03.02.1987
Sameinað þing: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

238. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál., sem er á þskj. 255, um framtíðarskipan kennaramenntunar. Hún er flutt af mér og fjórum öðrum þm. Alþb., hv. þm. Svavari Gestssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Skúla Alexanderssyni og Ragnari Arnalds. Efni tillögunnar er svofellt, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða inntak og skipan kennaramenntunar fyrir grunnskóla- og framhaldsskólastig.“

Virðulegur forseti. Ég mætti kannske nefna það að ef hæstv. menntmrh. væri í húsinu þætti mér vænt um að hann væri viðstaddur. (Forseti: Það skal athugað. Hann var hér rétt í þessari andrá.) (Gripið fram í: Hann er vís með að reka þig úr stólnum.) Já, hann getur reynt það.

„Í þessu skyni verði sett á fót nefnd á vegum menntmrn. með fulltrúum frá samtökum kennara og stofnunum sem annast kennaramenntun. Nefndin fjalli m.a. um

1. Hvernig best verði hagað innbyrðis tengslum menntastofnana fyrir kennara og framtíðaruppbyggingu þeirra, bæði til skemmri og lengri tíma.

2. Hvernig tryggð verði nauðsynleg endurnýjun og endurskoðun einstakra greina í kennaranámi.

3. Hvernig tengja megi nám í uppeldis- og kennslufræðum námi í væntanlegum kennslugreinum kennaraefna.

4. Hvaða leiðir séu vænlegastar til að tryggja endurmenntun og starfstengda framhaldsmenntun kennara og skólastjóra, svo og menntun annarra starfsmanna í skólakerfinu, og hvernig best verði séð fyrir þörfum landsbyggðarinnar í þessu tilliti.

5. Hvert eigi að vera hlutverk kennaramenntunar stofnana í skólaþróun og nýbreytni í starfi skólanna.

6. Hvernig bæta megi úr skorti á fræðilegum upplýsingum um þróun skólakerfisins og tengsl þess við samfélagið og hvernig tryggja megi nauðsynlegar rannsóknir á þessum efnum.

7. Hvaða breytingar er æskilegt að gera á gildandi lögum og reglugerðum til að ná þeim markmiðum sem nefndin gerir tillögur um.

Liður í störfum nefndarinnar verði að afla vitneskju um hvernig háttað er kennaramenntun erlendis, einkum í löndum OECD. Nefndinni verði séð fyrir starfsliði og starfsaðstöðu og við það miðað að hún skili áliti haustið 1988.

Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þetta er tillögutextinn, sem ég hef hér farið yfir, en í grg. er farið yfir núverandi skipan kennaramenntunar í landinu, einstakra þátta hennar, ýmis álitamál sem snerta þennan tillöguflutning og þau tilteknu efni sem till. gerir ráð fyrir. Þar er einnig að finna ábendingar um verkefni nefndarinnar í einstökum atriðum.

Þar sem hér er um stórt mál að ræða, sem stundum hefur verið rætt en þó með öðrum hætti hér á hv. Alþingi, vil ég fara yfir nokkur atriði sem fram koma í grg. með till. Ég tel þó ekki þörf á að rekja sérstaklega, en vísa þar til tillögunnar, hvernig núverandi skipan kennaramenntunar er háttað varðandi grunnmenntun, endurmenntun og framhaldsmenntun og annað sem varðar nám kennara, t.d. til BA-prófs í uppeldisfræði í Háskóla Íslands. Það er væntanlega öllum hv. alþm. ljóst hversu mikil sundurvirkni ríkir á þessu sviði og hversu mjög skortir á að þarna sé tekið á málum þannig að séð sé fyrir sem bestri menntun kennaraefna og þeir eigi greiðan aðgang að framhaldsmenntun og endurmenntun í sínum greinum.

