29.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

138. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Gátan snýst um grundvöllinn, sagði hæstv. utanrrh., og ég sat og hugleiddi það.

Gátan snýst um grundvöllinn,

gerir málin flókin.

Veit hún samt á vígvöllinn,

vond er þrætubókin.

Þessi ótrúlega varkárni manna í umræðunni um utanríkismál væri betur komin víðar. Það undrar mig í raun hve þessi samþykkt um stefnu Íslendinga í varnarmálum, sem öllum var velkomin á sínum tíma, er að verða einn versti þröskuldur fyrir jákvæðum aðgerðum í utanríkismálum vegna þess ágreinings um túlkun efnis hennar sem orðinn er uppi. Mig undrar þessi skortur á hugrekki eða hugleysi í umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Mér finnst eins og mennirnir segi líkt og þeir myndu segja ef þeir bæðu sér konu: Ég skal biðja þín ef þú segir já. Maður gengur ekki inn í umræðu upp á þau býti að maður fái allt sem maður vill út úr henni. Maður hlýtur að ganga inn í umræðu með opinn huga og jafnframt möguleika á því að fá eins mikið og maður getur fengið, en ekki að maður fái allt fyrir fram. Og ég verð að segja það hreint út: Ég skil ekki hve miklir hræðslupúkar blessaðir þingmennirnir eru. Hv. 5. þm. Reykv. sagði að embættismennirnir væru sauðmeinlausir. Við hvað eru þeir hræddir? Hvers vegna eru þeir hræddir við að taka þátt í þessari umræðu? Eða eru þeir kannske ekkert hræddir? Er það kannske fyrst og fremst spurning um þægð við einhverja aðra hagsmuni en okkar Íslendinga?

Síðan sagði hæstv. utanrrh. að ég hefði beðið hann að taka ekki afstöðu á fundinum í Stokkhólmi. Ég held að hann viti ósköp vel af því sem áður kom fram í umræðum í utanrmn. og líka hér í ræðustól, þó ég muni ekki glöggt orð mín, að það var spurning um að taka ekki afstöðu gegn skipun nefndarinnar. Það var um það sem hann var beðinn en ekki að hann tæki ekki afstöðu.

Síðan var umræða um mótun verksviðs og ráðherra kvartaði yfir því að þessi mótun verksviðs væri ekki nægilega skýr og þess vegna gæti hann ekki stutt skipun nefndarinnar. Og þá vil ég spyrja hann hvort það sé rétt sem stendur í Morgunblaðinu í gær. Þar er vitnað í grein í Aftenposten og ég ætla að fá að lesa upp úr þessari frétt sem er í Morgunblaðinu, með leyfi forseta. Þar stendur:

„Blaðamaður Aftenposten segir að það hafi komið í ljós á fundi forstöðumanna pólitísku deilda utanríkisráðuneytanna fyrir skömmu, sem Ólafur Egilsson sendiherra sat fyrir Íslands hönd, að Íslendingar teldu ekki enn neina þörf á sameiginlegri úttekt. Þetta mál væri ætíð ofarlega á dagskrá, m.a. á norrænum utanríkisráðherrafundum. Þá hefði orðið víðtæk samstaða um það á Alþingi vorið 1985 að kjarnorkuvopnalausa svæðið ætti ekki að miðast við Norðurlönd ein heldur svæðið frá Grænlandi að Úralfjöllum. Jafnframt hafi fulltrúi Íslands bent á að þingkosningar stæðu fyrir dyrum hér á landi og við þær aðstæður væri þess ekki að vænta að utanrrh. og ríkisstjórnin vildu stíga afdrifarík skref að því er varðar stefnumótun í utanríkismálum.“

Ég spyr hæstv. ráðh.: Er þetta rétt, að Ólafur Egilsson sendiherra, sem sat þennan fund fyrir Íslands hönd, hafi viðhaft þessi ummæli og þá væntanlega í umboði ráðherra? Ég get ekki séð hvaða stefnubreytingu er hér um að ræða ef þetta er rétt.

Síðan talaði hæstv. ráðh. um Norður-Evrópu sem svo margir hafa lýst hér og það víðtæka landsvæði sem þar er um að ræða. Því í ósköpunum ekki allan heiminn í fyrsta skrefi fyrst ráðherrann er svo stórtækur? Ég held þó að hann hljóti að hafa það mikla reynslu af stjórnmálum að hann veit að langflest ef ekki öll mál vinnast í áföngum. Þau vinnast í skrefum. Einhvern tíma verður að byrja og einhver verður að taka fyrsta skrefið. Og við Íslendingar höfum sjálfstæði og við höfum alla okkar sögu á bak við okkur til þess að verða meðal þeirra sem taka fyrsta skrefið.

Hv. 2. þm. Reykn. tók undir það sem aðrir hafa hér margtuggið, þ.e. umræðuna um einhliða yfirlýsingu. Og þá vil ég spyrja: Höfum við Íslendingar ekki lýst einhliða yfir því að Ísland sé og eigi að vera kjarnorkuvopnalaust svæði? Höfum við ekki gefið einhliða yfirlýsingu í þessum efnum? Þarna ríkir engin gagnkvæmni við neitt land, við neina þjóð. Þarna er fyrst og fremst um að ræða einhliða yfirlýsingu af hálfu Íslands um að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Þarna er mikið hugrekki. Hvers vegna getum við ekki tekið það út fyrir landsteinana og rabbað við aðrar þjóðir Norðurlanda sem hafa tekið svipaðar ákvarðanir fyrir sinn hag?

