29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2627 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það talaði áðan einn af leiðtogum jafnaðarmanna á Norðurlöndum. Hann er sá eini í norrænum jafnaðarmannaflokkum sem fylgir afstöðu hinna hörðu hauka í Washington í þessu máli. Ég hef undir höndum bréf frá Anker Jörgensen, formanni jafnaðarmannaflokksins í Danmörku, frá Ingvar Carlsson forsrh. Svía, formanni jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð, og Gro Harlem Brundtland í Noregi þar sem þau öll lýsa því yfir að þau telji sjálfsagðan hlut að setja niður norræna embættismannanefnd til að fjalla um þessi mál og lýsa sig jákvæð gagnvart því á þeim fundi utanríkisráðherra Norðurlanda sem haldinn verður hér eftir nokkrar vikur.

Formaður Alþfl. á Íslandi, ef ég skildi hann rétt, er hins vegar á móti því að svona nefnd verði til og segir jafnframt í ræðu sinni, ef ég skildi hann rétt, að afstaða hans væri sú að það ætti ekki að taka þátt í umræðum um þetta mál í þingmannanefnd fyrr en samráð hefði farið fram um málið innan Atlantshafsbandalagsins og meðal þeirra þriggja Norðurlanda sem eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ég vil þá spyrja hann í framhaldi af þessari yfirlýsingu hans áðan: Ber að skilja ræðu hans svo að Alþfl. hafi tekið um það ákvörðun að draga sinn fulltrúa út úr þingmannanefndinni sem fjallar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd? Það væru mikil tíðindi og ill, en það er nauðsynlegt að fá skýr svör við þessari spurningu.

Varðandi það mál sem hann nefndi sérstaklega í ræðu sinni, sem var samráð þeirra ríkja sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu við Atlantshafsbandalagið, er rétt að það komi fram með skýrum hætti úr þessum ræðustól að í umræðum innan norrænu þingmannanefndarinnar, sem er undir forustu Ankers Jörgensen, hefur alltaf verið gengið út frá því að þeir sem þar eru og eiga aðgang t.d. að Þingmannasambandi Atlantshafsbandalagsins geri grein fyrir þróun þessa máls og umræðum um það innan þingmannanefndarinnar. Auðvitað hlýtur málið að liggja þannig miðað við þann veruleika sem við búum við í þessum efnum. Það er þess vegna að mínu mati ekkert annað en tilraun til útúrsnúnings þegar farið er að reyna að fabrikkera skilyrði eins og það sem hv. 5. þm. Reykv. flutti áðan.

Það er auðvitað ekkert annað en ómerkilegur rógur um þessar tillögur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum þegar talað er um það, eins og í grg. Alþfl., að hér eigi að vera um að ræða svæði sem byggist aðeins á sovéskum tryggingum. Auðvitað getur slíkt ekki komið til greina. Auðvitað verður hér að vera um mikið víðtækari tryggingar að ræða um leið og ákvörðun er tekin um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Það hefur alltaf verið gengið út frá því í umræðum um þetta mál að um það verði rætt við stórveldin og ríkisstjórnir aðliggjandi ríkja, t.d. Vestur-Þýskalands svo að dæmi sé nefnt, og ríki sem hafa yfir að ráða kjarnorkuvopnum yfirleitt. Þess vegna er það ekkert annað en tilraun til að gera hugmyndinni ógagn að setja málið þannig upp að t.d. forustumenn jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum séu að flytja þetta mál á þeim forsendum að það byggist aðeins á sovéskum tryggingum. Þannig hefur málið aldrei verið sett upp og verður auðvitað ekki sett upp.

En hið hættulega, herra forseti, við þá afstöðu sem kemur fram hjá formanni Alþfl. á Íslandi er að hann er í rauninni að segja: Ísland á að skilja sig frá hinum Norðurlöndunum strax meðan málið er á umræðustigi. Hann telur að vísu koma til greina að uppfylltum vissum skilyrðum að Íslendingar séu með í þingmannanefndinni, en hann telur ekki að Íslendingar eigi að vera aðilar að embættismannanefndinni. Það tel ég mjög alvarlegt. Ekki vegna þess að ég telji að embættismennirnir geti tekið í rauninni neinar ákvarðanir, pólitískar ákvarðanir hljóta að ráða hér úrslitum, heldur vegna þess að embættismennirnir vinna á vegum utanríkisráðherranna og geta sem slíkir komið upplýsingum á framfæri við ríkisstjórnir sínar og sem slíkir m.a. komið upplýsingum um þetta mál á framfæri við Atlantshafsbandalagið þar sem það á við þegar um er að ræða þrjú ríki sem eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að ef hæstv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen ákveður að hafna þátttöku í embættismannanefndinni með stuðningi í þingmeirihluta Alþfl. og Sjálfstfl. hér á Alþingi Íslendinga er verið að taka ákvörðun um að Íslendingar verði ekki með í þessum umræðum áfram, þá er verið að taka ákvörðun um að þrýstingurinn á Ísland til að taka við kjarnorkuvopnum á einhverju stigi verði meiri en nokkru sinni fyrr. Og það er hrikalegur ábyrgðarhluti að mínu mati ef formaður Alþfl. beitir hinum nýja meiri hluta krata og íhalds hér í þinginu til að taka jafnafdrifaríkar ákvarðanir. Það er hrikaleg staðreynd ef svo fer.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að fá skýrt fram hver er afstaða formanns Alþfl. í þessum efnum,vegna þess að hún var ekki nægilega skýr áðan. Ég spyr hvort mín túlkun á henni er rétt, hvort hann er þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi ekki að taka þátt í embættismannanefndinni og að þessari till. eigi að hafna. Og þá vil ég segja við þennan meiri hluta íhaldsins og krata í þinginu: Þá skuluð þið manna ykkur upp í að afgreiða þessa till. Þá skuluð þið sýna hvað í ykkur býr, hver er ykkar raunverulega afstaða, en ekki reyna að skríða með málið í bakherbergjum og beita þingsköpum til að koma í veg fyrir að það fáist afgreitt á Alþingi eins og þið hafið aftur og aftur gert. Þá skuluð þið sýna hver ykkar raunverulega afstaða er. Og þá er rétt að láta ganga atkvæði um málið þannig að menn skríði út úr holunum og sýni hver afstaða þeirra er í þessum efnum.