Það hafa áður verið gerðar tilraunir til endurskoðunar laga varðandi kennaranám. Samkvæmt lögum um Kennaraháskóla Íslands frá árinu 1971 var kveðið svo á að efna skyldi til endurskoðunar á þeim að tveimur árum liðnum. Árið 1974 setti þáv. menntmrh. á fót nefnd til að sinna þessu verkefni. Frv. til nýrra laga um Kennaraháskólann var lagt fyrir 98. löggjafarþing 1976-1977 og í framhaldi af því var leitað umsagnar margra aðila. Þetta frv. var síðan lagt aftur fyrir Alþingi 1977-1978, en náði ekki að verða að lögum. Það hafa því verið gerðar atrennur að þessu máli og það hefur verið tekið á einstökum þáttum þessara mála, eins og varðandi Myndlistarháskóla Íslands, en frv. þar að lútandi var lagt fram á þinginu 1984-1985 en náði ekki fram að ganga. Þá skipaði núv. hæstv. menntmrh. nefnd til að endurskoða lög um Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni, en sú nefnd hefur mér vitanlega ekki lokið störfum.

Ég fagna því, hæstv. forseti, að menntmrh. er viðstaddur þessa umræðu sem svo mjög snertir hans starfssvið. Ég ætla þá að víkja að nokkrum álitamálum sem snerta einstök efni þessarar till.

Eins og fram kemur í þeirri lýsingu sem dregin er upp um skipan kennaramenntunar í landinu er ljóst að ekki er þar um neina heildstæða skipan að ræða. A.m.k. fimm stofnanir sem lítil tengsl hafa sín á milli sjá um menntun kennara á ólíkum stigum og sviðum. Þó má vera ljóst að á mikilvægum námssviðum hljóta kennarar ófullnægjandi undirbúning fyrir starf sitt, jafnvel þótt lög kunni að mæla fyrir um annað.

Að undanförnu hefur gagnrýni á skipan og afköst skólakerfisins og hlut kennara vaxið til muna. Ýmist draga menn í efa að kennarar geti sinnt hinu nýja uppeldishlutverki sem samfélagsbreytingar leggja þeim á herðar í sívaxandi mæli eða þá að þeir gagnrýna ónóga þekkingu kennara í kennslugreinum og telja að nám þeirra í uppeldis- og kennslufræðum og færni til starfs svari ekki kröfum um faglegan undirbúning kennara nú á tímum.

Það má vera augljóst að kennaramenntunin getur ekki svo sem eðlilegt er og nauðsynlegt væri bæði þjónað sameiginlegu hlutverki ólíkra námsstiga og námssviða og sinnt sérstökum markmiðum þeirra í samræmdu skólakerfi nema nokkurt samræmi sé í þeirri menntun sem kennaramenntunarstofnanir láta í té. Til þess að tryggja sameiginlega skipan kennaranámsins þarf að skilgreina námsmarkmið, inntak og námskröfur fyrir kennara á grunn- og framhaldsskólastigi, bæði í almennu vísindalegu námi og námi sem bundið er einstökum kennslugreinum. Það þarf að meta vægi og tengsl almennra og sérstæðra þátta í náminu með hliðsjón af kennslu á einstökum starfssviðum og þrepum skólans og jafnframt þarf að skipuleggja nám á sérsviðum með heildarskipan skólakerfisins og sameiginlegt hlutverk kennara að leiðarljósi.

Í ábendingum um verkefni þeirrar nefndar sem tillagan gerir ráð fyrir að menntmrn. skipi eru talin mörg viðfangsefni. Nefndinni verður því að sjálfsögðu ekki markaður þröngur rammi til starfa heldur verður hér fyrst og fremst minnt á fáein meginatriði og snerta þau öll þá gagnrýni sem íslenskt skólakerfi hefur með réttu eða röngu sætt á síðustu misserum.

