03.02.1987
Sameinað þing: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2704 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

301. mál, heildarendurskoðun sóttvarnarlöggjafar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hennar og fagna því að nefndin skuli hafa verið skipuð því að verkefni hennar er brýnt og löngu tímabært, eins og áður kom fram.

Mig langaði til þess að spyrja ráðherra hvort starfslok nefndarinnar væru í raun áætluð, hvort nefndin hygðist t.d. taka mið af þeirri endurskoðun sem farið hefur fram annars staðar á Norðurlöndunum þar sem ýmissi löggjöf um þessa sjúkdóma hefur yfirleitt verið steypt saman í heildstæða löggjöf en var áður í mörgum sérlögum sem voru orðin gömul. En fyrst og fremst vildi ég spyrja ráðherra hvort það væri einhver áætlun um starfslok, hvort þetta væri nefnd sem ætti að starfa í eitt eða tvö ár eða skemur eða lengur en þann tíma.