28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

31. mál, kennaraskortur

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 31 borið fram fsp. til hæstv. menntmrh. um aðgerðir til að bæta úr kennaraskorti og efla skólastarf. Fsp. er svohljóðandi, í þremur liðum:

„1. Hvað líður störfum samstarfsnefndar menntmrn. og Bandalags kennarafélaga sem skipuð var að frumkvæði menntmrh. s.l. vetur og ætlað er m.a. að ræða um aðgerðir „svo unnt sé að bæta starfsaðstöðu í skólum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og efla skólastarf í landinu“?"

Þarna er orðrétt tilvitnun í bréf ráðherra til kennarasamtakanna þar sem hann óskar eftir að slík nefnd yrði skipuð.

„2. Hvaða tillögur hafa komið fram í nefndinni og hverjar þeirra eru komnar til framkvæmda?

3. Hvað hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að laða menntaða kennara til starfa og hvað er ráðgert í því efni á næstu mánuðum?"

Herra forseti. Á fyrri starfsárum þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr bar málefni skólanna, og ekki síst samskiptin við kennara í landinu, hátt. Þá var tekist á um stöðu þessarar starfsstéttar, sem er undirstaðan að farsælu skólastarfi, og við væntum þess að ríkisstjórnin hefði eitthvað vitkast af þeim samskiptum við kennarasamtökin. Það mátti ætla, þegar hæstv. menntmrh. skrifaði Bandalagi kennarafélaga 5. febr. s.l. og bar fram ósk um að Bandalag kennarafélaga tilnefndi sex fulltrúa í nefnd, að það horfði til betri vegar. Í þessu erindi ráðherrans sagði m.a. að verkefni slíkrar nefndar skyldi vera „að ræða um þau fjölmörgu mikilvægu atriði sem nauðsynlegt er að kryfja til mergjar svo unnt sé að bæta starfsaðstöðu í skólum, gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og efla skólastarf í landinu. Enn fremur hvernig menntmrn. og samtök kennara geti á markvissan hátt unnið að framkvæmd umbóta í skólastarfi.“

Við heyrum það frá hæstv. ráðh. hér á eftir hvernig til hefur tekist af hans hálfu og í samstarfi við kennara sem tilnefndir voru í nefndina sem fulltrúar sinna samtaka að ná fram þeim markmiðum sem hæstv. ráðh. viðraði í þessu erindi. Við vitum hve nauðsynin er brýn. Það sýna m.a. ráðningar réttindalausra starfsmanna að skólunum á þessu skólaári eins og raunar á hinum fyrri þar sem lítil breyting virðist hafa á orðið. Og fátt er brýnna í fræðslustarfi í landinu en að bót verði ráðin á hinum tilfinnanlega kennaraskorti.