Til þess að unnt sé að marka stefnu um framtíðarskipan kennaramenntunar er nauðsynlegt að fyrst sé tekist á við þessi álitamál. Þá er það í fyrsta lagi hlutverk kennarans. Í hinum öru samfélagsbreytingum síðustu áratuga hefur uppeldishlutverki heimilanna verið velt í síauknum mæli yfir á kennara og skóla og má í því sambandi minna á skýrslu menntmrn. um endurmat á störfum kennara frá árinu 1985. Í þessu sambandi má benda á einstaka uppeldisþætti eins og einbeitingu, almennan aga og máluppeldi. Einnig er ljóst að skólar þurfa í vaxandi mæli að einbeita sér að því að miðla menningararfi þjóðarinnar og vernda hann, en uppalendur á heimilunum önnuðust það hlutverk langt fram á þessa öld. Svo verður ekki nema tryggð sé víðtæk almenn menntun allra kennara auk sérmenntunar þeirra til starfs. Það er því nauðsynlegt að skilgreina hlutverk kennara og starfsundirbúning í ljósi þessara þátta.

Síðan er það spurningin um umfang og uppbyggingu náms í einstökum kennslugreinum. Allt sem það varðar orkar vissulega tvímælis, hvernig á að standa þar að málum. Jafnvel framhaldsskólakennari kennir sjaldan eina námsgrein, en undirbúningi hans í öðrum greinum en aðalgrein mun oft mjög ábótavant. Skipan og inntak náms og kennslu í greinunum hlýtur að taka mið af skipan náms og kennslu í skólunum jafnframt því sem leitað er þeirrar dýptar sem þekkingarmarkmið greinanna sjálfra mæla fyrir um. Inntak og lengd kennaranáms verða því ekki skilgreind án þess að höfð sé hliðsjón af þessu tvíþætta markmiði.

Þá nefni ég tengsl kennslufræða og einstakra kennslugreina. Það er eitt helsta ágreiningsmál í umræðum um kennaramenntun hvernig haga skuli tengslum kennslufræða við einstakar námsgreinar og aðrar menntagreinar kennaraefna. Engri heildarskipan verður komið á inntak kennaranámsins án þess að leitað sé fullnægjandi lausnar á þessu flókna og umdeilda vandamáli, en slík lausn skiptir sköpum, bæði fyrir fræðilegt ágæti og hagnýtt gildi kennaramenntunarinnar.

Þá er að nefna tengsl fræðilegs náms og hagnýts náms. Gagnrýni kennara og kennaranema hefur ekki síst beinst að tengslum fræðilegs og hagnýts náms. Margir hafa talið hið svokallaða hagnýta nám, t.d. kennsluæfingar, standa í of lausum tengslum við annað. Aðrir hafa talið hinn svokallaða fræðilega hluta kennaranámsins of stóran. Það er nauðsynlegt að brjóta til mergjar hvort tveggja, bæði hugmyndina og framkvæmdina. Í þessu sambandi er ástæða til að huga að því hvort ekki sé tímabært að koma á reynsluári fyrir nýbakaða kennara og þá undir stjórn reyndra handleiðslukennara.

Varðandi kennaramenntunina og nýbreytni í skólastarfi ber að minna á að gagnstætt fyrri tíð kalla æ örari þjóðfélagsbreytingar á sífellda þróun skólakerfisins til að bregðast við þeim. Ef vel á að vera þarf kennarastéttin að taka virkan þátt í þróun skólakerfisins og þróunarstarfi skólanna. Það er því eðlilegt að spurt sé hvernig kennaramenntunarstofnanir geti menntað sérhæft starfsfólk til þátttöku í þróunarverkefnum og stuðlað að færni kennara almennt til þeirrar þátttöku, svo og hvernig stofnanirnar geti sjálfar tekið þátt í nýbreytni og þróunarstarfi. Æfinga- og tilraunaskólar eru mjög þýðingarmikill þáttur í skólastarfi og æfinga- og tilraunaskóli Kennaraháskóla Íslands þarf að vaxa ef nýbreytni starfs í skólum á að vera markviss þáttur í skólaþróun.

