12.02.1987
Sameinað þing: 49. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3025 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

306. mál, veiting sterkra drykkja á vegum ríkisins

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Sem betur fer geta oft skapast ágætar umræður hér þótt fáir séu viðstaddir. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka þeim hv. tveimur þm. sem hér hafa tekið til máls og fjallað um efni till. Í báðum ræðunum kom margt mjög gott fram sem gaman væri að velta frekar fyrir sér og spjalla um.

Mér þykir heldur verra ef hv. síðasti ræðumaður hefur tekið orð mín svo að ég væri að drótta að hv. þm. Sjálfstfl. að þeir væru þorstlátari en aðrir þm. Það var alls ekki meining mín, en mér fannst einhvern veginn þurfa að koma fram einhver skýring á því að það væru þarna fulltrúar fjögurra þingflokka en ekki þess fimmta og vildi láta það koma fram að ég hefði sannarlega leitað eftir stuðningi í þeim þingflokki.

Það er hárrétt að menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvernig megi best vekja athygli eða vinna þessum málum gagn og ég tek fyllilega undir það sem hér var sagt um þýðingu fræðslunnar og áróðursins, en það er einmitt það sem mér finnst felast í þessari till., þ.e. áróður, fordæmi. Það er eiginlega megintilgangurinn með tillöguflutningnum, þ.e. að á vegum hins opinbera verði komið fram með þeim hætti að aðrir geti tekið sér það til fyrirmyndar.

Mér fannst mjög gott það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um framburð veitinga í veislum, þ.e. hversu áfenginu er gjarnan gert miklu hærra undir höfði en óáfengum drykkjum. Það er alveg hárrétt að það getur haft sín áhrif.

Ég hefði fegin viljað heyra fleiri tjá sig um þetta mál, en ég endurtek þakkir mínar til hv. ræðumanna sem hér hafa komið og rætt það.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.