17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

329. mál, Skriðuklaustur

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Í morgun bárust mér í hendur drög að áliti þeirrar nefndar sem ég skipaði með bréfi dags. 10. júlí 1986, en hana skipuðu Halldór Sigurðsson, stjórnarformaður Safnastofnunar Austurlands, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, Þorsteinn Tómasson, forstjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, og Finnur Sveinbjörnsson, starfsmaður Fjárlaga- og hagsýslustofnunar.

Nefndin hélt fjóra formlega fundi auk óformlegra viðræðna nefndannanna. Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn á Skriðuklaustri, en hinir í Reykjavík. Nefndin átti ágætt samstarf við Þórarin Lárusson, tilraunastjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Skriðuklaustri.

Í skipunarbréfi nefndarmanna er vísað til samkomulags menntmrh., landbrh. og fjmrh. frá 12. okt. 1979 um ráðstöfun á Skriðuklaustri og mannvirkjum á jörðinni. Þetta samkomulag og ákvæði í gjafabréfi Gunnars Gunnarssonar og Francisku Gunnarsson mótuðu tillögur nefndarinnar.

Í skipunarbréfi nefndarmanna segir að nefndin skuli fjalla um málefni Skriðuklausturs. Nefndarmenn voru þó sammála um að nefndinni væri fyrst og fremst ætlað að fjalla um hús Gunnars Gunnarssonar og Francisku, Gunnarshús, og nánasta umhverfi þess. Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur með samþykki landbrh. gert samning við Búnaðarsamband Austurlands um rekstur tilraunastöðvar í landbúnaði á jörðinni.

Ég hleyp svo yfir þar sem í þessum drögum að skýrslu nefndarinnar er fjallað um forsögu þessa máls en vík að tillögum þeim sem nefndin hefur komið sér ásamt um að gera.

Nefndin telur að notkun Skriðuklausturs og Gunnarshúss fyrir tilraunastarfsemi í landbúnaði sé í fullu samræmi við ákvæði í gjafabréfi Gunnars og Francisku og samkomulagi ráðherranna þriggja frá 1979. Tillögur nefndarinnar eru í forgangsröð og nefndin gerir sér ljóst að framkvæmdahraði hlýtur að fara eftir því hversu mikið fé fæst til neðangreindra verkefna á fjárlögum hverju sinni.

Númer eitt nefna þeir skipulag lóðar umhverfis Gunnarshús. Nefndin leggur ríka áherslu á að sem fyrst verði hafin vinna við að færa lóðina umhverfis Gunnarshús í gott horf. Nefndin bendir á að árið 1989 eru liðin 100 ár frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar og því aðkallandi að skipulag lóðar sé farið að taka á sig einhverja mynd á því ári. Því er lagt til að sérfróður maður verði fenginn til að gera tillögu um skipulag lóðar umhverfis húsið.

Í öðru lagi nefnir nefndin öflun vatns. Núverandi vatnsból er ófullnægjandi og því leggur nefndin til að gengið verði frá öruggu vatnsbóli hið fyrsta.

Í þriðja lagi nefnir nefndin einangrun þaks. Þak hússins er ekki einangrað og af þeim sökum er kyndingarkostnaður hússins hærri en hann þyrfti að vera. Undir risi hússins er rými þar sem ákjósanlegt væri að innrétta fundarherbergi sem mundi auka stórlega not af húsinu, hvort heldur Rannsóknastofnun landbúnaðarins nýtir húsið eða annar aðili.

Í fjórða lagi nefnir nefndin innréttingu norðurálmu. Nefndin leggur til að sérfróður maður verði fenginn til að skipuleggja norðurálmu Gunnarshúss þannig að hún verði skilin frá hinni álmu hússins. Jafnframt verði komið þar fyrir í samráði við þjóðminjavörð herbergi til minningar um Gunnar Gunnarsson og Francisku Gunnarsson og aðstöðu fyrir fræðimenn, skáld eða aðra sem kynnu að vilja dveljast á Skriðuklaustri um hríð. Um rekstur slíks húsnæðis yrði að semja við Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Í fjárlögum fyrir árið 1987 eru veittar 800 þús. kr. til viðhalds á Skriðuklaustri en ekki er að fullu ljóst hversu há fjárhæð gæti verið til ráðstöfunar í ofangreind verkefni á þessu ári. Nefndin ræddi um nauðsyn þess að fjárveitingar til að gera við Gunnarshús kæmu fram á sérstökum fjárlagalið óháðum Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Nefndin leggur til að svo verði gert í framtíðinni.

Ég vil aðeins geta þess, sem ekki kemur fram í þessum drögum að skýrslu sem ég hef vitnað hér til, að því hefur verið hreyft, og að mínu áliti er það áleitin hugmynd, að komið yrði fyrir í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri bókasafni Páls Gíslasonar á Aðalbóli sem er mjög merkilegt safn bónda, eitt hið stærsta í einkaeigu á Íslandi, bónda fram til afdala sem safnaði saman af feiknalegum hug og framsýni um sína daga og ég vildi fyrir mitt leyti leggja til að að því máli yrði hugað alveg sérstaklega.

Ég hef engin áform uppi um það með hvaða hætti minnst verður 100 ára afmælis Gunnars Gunnarssonar skálds, en vel færi á því að minnast þess bæði hér í höfuðborginni og svo auðvitað á hans heimaslóðum. Ýmislegt kann mönnum vafalaust að koma til hugar og menntmrn. er reiðubúið til þess að leggja sitt af mörkum fyrir utan það sem hér er ráðslagað með að slík minningarhátíð megi fara vel og virðulega úr hendi.