Síðan ætlaði ég að minnast örfáum orðum á ummæli hv. 5. þm. Reykv. Ég er ánægð með það sem hann sagði að hann ætlar ekki að beita sér fyrir því að fulltrúi Alþfl. í þessari þingmannanefnd hverfi úr nefndinni. Mér finnst það lýsa hugaðri afstöðu miðað við afstöðu sjálfstæðismanna að þeir skuli treysta sér, Alþýðuflokksmennirnir, að eiga fulltrúa í þessari nefnd og hlusta á umræður annarra. Mér finnst það bara ágætt og ég vona að það ástand endist sem lengst. Hins vegar minntist hann á að stefna hinna Norðurlandanna eða allra Norðurlanda í öryggismálum væri ólík og þess vegna væri ekki um það að ræða að Íslendingar væru að skilja sig frá Norðurlöndunum vegna þess að stefnan væri þegar ólík. En það sem um er að ræða er að skilja sig frá þeirri umræðu sem hér er til umfjöllunar, þ.e. umræðunni um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndunum.

Hann minntist líka á að skyldur fylgdu því að vera í varnarbandalagi. En löndin sem eru í varnarbandalagi hafa lýst því yfir að þau vilji vera kjarnorkuvopnalaus. Samt hafa þau ekki verið rekin úr Atlantshafsbandalaginu fyrir þá ótrúlegu dirfsku að leyfa sér að lýsa því sjálfstætt yfir að þau vilji ekki hafa kjarnorkuvopn í landinu sínu. Þau hafa ekki verið rekin úr Atlantshafsbandalaginu, hvorki Danmörk né Ísland. Þau eru þar enn. Og því skyldu þau ekki geta hitt grannþjóðir sínar og rabbað um málið? Mér er það óskiljanlegt. Hvernig getur það stangast á við veru þeirra í Atlantshafsbandalaginu?

Síðan kom hann að því, hv. þm., að varnir Vestur-Evrópu byggjast á hótun um beitingu kjarnorkuvopna. Á þá að ganga yfir þessar yfirlýsingar Íslendinga? Þýðir þetta að það á að ganga yfir yfirlýsingu Íslendinga um að kjarnorkuvopn skuli ekki leyfð í landi okkar til þess að tryggja varnir Vestur-Evrópu? Þýðir hún það í raun og veru? Síðan byggir þessi röksemdafærsla á handónýtum forsendum. Það er engan hægt að verja með kjarnorkuvopnum. Ekki eina sál hvað þá líkama hennar. Áhrif slíkra vopna eru þau að það deyja ekki bara þeir sem verða fyrir vopnunum heldur hinir líka, af þeim kulda sem fylgir í kjölfar sprenginganna. Og hann þarf ekki einu sinni að vera fimbulkuldi. Aðeins nokkurra gráða hitalækkun er nægileg til að eyðileggja gróður og uppskeru, alla fæðu okkar þannig að við getum ekki lifað. Forsendurnar fyrir þessari rökleiðslu sem varnir Vestur-Evrópu byggjast á eru því gjörsamlega haldlausar. Þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Og ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Það að varnir Vestur-Evrópu byggjast á hótun um beitingu kjarnorkuvopna þýðir það jafnframt að ef þörf krefur muni verða sett upp kjarnorkuvopn á Íslandi þrátt fyrir yfirlýsingu okkar?

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um að Kvennalistinn væri ekki samferða Alþfl. í utanríkismálum. Hvað segir það um Kvennalistann? Ekki mikið. Alþfl. er ekki samferða jafnaðarmannaflokkum á Norðurlöndunum. Hv. formaður Alþfl. stingur meira í stúf við sína en Kvennalistinn.

Síðan sagði hann að varnarsamstarf vestrænna þjóða hefði stuðlað að friði undanfarna áratugi og taldi upp allar þær hörmulegu styrjaldir sem hafa verið háðar í öðrum heimshlutum. En þá langar mig að koma með aðra röksemdafærslu sem ég hafði hér yfir við umræður um frystingu kjarnorkuvopna. Hún fjallar um mexíkanska sólkónga á miðöldum sem stunduðu mannfórnir til að tryggja að sólin kæmi upp og þeir fórnuðu ákveðnum fjölda ungra manna í þeim tilgangi og sjá: Sólin kom upp! Og þeir héldu áfram að fórna til þess að vera alveg öruggir um að sólin kæmi upp því þeir trúðu því að sólin krefðist þess að þeir færðu fórnir. Og þeir sögðu hver við annan: Sjá, sólin kemur upp af því að við fórnum ungu mönnunum. Þetta er alveg jafngild röksemdafærsla.

Mér finnst hæstv. utanrrh. hafa gefið mér mjög loðin og lítil svör. Ef ég væri kennari í skóla og hann væri nemandi á prófi mundi ég ekki gefa honum hátt. Ég brýni hann til þess að svara skýrar og betur í þessu máli þannig að við vitum í raun hver afstaða hans er.