17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

343. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði í sambandi við þá fsp. sem komin er fram um kennslu á háskólastigi í sambandi við sjávarútvegsfræði. Sjálfsagt er mikilsvert að þar eigi sér stað einhver þróun og þar eigi sér stað kennsla í sjávarútvegsfræðum, kannske ekki innan þeirra marka sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, fyrst og fremst í verkfræðigreinum. Ég held að í Háskólanum væri kannske mest um vert að matvælafræði væri aukin og betrumbætt og hún tengd einmitt þessum fræðum. Ég tel aftur á móti að það sem okkur vanti núna brýnast í sambandi við sjávarútvegsfræði sé kennsla á grunnskólastigi og fjölbrautaskólastigi og hef í tengslum við það lagt fram þáltill. hér á hv. Alþingi um það að kennsla á þessu stigi, grunnskóla og sérstaklega fjölbrautaskólastigi, verði efld og skipulögð og endurbætt frá því sem nú er.