11.02.1987
Efri deild: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

119. mál, umferðarlög

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Þetta lagafrv. er núna á þriðja þingi og brýna nauðsyn ber til að það verði að lögum nú. Ég vona að takist að afgreiða það, svo mörg og merkileg nýmæli er þar að finna. Ég ætla ekki að ræða um nema örfá atriði og skal ljúka máli mínu mjög fljótt.

Í fyrsta lagi er ég ósamþykkur brtt. hv. allshn. um hækkun hámarkshraða. Ég held að það séu engir vegir á Íslandi sem í raun þola nema í mesta lagi 90 km hámarkshraða. Ég tel að það sé þá betra, og reyndar verði þá að sjá í gegnum fingur við vissar aðstæður að menn fari hraðar, en að gefa það upp sem 90-100 km hámarkshraða á vegum þýðir í raun og veru 5-10 km meiri meðalhraða á þessum svæðum. Það held ég að allir hljóti að vera sammála um, sem þekkja íslenska vegi og íslenska vegagerð, að það er hvergi á landinu sem aðstæður eru slíkar að 100 km hámarkshraði sé raunhæfur út frá öryggissjónarmiði, svo mjög skortir á að frágangur vega sé með þeim hætti að það sé skynsamlegt að fara í svo háan hámarkshraða. Það er einungis á vegum með tvískiptum akreinum, tveimur í hvora átt, sem hugsanlegt er að hafa hámarkshraðann 100 eða jafnvel upp í 110 eins og er víða á Norðurlöndum þar sem skilyrði eru hvað best.

Í öðru lagi tel ég brýna nauðsyn bera til að tekinn verði upp ljósatími allt árið. Það hefur sýnt sig hér að sumarlagi að ryk á vegum og annað slíkt krefst þess að ljós séu höfð og fjölmargir aka með ljósum allt árið. En ég held að það mundi bæta ástandið verulega ef tekin væri upp ljósaskylda allt árið um kring.

Í þriðja lagi fagna ég mjög að þarna er gerð tillaga um nýja aðferð við skráningu ökutækja. Ég tel reyndar furðu gegna að það skuli ekki hafa verið fyrir mörgum árum tekið upp það skráningarform sem hér er lagt til, bæði með frv. og fylgifrumvarpi þess. Það getur ekki verið að við höfum ráð á að eyða stórum fúlgum árlega vegna örfárra aðila sem hafa á einhvern hátt bitið sig í eitthvert fast númer og jafnvel erfðagrip. Það geta ekki verið nein rök fyrir óhagkvæmni og stórauknum kostnaði við skrásetningu.

Fjórða málið sem ég vildi minnast á eru að sjálfsögðu bílbeltin. Það hefur sýnt sig að notkun bílbelta hefur dregið úr meiri háttar slysum. Þau eru gífurleg vörn við mjög margar aðstæður. Ég held að það hljóti að fara að verða íhugunarvert hvort ekki eigi að taka upp viðurlög í sambandi við hirðuleysi í notkun þessara öryggistækja.

Þá er loks fimmta atriðið sem ég vildi minnast á og ég held að við komumst ekki hjá að ræða og það er frágangur vega og vegamóta. Fyrir nokkrum dögum var þáttur um umferðarmál í sjónvarpi. Ég er alveg hættur að muna á hvaða stöðvum allt það upplýsingamagn er sem flæðir yfir mann, hvort það er Rás 1 eða 2, Ríkissjónvarpið, Stöð 2 eða í blöðum eða yfirleitt hvar. Þar var t.d. umræða um nýju brúna yfir Kringlumýrarbrautina inn í Fossvoginn, inn á Bústaðaveginn, sem er gífurleg umferðarbót. Þar hafa orðið nokkur umferðaróhöpp sem talin eru stafa af því að ekki er búið að ganga nægilega vel frá aðstæðum. Gatnamálastjóri lét þess getið að ekki hefði verið fjármagn til að fullgera þessi mjög mikilvægu gatnamót þar sem umferðarþungi er gífurlegur. Ég held að það hljóti að vera eitt af brýnustu viðfangsefnum í umferðarmálum að þann veg sé gengið frá gatnamótum og götum og vegum að ekki sé hægt að kenna um hirðuleysi eða fjárskorti að þar verði slys, jafnvel mjög alvarleg slys.

Þetta er vissulega mál sem ekki á beinlínis heima í umferðarlögum, en Alþingi og fjárveitingavald hlýtur að láta sig það miklu skipta að þar sé gengið frá og fullgerð þau vegamót og sniðnir af þeir vankantar sem á vegagerð eru þar sem það hefur sýnt sig að mikil hætta er á umferðaróhöppum. Ég þarf ekki í þessu sambandi að nefna Kúagerðissvæðið sem svo mjög hefur verið í umræðu að undanförnu, en þar er ekki nema um eitt að ræða og það er að leggja þar tvöfalda braut.

Svona í framhjáhlaupi vil ég taka undir það sem hv. 5. landsk. þm. sagði um hirðuleysi varðandi ljós ökutækja. Ég var eins og vafalaust margir löghlýðnir borgarar að skila skattaskýrslu í gærkvöld og ég gekk heiman að frá mér um níuleytið ofan í bæ og heim aftur. Ég kastaði að vísu ekki tölu á þá sem voru eineygðir í umferðinni, þ.e. bifreiðar, maður er eiginlega hættur að kippa sér upp við það, en þegar stórir sendiferðabílar koma eins og svartir skuggar algerlega ljóslausir á miklum umferðargötum hrekkur maður óneitanlega svolítið við. Ég held að löggæslan eigi að taka þessi mál miklu fastari tökum en gert hefur verið til þessa.