Herra forseti. Það er rétt í þessu sambandi einnig að benda á það að eins og hv. 3. landsk. þm. sagði áðan er meiri hluti fyrir kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum í öllum þjóðþingunum eins og sakir standa og meiri hluti er fyrir þessari pólitísku stefnu líka á þingum Færeyja og Grænlands. Á fundi vestnorræna þingmannaráðsins, sem haldinn var á Íslandi á s.l. ári, var samþykkt með öllum atkvæðum gegn tveimur að skora á stjórnir þessara landa að vinna markvisst að framkvæmd hugmyndarinnar um kjarnorkuvopnálaus Norðurlönd.

Ég hefði viljað beina því til Alþingis Íslendinga á þessu stigi málsins að allir flokkar taki þátt í athugun og undirbúningi málsins, að utanrrh. fallist á að skipuð verði hin norræna embættismannanefnd og að pólitískar ákvarðanir um hvort leiðir þurfa að skilja verði ekki teknar á undirbúningsstigi málsins. Ég tel að sú afstaða sé líka í mikið betra samræmi við það sem fram hefur komið af hálfu Íslands á undanförnum misserum. Í því sambandi vil ég minna á ræður sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og hv. þm. Ólafur G. Einarsson fluttu á þingmannaráðstefnu um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum misserum. Þeir höfðu fyrirvara í málinu og héldu þeim til haga í ræðum sínum en sögðu sem svo: Íslendingar eiga auðvitað að fylgjast með málinu, skoða það á hverju þrepi á undirbúningsstigi, engu að slá frá sér á þessu stigi málsins. Það er ekki skynsamlegt.

Ég tel að það væri mikið affarasælla að við fylgdum þeirri stefnu sem allir þingflokkarnir urðu sammála um að fylgja í þessu máli í tengslum við þingmannaráðstefnuna í Kaupmannahöfn þar sem þessir þrír hv. þm. héldu þær ræður sem ég var að nefna.

Ég vil einnig, herra forseti, í framhaldi af ræðu hæstv. utanrrh. fara fram á að hann kveði skýrar að um sína afstöðu til skipunar embættismannanefndar. Ætlar hann að fylgja Alþýðuflokksformanninum í þessu máli og vera á móti skipun embættismannanefndar eða ætlar hann að fallast á tillöguna um skipun embættismannanefndar? Hann svaraði þessu ekki áðan og gerði ekki grein fyrir afstöðu sinni þannig að skýrt væri og til þess að honum detti ekki í hug að hann yrði þar með í þeirri rauðu sveit sem hættulegust er talin um þessar mundir einsamall vil ég leyfa mér að benda honum á bréf sem Poul Schlüter forsætisráðherra Danmerkur skrifaði Anker Jörgensen 18. sept. 1986 þar sem Poul Schlüter segir:

„Ríkisstjórnin mun áfram vinna að því að embættismannanefnd verði sett á laggirnar og m.a. greina utanríkisráðuneyti þjóðþings Danmerkur frá því sem gerist í þessu máli.“

Forsætisráðherrar allra Norðurlandanna hafa tekið undir að það sé nauðsynlegt að skipa þessa nefnd og þess vegna skora ég á hæstv. utanrrh. að standa að því að þessi till. verði samþykkt þrátt fyrir þá afstöðu sem formaður Alþfl. virtist hafa hér áðan.

Ég held, herra forseti, að það sé rétt í tilefni af þessu máli að inna jafnframt hæstv. utanrrh. eftir því: Hvenær kemur skýrsla um utanríkismál til umræðu á yfirstandandi þingi? Það munu ekki vera mjög margar vikur eftir af störfum þingsins ef að líkum lætur. Það er mjög nauðsynlegt að umræður um skýrsluna um utanríkismál fái hér góðan tíma og betri en verið hefur á þingunum mörg undanfarin ár. Ég tel að miðað við þá afstöðu sem áður hefur verið tekin í sambandi við kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum ættu allir flokkarnir í þinginu að geta samþykkt þá till. sem hv. 3. landsk. þm. mælti fyrir áðan. Og ég vona að hæstv. utanrrh. og hv. 5. þm. Reykv. sjái við umhugsun að einnig þeir eiga að geta fallist á hana, en ef þeir eru á móti henni er best að þeir komi til dyranna eins og þeir eru klæddir og sýni afstöðu sína með því að beita hinum nýfengna viðreisnarmeirihluta í þinginu.