09.02.1987
Neðri deild: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

321. mál, vaxtalög

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hafði stór orð um okurmálið sem svo hefur verið nefnt og ýmislegt sem ég hef sagt í því sambandi og er óhjákvæmilegt að ég svari því nokkrum orðum.

Hv. þm. orðaði það sjálfur svo að mistök hefðu orðið í ágúst 1984. Það er rétt. Einnig að mínu mati urðu þá mjög alvarleg mistök. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt, ég tel enn að þau mistök séu hneyksli. Það er hins vegar alrangt, sem hv. þm. fullyrti að ég hefði sagt, að þar hefði verið um lögleysu að ræða. Ég sagði hvað eftir annað að það lagaákvæði sem felur Seðlabankanum að ákveða hámarksvexti er heimildarákvæði og alls ekki er því hægt að segja að nein lög hafi út af fyrir sig verið hrotin.

Hv. þm. fullyrti jafnframt að í grg. með þessu frv. væri tekinn af vafi um að ríkisstjórnin liti svo á að framganga Seðlabankans hefði verið eðlileg. Það fæ ég ekki séð. Hann kann að vísa til setningar eins og þeirrar sem er á 6. bls.: „Var almennt litið svo á að orðalag 3. gr. laga nr. 58/1960 væri fullnægjandi þótt sú yrði ekki raunin í dómi Hæstaréttar 19. des. 1986.“ Ég sé ekki, ef við þetta er átt eða annað sem segir í grg., að þessi mistök í ágúst 1984 séu í þessari grg. á nokkurn máta talin eðlileg.

Hv. þm. vildi jafnframt fá að vita hvað gerst hefði í samþykkt ríkisstjórnarinnar í júlí 1984 og er sjálfsagt að fara um það nokkrum orðum. Eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin þá aðgerðir í efnahagsmálum sem mjög sneru að peningamálum. Í því sambandi lagði Seðlabankinn fyrir ríkisstjórnina ákveðnar tillögur um aðgerðir í peningamálum. Í þeim tillögum var m.a. lagt til að hækka vexti um 2% að lágmarki á innlánum og sömuleiðis lagt til að veita útlánsstofnunum heimild til að ákveða útlánsvexti og eins og sagði þar nokkurn veginn orðrétt: annaðhvort án nokkurra takmarkana eða innan ákveðinna marka. Þessu var mjög breytt í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 30. júlí 1984 eins og kemur fram m.a. í þessari greinargerð.

Eins og þarna kemur fram var ákveðið að vextir á sparibókum hækkuðu um 2% eða m.ö.o. ekki að lágmarki um 2% og eins og lagt var til. Einnig var samþykkt að veita innlánsstofnunum aukið svigrúm til sjálfstæðra ákvarðana annarra innlánsvaxta og útlánsvaxta, þó þannig að ekki leiddi til hækkunar á vaxtamun. Ég held að ég megi mæla, þó að ég væri að vísu fjarstaddur þá, fyrir munn þeirra sem þarna voru að eftir fundi með bankastjórum var talið að þetta ákvæði, að ekki leiddi til aukins vaxtamunar, tryggði að útlánsvextir færu ekki upp úr öllu valdi. Reyndar held ég að það hafi vissulega gert það því ljóst er að þegar innlánsvextir eru takmarkaðir, eins og ákveðið var með 2% hámarkshækkun á vöxtum á sparisjóðsbókum, er þar með takmörkun sett á hæð útlánsvaxta.

Í allri þessari meðferð var aldrei nokkurn tíma ýjað að því, eða nokkurn tíma talið líklegt að okurvextir yrðu gefnir frjálsir. Aldrei var um það rætt og kemur greinilega fram í allri umræðu um þetta mál. Vitanlega var það Seðlabankans að ákveða eftir sem áður hvernig hann fullnægði lögum nr. 58/1960 sem fjalla um okurlán. Ríkisstjórnin tók enga afstöðu til þess fremur en hún hafði gert áður hvernig Seðlabankinn gengi frá þeim málum.

Í rauninni var líklegt að Seðlabankinn hafi talið, eins og hann gaf út tilkynningu sína 2. ágúst 1984, að þetta væri tryggt. Svo reyndist ekki vera. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur komust að þeirri niðurstöðu að þarna hefði þess ekki verið gætt. Og ég hlýt að endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að það eru svo vissulega alvarleg mistök hjá Seðlabanka Íslands að ganga ekki betur úr skugga um að tilkynningin eins og hún var gefin út 2. ágúst 1984 væri fullnægjandi samkvæmt okurlögunum. Seðlabankinn hefur að sjálfsögðu fjöldann allan af sérfróðum mönnum til að leita í þessu sambandi og hefði átt að ganga betur úr skugga um það.

Reyndar kom einnig fram í blaðaskrifum um þetta leyti að ekki hefði verið hugsað til þess hvernig ákveða á hámarksvexti sem eru breytilegir á skuldabréfum, m.a. rætt í ítarlegri grein í Morgunblaðinu ef ég man rétt 20. ágúst 1984. Þar kemur greinilega fram að mistök urðu fleiri en ein, og ég vísa því algerlega á bug að þau mistök hafi verið hjá ríkisstjórninni. Ég vísa því á bug að ríkisstjórnin hafi gert nokkurn skapaðan hlut sem gaf undir fótinn með að breyta ætti því eftirliti sem lög nr. 58/1960 gera ráð fyrir að Seðlabankinn hafi með hámarksvöxtum gagnvart svonefndu okri. Aldrei var, ég endurtek, á það minnst. Aldrei var gefið undir fótinn með að þar ætti nokkurn skapaðan hlut að losa um.

Eins og kemur einnig fram í grg. með frv. breytti Seðlabankinn í desember 1984 allverulega birtingu hámarksvaxta og þar með gildi hámarksvaxta gagnvart lögum nr. 58 frá 1960 og kom sú breytta skipan til framkvæmda 1. jan. 1985. Það er út af fyrir sig athyglisvert að héraðsdómur telur að sú framkvæmd mála sé fullnægjandi gagnvart okurlögunum en Hæstiréttur ekki.

Ég held að mönnum muni einnig vera ljóst að þar er töluverð breyting gerð og má fremur deila um niðurstöðu Hæstaréttar hvað varðar birtingu hámarksvaxta eftir áramótin 1984/1985. Í raun og veru kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hafi ekki heimild gagnvart okurlögum að framvísa til viðskiptabankanna þeirri ákvörðun á hámarksvöxtum sem hann gerir í raun með ákvörðun um hámarksvexti eins og framkvæmt er eftir 2. ágúst 1984.

Umræðu frestað.