04.02.1987
Efri deild: 37. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

316. mál, flugmálaáætlun

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er mjög þarft að áætlun sé gerð í flugmálum. Reyndar hefur Alþfl. hvað eftir annað komið með tillögur um að svo yrði gert. Á það hefur ekki verið hlustað en nú er það samt að verða að veruleika.

Ég er þeirrar skoðunar og reyndar margir að það sé mjög eðlilegt að flytja allt innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi nú þegar að hefja undirbúning að því að gera það, ekki aðeins vegna öryggisins sem hlýtur að vera mjög mikið - bæði er það að Reykjavíkurflugvöllur tekur upp dýrmætt land og öryggið er ekki eins og það ætti að vera, hvorki gagnvart íbúunum hér í borginni né flugfarþegum, aðstaða á vellinum er bágborin - heldur líka vegna þess að ég tel tímabært að huga að því að byggja nýja akbraut til Keflavíkur, einstefnuakbraut, sem gerði það að verkum að öryggi þeirra sem aka Reykjanesbrautina yrði margfalt meira en það er. Menn hafa tekið eftir því í fréttum hve slys eru tíð þar og hvað þau eru alvarleg. Það er fjöldi dauðaslysa sem þar hefur átt sér stað vegna þess að vegurinn er hvergi nærri nógu öruggur einkum vegna þess að umferðin er svo mikil. Sú braut sem nú er til staðar var byggð fyrir 20 árum og hefur umferð aukist mjög frá því það var.

Framsóknarmenn munu hafa í borgarstjórn Reykjavíkur verið með hugmyndir um að byggja einhvers konar einsporung eða hvað það heitir. Ég vænti þess að þeir hafi gert sér grein fyrir því hvað slíkt kostar þó það sé varla von á því, en þetta var ein af mörgum vitlausum tillögum sem þeir fluttu fyrir borgarstjórnarkosningarnar þannig að það er ekki ástæða til þess að gera mikið úr því.

Hitt er annað að það er mjög nauðsynlegt að byggja aðra akbraut til Keflavíkurflugvallar og Suðurnesjabyggða til að forða því að sú örtröð verði á þeirri einu akbraut sem fyrir er sem raun ber vitni.

Það kemur fram í flugmálaáætlun að brýnustu framkvæmdaverkefni á Reykjavíkurflugvelli séu: bygging nýrrar flugstöðvar, flughlaðs og akbrauta, endurnýjun malbiks á flugreinum og hlaði, bygging tækjageymslna, endurnýjun flugskýla og endurnýjun aðflugsbúnaðar. Þessar framkvæmdir kosta auðvitað stórfé og sjálfsagt er ekki allt upp talið. Ég hygg að það mætti spara þetta fé allt saman með því að flytja innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar og jafnframt að leggja fé fram til þess að byggja nýja akbraut. Ég bendi á að ekki tekur langan tíma að aka frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur eftir að einstefna er komin suður. Varla verður það meira en hálftími. Hef ég nokkra reynslu af því að aka þennan veg.

Ég reikna líka með því... (Samgrh.: Á hvaða hraða?) Ég kýs að svara ekki þessari spurningu, hæstv. samgrh. En ég tel að samfara þessu þurfi að færa Umferðarmiðstöðina, sem nú er á óhentugum stað, og setja umferðarmiðstöð þar sem betri samgöngur eru við strætisvagna þannig að aðkoma verði betri.

Ég hef verið að hugsa um að leggja fram þáltill. um þessa hluti og ég vænti þess að ef svo verður og þegar svo verður fái ég góðan stuðning til samþykktar henni. En ég tel að það sé tómt mál að ætla að halda áfram að nota Reykjavíkurflugvöll. Ég bendi á að erlendis þykir sú fjarlægð sem við erum að tala um til Keflavíkurflugvallar ekki mikil, reyndar lítil. Ég tel að öryggis vegna og allra þátta vegna sé eðlilegt að við framkvæmum þessa hluti og það sem allra fyrst.