19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu mikið, en eins og sjá má á nál. skrifa ég undir með fyrirvara. Ég tel að það sé engin þörf á því að hafa sjö manna nefnd þegar nægir að hafa fimm. Ég tel ekkert mæla með því t.d., eins og hér er lagt til í brtt., að Búnaðarfélag Íslands skipi fulltrúa í þessa nefnd. Það mætti alveg eins hugsa sér að Fiskifélagið skipaði fulltrúa í þessa nefnd, fiskideildirnar hringinn í kringum landið. Hvaða vit er í svoleiðis hlutum? Málið er að mínu viti alveg tryggt í höndum þeirrar nefndar sem frv. gerir ráð fyrir að verði sett upp og er óþarfi að bæta við. Á því byggist minn fyrirvari að ég er andvígur því að breyta því og mun ekki greiða brtt. atkvæði.