05.02.1987
Sameinað þing: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2803 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

Tilraunasprenging með kjarnavopnum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli á þeirri uggvænlegu staðreynd að í fyrradag sprengdu Bandaríkjamenn í 20. sinn kjarnorkusprengju neðanjarðar í Nevadaeyðimörkinni eftir að hitt risaveldið, Sovétríkin, hafði haldið að sér höndum í meira en 11/2 ár í sambandi við slíkar tilraunasprengingar. Ég ætla að nota þetta tækifæri jafnframt til að beina fsp. til hæstv. utanrrh. varðandi afstöðu hans og ríkisstjórnarinnar í þessu afdrifaríka máli.

Það hafa miklar vonir verið bundnar við að einhliða frumkvæði af hálfu Sovétmanna að hætta tilraunasprengingum með kjarnavopn fengi undirtektir hjá gagnaðilanum, Bandaríkjunum, og það hafa komið fram hvatningar úr mörgum áttum á Bandaríkjastjórn að taka þátt í stöðvun með þessi háskavopn, þróun þessara háskavopna.

Eftir að tilraunasprenging fór fram í Nevada-eyðimörkinni í fyrradag, tveimur dögum áður en ráðgert hafði verið, til þess að koma í veg fyrir að mótmælendur innan Bandaríkjanna gætu verið viðstaddir eða reynt að koma í veg fyrir þennan verknað gerðist það á Bandaríkjaþingi að þingflokkur demókrata í annarri deild þingsins gerði samþykkt gegn þessari ákvörðun og vítti forsetann og stjórnina fyrir að eiga hlut að henni og nota ekki tækifærið til að ná fram skrefi til samninga um allsherjarbann, a.m.k. skrefi í þá átt.

Ég vil minna á, herra forseti, að Alþingi samþykkti 23. maí 1985 þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Samkvæmt þeirri ályktun fagnar Alþingi hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins og samkvæmt þeirri ályktun ályktar þingið að beina því til ríkisstjórnarinnar að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, og fleira er þarna tekið fram sem snertir að binda enda á kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið.

Það er jafnframt tekið fram í þessari ályktun að leita verði allra leiða til að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Alþingi telur samkvæmt þessari ályktun að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið. Áframhaldandi tilraunasprengingar með kjarnavopn og líkurnar á því að Sovétstjórnin taki nú upp af sinni hálfu sams konar tilraunir á nýjan leik stefna þróun mála, sem menn vonuðu að gæti orðið í rétta átt, í mikinn háska og ég hlýt að spyrja hér: Hvað hefur íslenska ríkisstjórnin aðhafst í sambandi við þetta mál? Ég spyr hæstv. utanrrh.:

1. Hver er afstaða hans og ríkisstjórnarinnar til ítrekaðra einhliða tilraunasprenginga Bandaríkjamanna með kjarnavopn?

2. Hefur ríkisstjórnin borið fram mótmæli við Bandaríkjastjórn vegna þessara nýjustu tilraunasprenginga eða verða slík mótmæli borin fram?

3. Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að knýja fram allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn, m.a. í ljósi ályktunar Alþingis frá 23. maí 1985?