafræðingar á Norðurlöndum sækja nú um fjármagn til frá norrænu ráðherranefndinni á að hafa eftirfarandi eiginleika:

Að mæla nákvæmlega og safna gögnum um jarðskjálfta á Suðurlandi, m.a. um mjög smáar hræringar sem þarna eru algengar eins og víða annars staðar þótt almenningur verði þeirra ekki var.

Að vinna úr þessum mælingum nánast samstundis upplýsingar sem varða spennuástand svæðisins.

Að vera um leið söfnunar- og úrvinnslumiðstöð fyrir ýmsar aðrar jarðeðlismælingar sem koma að gagni í þessu sambandi.

Að mynda gagnabanka sem nýjar mælingar og hræringar eru samstundis bornar saman við til að uppgötva fljótt breytingar á ástandi.

Verði þetta mæla- og gagnanet þannig að veruleika skapast tækifæri til að safna og vinna úr gögnum í þeim mæli sem útilokað væri með núverandi aðferðum. Um leið er hraði úrvinnslunnar í þessu kerfi svo mikill að hann nægir fyrir jarðskjálftaspár þegar þekkingin verður orðin slík að jarðskjálftaspár verða mögulegar.

Flestir jarðskjálftafræðingar telja að það muni verða kleift að gefa út gagnlegar jarðskjálftaspár. Hins vegar er ekki ljóst hversu lengi við verðum að bíða þess. Það getur verið mjög mismunandi eftir jarðskjálftasvæðum, m.a. vegna mismunandi eiginleika jarðskorpunnar en ekki síður vegna mismikillar gagnasöfnunar sem fram hefur farið.

Það er ekki nokkur vafi á því að fyrirhugað jarðskjálftanet á Suðurlandi og samstarfið við önnur Norðurlönd um það mun leiða til gífurlega aukinnar þekkingar og skilnings á eðli þessa jarðskjálftasvæðis til gagns fyrir þá sem þar búa og fyrir þá sem búa á öðrum jarðskjálftasvæðum á Íslandi og reyndar um allan heim.

Varðandi beint forvarnargildi er það alls ekki útilokað að þetta kerfi getið komið að gagni til viðvörunar strax þegar uppbyggingu þess er lokið og rekstur þess er kominn í fullan gang.