Þá vil ég nefna hér tengsl Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem oft hefur verið til umræðu, m.a. hér á hv. Alþingi. Atriði sem tillagan varðar vekja til umhugsunar um stofnunargrundvöll kennaramenntunarinnar. Ef kennaramenntun á, eins og eðlilegt er um æðri menntun fagmanna, að vera vísindaleg menntun verður ekki hjá því komist að huga að tengslum kennaranáms við Háskóla Íslands. Athuga þarf hvernig kennaranámsskólarnir gætu unnið saman, tengst skipulagsböndum, menntað til rannsókna og staðið að rannsóknum sameiginlega, skipst á kennurum og nemendum, menntað nemendur sameiginlega og veitt þeim réttindi sameiginlega. Þótt ekki yrði horfið að því í bráð að sameina skólana formlega, svo sem mjög kemur til álita til framtíðar litið, þarf að fara fram athugun á því á hvern hátt verði komið á samvinnu eða sameiginlegri skipan sem gæti leitt til sameiningar stofnananna þegar fram líða stundir.

Rannsóknir og þar á meðal skólarannsóknir eru þáttur sem þurfa að fá mun gildari stuðning og vera mun gildari liður í sambandi við skólastarf en verið hefur og sama gildir um endurmenntun og símenntun. Þetta á einnig við um hinn vísindalega þátt kennaramenntunarinnar og allt sem lýtur að faglegum tökum kennara að reisa fagmenntun þeirra á vísindalegum grunni.

Ég vil þá að lokum, herra forseti, víkja aðeins að starfsaðstöðu og starfsháttum nefndarinnar. Till. gerir ráð fyrir að nefndinni verði séð fyrir nauðsynlegu starfsliði og annarri aðstöðu til að geta rækt vel verkefni sitt og að kostnaður vegna starfa hennar greiðist úr ríkissjóði. Hér er í senn um vandasamt og allumfangsmikið verk að ræða og það skiptir afar miklu að þar takist vel til. Það er æskilegt út af fyrir sig að hafa sjálfa nefndina ekki fjölmenna og væru 5-7 manns e.t.v. eðlileg mörk í því efni. Þeim mun nauðsynlegra er hins vegar að nefndin geti átt gott samstarf og samráð við þá er mál þetta einkum varðar, stofnanir, samtök og einstaklinga. Slíkt verður ekki rækt nema nefndinni verði búin góð skilyrði til starfa af hálfu menntmrn.

Samkvæmt tillögunni er nefndinni ætlað um eitt ár til starfa, þ.e. miðað er við að hún verði komin af stað með sitt verkefni seinni part komandi sumars.

Ég vil í þessu sambandi, herra forseti, vísa til skrifa mætra manna um þessi efni, manna eins og t.d. rektors Kennaraháskóla Íslands, Jónasar Pálssonar, sem skrifaði ítarlega grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 10. des. s.l. og vék að þeim mörgu þáttum sem snerta þörfina á þróun kennaramenntunar í landinu og vék sérstaklega að stöðunni að því er eigin stofnun varðar og minnti þar á að það er kennarinn sem ræður úrslitum um gæði fræðslunnar öllum öðrum fremur.

Ég vil einnig minna á þá skýrslu sem hæstv. menntmrh. kom á framfæri við Alþingi 20. jan. s.l. varðandi stöðu skólamála hér á landi og er unnin af sérstökum hópi manna á vegum OECD sem farið hefur ofan í þessi efni varðandi stöðu mála hér á landi. Í þeirri skýrslu er að finna fjölmargar gagnlegar ábendingar og spurningar, ekki síst sem varða stöðu kennara í landinu, hvernig kennarastarfið er metið eða öllu frekar vanmetið í okkar samfélagi og hversu mikið skortir á að hlynnt sé að námi kennara og aðstöðu þeirra allri til þess að þeir fái staðið að sínu þýðingarmikla verki með þeim hætti sem þeir sjálfir eflaust vilja upp til hópa og sem uppalendur í landinu, foreldrar, tvímælalaust óska eftir að geti orðið.

Ég vænti þess að við þessa umræðu komi það fram hvort á vegum menntmrn. er fyrirhugað að taka á þessum málum og hvaða undirtektir þessi till. fær frá hæstv. ráðherra menntamála.