03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2685 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

224. mál, alnæmissjúklingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Gerð hefur verið spá um áhrif alnæmisfaraldurs á heilbrigðisþjónustuna fram til ársins 1990. Í þessari spá er stuðst við hugsanlegan fjölda alnæmissjúklinga frá október 1986. Í spánni er gert ráð fyrir að lífslíkur alnæmissjúklings á lokastigi séu 12-13 mánuðir, en meðallega hvers sjúklings á sjúkrahúsi séu 16 vikur, að þessi sjúkrahúsvist dreifist eftir ákveðnu munstri sem þykir sennilegt. Lágmarksspá í þessu sambandi er að samtals hafi greinst 40 alnæmissjúklingar í árslok 1989, meðalspá að 80 alnæmissjúklingar greinist á sama tíma og hámarksspá að þeir verði 160. Ef við miðum við meðalspá yrði heildarlegudagafjöldi um 9000 á þessu tímabili. Miðað við þessa meðalspá gætu greinst á þessu ári fimm nýir sjúklingar og þrír látist, á árinu 1988 greinst tíu nýir og fimm látist og á árinu 1989 tuttugu nýir og tíu látist.

Miðað við þessa spá yrðu síðari hluta ársins 1987 að jafnaði 1-2 sjúklingar á sjúkrahúsi, í lok ársins 1988 4-5 og í lok ársins 1989 5-7 að jafnaði á sjúkrahúsi síðari hluta ársins, 3-5 fyrri hluta ársins.

Það er ljóst af öllum þessum tölum að næstu þrjú ár þarf ekki að gera ráð fyrir slíkri fjölgun alnæmissjúklinga á sjúkrahúsum að nauðsynlegar séu neyðarráðstafanir til að koma upp sérstökum sjúkrahúsadeildum vegna þeirra. Sjúklingar með alnæmi vistast nú bæði á Borgarspítala og Landspítala. Það er gert ráð fyrir því að Borgarspítalinn verði valinn sem aðalvistunarstaður, þar er betri aðstaða til einangrunar, en einstök tilvik geti vistast í Landspítala. Vitanlega fer þetta m.a. eftir ýmsum kvillum sem alnæminu fylgja. Eingöngu er um að ræða vistun á sérstökum einbýlum þar sem allrar varúðar er hægt að gæta vegna starfsfólksins sem hjúkrar sjúklingnum. Vissulega skapa þessir sjúklingar mjög mikla vinnu hver fyrir sig, en ekki meiri vinnu þó en fjöldamargir aðrir sjúklingar sem á sjúkrahúsum dveljast. Það er því mat heilbrigðisstjórnarinnar að heilbrigðiskerfið og sjúkrahúskerfið íslenska geti nú þegar leyst þann vanda sem að steðjar í þessu efni og sem fyrirsjáanlegur er á allra næstu árum.

Það er rétt, sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði hér áðan, að ýmsar þessar aðgerðir, sem þó fara fram við það kerfi sem fyrir er, kalla á mikinn aukakostnað í vinnu og varúðarráðstöfunum vegna blóðsýna o.s.frv. Það er ekki tími til að fara nánar út í það hér, en ljóst er að við þessu verður að bregðast í sjúkrahúsarekstrinum á næstu árum. Það er þó mitt mat að ef það sýnir sig að þessi umrædda spá reynist röng gefist tími til að setja upp sérstaka deild á sjúkrahúsi fyrir alnæmissjúklinga. En eins og málið horfir nú við er ekki líklegt að þörf sé á slíkri sérstakri deild fyrr en kemur fram á miðjan næsta áratug eða í lok þess áratugs ef ekki hafa á þeim tíma komið fram nein lyf sem breyta gangi sjúkdómsins eða lækna hann.

Ég vil þó enda á því að leggja áherslu á að sú upplýsingaherferð sem er í gangi og aðgætni almennings sjálfs skiptir í raun og veru mestu máli í þessu sambandi því að árangurinn af því getur ráðið því hvort þessi spá, sem hér hefur verið getið um, stenst eða í henni verði miklu hærri tölur ef full aðgætni er ekki höfð. Þess vegna verður ekki um of lögð áhersla á þýðingu þess að menn bregðist vel við þátttöku í því efni.